- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Á 301. fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar 11. september 2025 og á 302. fundi bæjarstjórnar 9. október 2025 var enn og aftur rætt um ástand þjóðvega á Snæfellsnesi, en undir framangreindum hlekkjum má sjá fundargerðirnar.
Bókanir bæjarstjórnar eru nánast samhljóða á þessum fundum og eru þannig:
Ályktun um viðhald þjóðvega á Snæfellsnesi
Málsnúmer 2009014
Enn ræðir bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar um samgöngumál og ástand þjóðvegar 54, Snæfellsnesvegar. Bæjarstjórn hefur margsinnis gert athugasemdir við hættulegt ástand þjóðvegarins, á Snæfellsnesi og langleiðina suður í Borgarnes.
Í febrúar sl. sendu sveitarstjórnir á Vesturlandi ákall til forsætisráðherra og innviðaráðherra um að brýn þörf væri til að bregðast strax við bágbornu ástandi tiltekinna vegarkafla, með neyðarfjárveitingu í allra brýnustu viðgerðirnar, til að tryggja íbúum, atvinnulífi og ferðafólki lágmarks öryggi á vegunum. Bæjarstjórn þakkar ráðherrunum fyrir að hafa brugðist við ákalli sveitarstjórnarfólks á Vesturlandi, fyrir samtal um vegamálin á fundi 10. mars sl. og fyrir það viðbótarfjármagn sem veitt var í vegagerð, m.a. á Vesturlandi, gegnum fjáraukalög í sumar.
Til Vestursvæðis Vegagerðarinnar (Vesturland og Vestfirðir) komu þannig 1.180 millj. kr. í viðbótarfjárveitingu og er það vel. Af þeirri fjárhæð fengu vegir á Snæfellsnesi 120 millj. kr., skv. svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn bæjarstjóra, eða rétt rúm 10% af viðbótarfé Vestursvæðisins. Í svari Vegagerðarinnar segir ennfremur að vegir innan marka Grundarfjarðarbæjar hafi enga fjárveitngu fengið, en það sem framkvæmt var við Grundarfjörð hafi verið unnið fyrir styrkvegafjárveitingu Vestursvæðis og hafi verið búið að bjóða það verk út áður en viðbótarfjármagnið kom.
Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar lýsir enn og aftur yfir þungum áhyggjum af bágbornu og hættulegu ástandi þjóðveganna á Snæfellsnesi. Hættan sem leiðir af ástandi veganna er algjörlega óviðunandi fyrir notendurna. Á það jafnt við um íbúa, gesti, atvinnubílstjóra og neyðarflutninga. Jarðsig og frostskemmdir hafa gert veginn ósléttan yfirferðar, slitlag er gróft og bútakennt eftir áralangar holufyllingar, vegkantar eru víða brotnir og hafa gefið eftir á löngum köflum og víða eru vegir of mjóir. Á sumum stöðum er vatnsagi á vegi mikið vandamál.
Verulega aukin umferð, þar á meðal stórauknir þungaflutningar á síðustu árum, sumar sem vetur, kallar á aukin framlög til vegagerðar, ekki síst til almenns viðhalds. Þó nýjar vegaframkvæmdir séu af hinu góða, þá má ekki gleymast að sinna viðhaldi eldri vega. Í þeim liggja mikil verðmæti sem fara forgörðum, sé viðhaldi þeirra ekki sinnt.
Í febrúar sl. þurfti Vegagerðin að moka tjöru af „blæðandi“ þjóðvegum á Snæfellsnesi. Fjölmargir akandi vegfarendur urðu fyrir óþægindum og tjóni á ökutækjum sínum, vegna ástands þjóðveganna, þegar þykk tjara lagðist á hjólbarða og aðra fleti bifreiða. Slíkt er ekki einungis hvimleitt, heldur er umferðaröryggi stórlega ógnað í slíku ástandi, auk þess sem það veldur eigendum ökutækja fjárhagstjóni. Viðbúið er að slíkt ástand geti skapast aftur eins og ástand umræddra vega er.
Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar ítrekar fjölmargar fyrri bókanir sínar um ástand þjóðvegar 54, Snæfellsnesvegar og óskir um stóraukna fjármuni til nauðsynlegra viðgerða og viðhaldsframkvæmda á þjóðvegi 54, nú þegar tillaga að samgönguáætlun komandi ára fer að líta dagsins ljós.
---
Á fundi bæjarstjórnar 9. september sl. var að auki lagður fram tölvupóstur Vegagerðarinnar, sem svar við fyrirspurn bæjarstjóra frá 28. ágúst sl., um hvernig því viðbótarfé sem fékkst til vegagerðar árið 2025, ætti að verja eða hefði verið varið. Gerð var sérstök bókun þar sem því var fagnað að hluti þjóðvegar 54, frá Hellnafelli og vestur fyrir brúna yfir Kirkjufellsá, hafi verið styrktur og lagður slitlagi nú í sumar, en því jafnframt flaggað að bæjarstjórn hefði viljað sjá malbikað bæði á þessum kafla, sem og þjóðveginn austan við þéttbýlið.
Ályktun bæjarstjórnar hefur verið komið á framfæri við innviðaráðherra og forsætisráðherra.
Bæjarstjórn bindur vonir við að tillaga að nýrri samgönguáætlun, sem lögð verður fram í þinginu innan tíðar, muni bæta úr þessu ástandi, þannig að um muni.
---
Hér má nálgast umræðu og fjölmargar bókanir bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar um ástand þjóðveganna.
Ályktun aðalfundar Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, 26. mars 2025 um vegamál, frétt SSV.