Grundarfjarðarhöfn hlýtur styrk

Iðnaðarráðuneytið auglýsti í febrúar eftir styrkumsóknum til uppbyggingar í ferðaþjónustu á landsbyggðinni. 210 umsóknir bárust og er það til marks um mikla grósku í þeim geira þessa dagana. Grundarfjarðarhöfn hlaut styrk að upphæð 6,3 milljónum króna. Styrkurinn verður nýttur til uppbyggingar á höfninni. Þar sem Litlabryggja stóð mun verða komið fyrir flotbryggju til að bæta aðgengi fyrir gesti skemmtiferðaskipa og auk þess verður ráðist í fegrun á því svæði.  Settir verða upp bekkir, lýsing bætt og hellulagt svo eitthvað sé nefnt. Framkvæmdir eru nú þegar hafnar og er búist við að þeim verði lokið í maí.   Hér má sjá styrkþega.

Sumardagurinn fyrsti

 

Handverkshópurinn

Handverkshópurinn tilkynnir að mæting verður í fjarnámsherberginu upp á Borgarbraut á fimmtudaginn 23. apríl klukkan 20:00. Allir velkomnir. 

Snæfellsnes ein fjölbreytt heild

„Snæfellsnes á tímamótum – hamingja í heimabyggð“ var yfirskrift íbúafunda sem Kvarnir, áhugahópur um framtíðina á Snæfellsnesi, héldu nýverið í samvinnu við sveitarfélög.  Fundirnir voru fjórir, í Snæfellsbæ, á Breiðabliki, í Grundarfirði og Stykkishólmi.  Eftir því sem næst verður komist er þetta í fyrsta skipti sem fram fer almenn umræða meðal íbúa um framtíðarsýn fyrir Snæfellsnes.  Samkvæmt skilaboðum fundanna er mikilvægt nú á breyttum tímum að samfélögin á Nesinu snúi bökum saman og líti á svæðið sem eina heild.  Ýmsir telja tímabært að sameina sveitarfélögin en aðrir vilja leggja áherslu á sjálfsprottna samvinnu og auka hana enn frekar en nú er.  

Kjörskrá vegna Alþingiskosninga

Kjósendur í Grundarfirði athugið !   Kjörskrá vegna kosninga til Alþingis laugardaginn 25. apríl n.k. verður lögð fram föstudaginn 17. apríl 2009 á skrifstofu Grundarfjarðarbæjar.  Kjörskráin liggur frammi til athugunar fyrir kjósendur á opnunartíma skrifstofunnar mánudaga til fimmtudaga frá kl. 09.30 - 15.30 og á föstudögum kl. 09.30 - 14.00.  Ábendingum eða athugasemdum vegna kjörskrár skal komið til bæjarstjóra í síðasta lagi þ. 25. apríl 2009.   Bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar.

Mikill áhugi á nýrri gönguleið

  Þriðjudaginn s.l. var haldinn kynningarfundur í Sögumiðstöðinni í Grundarfirði. Gunnar Njálsson kynnti  hugmyndir um gerð nýrrar gönguleiðar eftir Snæfellsnesfjallgarði, frá Ljósufjöllum að Snæfellsjökli. Páll Ásgeir Ásgeirsson kom fyrir hönd Ferðafélags Íslands, kynnti samtökin og starf þeirra. Vel var mætt á fundinn af öllu Snæfellsnesi og einhugur var í fólki. Sammæltust fundarmenn um að stofnaður yrði áhugahópur um þetta verkefni og fleiri af sama meiði, Ferðafélag Snæfellinga, sem yrði deild undir Ferðafélagi Íslands. Boðað verður til stofnfundar innan skamms.  

104. fundur bæjarstjórnar

104. fundur bæjarstjórnar verður á morgun fimmtudaginn 16. apríl 2009 í samkomuhúsinu klukkan 16:15. Eru allir velkomnir að koma og hlýða á það sem fram fer. Fundarboð og dagskrá má finna hér.

Fyrirlestur um gönguleið

Í kvöld, 14. apríl kl. 20.00 mun Gunnar Njálsson halda fyrirlestur í Sögumiðstöðinni á hugmynd á nýrri gönguleið eftir Snæfellsnesfjallgarði, frá Ljósufjöllum að Snæfellsjökli. Gunnar verður einnig með skjásýningu og félagar frá ferðafélagi Íslands munu koma og kynna starf sitt. Áhugasamir um ferðaþjónustu, gönguleiðir og útivist eru hvattir til að mæta.

Handverkshópurinn

Handverkshópurinn minnir á að á morgun 9.apríl verður mæting klukkan 20:00 í fjarnámsherberginu upp á bókasafni. Allir velkomnir. 

Grundfirðingur sigrar í forritun

Mynd af vef FSU   Enn ein fréttin af ungum heimamanni að gera það gott. Við Grundfirðingar getum svo sannarlega verið stolt. Þann 20. – 21. mars síðastliðinn var haldin Forritunarkeppni framhaldsskólanna í Háskólanum í Reykjavík. Keppnin er fyrir alla nemendur í framhaldsskólum sem hafa áhuga á hönnun, forritun og tölvum. Metaðsókn var í keppnina þetta árið og tóku 30 lið þátt.