Hundur í óskilum

Þessi hundur fannst laus í bænum og er eigandi hans beðinn um að vitja hans í Áhaldahúsinu.   

Þorsteinn Steinsson tekur til starfa

  Frá vinstri: Elsa Björnsdóttir, bæjarfulltrúi; Rósa Guðmundsdóttir, varaforseti bæjarstjórnar; Þorsteinn Steinsson, bæjarstjóri; Sigurlaug Sævarsdóttir, skrifstofustjóri og Eyþór Garðarsson, forseti bæjarstjórnar.   Þorsteinn Steinsson hefur tekið til starfa sem bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar. Forseti bæjarstjórnar, Eyþór Garðarsson, færði Þorsteini blómvönd fyrir hönd bæjarstjórnarinnar. Þorsteinn tekur við af Birni Steinari Pálmasyni sem starfaði sem bæjarstjóri í fjögur ár. Síðastliðin sextán ár hefur Þorsteinn gegnt starfi sveitarstjóra Vopnafjarðarhrepps.   Við bjóðum Þorstein velkominn til starfa.      

Við minnum á ljósmyndasamkeppnina

Grundarfjarðarbær efnir á ný til ljósmyndasamkeppni árið 2014. Þetta er í fimmta sinn sem bærinn blæs til ljósmyndasamkeppni og hefur þótt takast vel til. Á þennan hátt hefur bærinn fengið nýjar myndir til birtingar og þátttakendur sínar myndir birtar.   Myndefni samkeppninnar í ár er Fólk að störfum. Myndirnar verða að vera teknar innan sveitarfélagsmarka. Samkeppnin stendur til 30. september 2014 og má hver þátttakandi senda inn að hámarki fimm myndir.   Verðlaun verða veitt fyrir þrjár bestu myndirnar. Fyrstu verðlaun eru 50.000 kr., önnur verðlaun 30.000 kr. og þriðju verðlaun 20.000 kr.  

Ræstingar

Fjölbrautaskóli Snæfellinga óskar eftir því að ráða starfsmann í ræstingar. Umsóknarfrestur er til 25. ágúst 2014.   Um er að ræða 50% stöðu. Vinnutími er frá 13:30 til 17:30. Laun greiðast eftir kjarasamningi SFR og fjármálaráðherra. Ráðið verður í stöðuna frá  25. ágúst 2014. Umsóknir skulu hafa borist Ólafi Tryggvasyni, Grundargötu 44, 350 Grundarfirði eða á netfangið olafur@fsn.is í síðasta lagi 25. ágúst 2014. Umsóknir þurfa ekki að vera á sérstökum eyðublöðum. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.   Nánari upplýsingar gefur Ólafur Tryggvason húsvörður, sími: 891-8401, netfang: olafur@fsn.is eða skólameistari Jón Eggert Bragason sími: 8917384,netfang:joneggert@fsn.is    

Upphaf skólastarfs FSN haustönn 2014

Stundatöfluafhending/birting verður 19. ágúst kl. 11-12:30.   Þriðjudaginn 19. ágúst kl.10 – 14 verður nýnemum kynntir helstu þættir skólastarfsins.   Skólasetning og fyrsti kennsludagur á haustönn 2014 er föstudaginn 22. ágúst kl. 8:30. Að lokinni skólasetningu hefst kennsla samkvæmt stundatöflu.   Töflubreytingar verða 25. ágúst – 29. ágúst.    

Laus staða leikskólastjóra

Grundarfjarðarbær óskar að ráða til starfa leikskólastjóra á Leikskólann Sólvelli. Leikskólastjóri ber fag- og rekstrarlega ábyrgð á starfi skólans. Leitað er að einstaklingi sem hefur skýra sýn í skólamálum og er reiðubúinn að leita nýrra leiða í skólastarfi.   Menntunar- og hæfniskröfur: ·         Leikskólakennaramenntun og kennslureynsla er skilyrði ·         Framhaldsmenntun á sviði stjórnunar er æskileg ·         Frumkvæði, metnaður, skipulagshæfni og leiðtogahæfileikar ·         Hæfni í mannlegum samskiptum   Nánari upplýsingar veitir Sigurlaug R. Sævarsdóttir, skrifstofustjóri, í síma 430 8500 eða með því að senda fyrirspurnir á sigurlaug@grundarfjordur.is. Umsóknir sendist á framangreint netfang.   Umsóknum um starfið skal fylgja greinargott yfirlit yfir menntun, fyrri störf, ábendingar um meðmælendur og annað það sem umsækjandi telur máli skipta.   Umsóknarfrestur er til 17. ágúst nk.  

Laust starf leikskólakennara

Grundarfjarðarbær óskar eftir að ráða leikskólakennara til starfa. Leikskólakennari vinnur að uppeldi og menntun barna undir stjórn deildarstjóra samkvæmt starfslýsingu.  

Laust starf aðstoðarmatráðs

Grundarfjarðarbær óskar eftir að ráða starfskraft í 75% stöðu til að sinna aðstoð í eldhúsi Leikskólans Sólvalla. Vinnutími er kl. 8:00-14:00.  

Bókaverðlaun barnanna 2014

Bækur barnanna 2013 Kosning á bókum sem komu út árið 2013 er í fullum gangi.Lesendur á aldrinum 6-12 ára geta valið bestu barnabækur sem komu út árið 2013. Hver lesandi má velja allt að 3 bækur. Tvær bækur verða verðlaunaðar, önnur frumsamin og hin þýdd. Hægt er að velja bækurnar fram til 5. september. Í Grundarfirði þarf að skila seðlum til bókasafnsins eða skólabókasafnsins til að eiga möguleika á glaðningi en dregið verður úr innsendum seðlum.   Munið bókasafnadaginn 8. september. Kíkið á auglýsingar í flestum fjölmiðlum þegar nær dregur.