- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Vinnslutillaga fyrir Deiliskipulag Grundarfjarðarhafnar ásamt greinargerð með tilkynningu til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu vegna stækkunar hafnarsvæðisins
Á fundi sínum 13. nóvember 2025 samþykkti bæjarstjórn bókun skipulags- og umhverfisnefndar frá 10. nóvember 2025, um að auglýsa tillögu um nýtt deiliskipulag Grundarfjarðarhafnar til kynningar á vinnslustigi skv. 40. gr. skipulagslaga. Einnig var samþykkt greinargerð sem lýsir helstu umhverfisáhrifum stækkunar hafnarsvæðisins, sem fylgigagn með deiliskipulaginu. Grundarfjarðarhöfn mun nýta þessi gögn með tilkynningu sem send er til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu stækkunar hafnarsvæðisins, skv. lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
Svæðið sem til stendur að deiliskipuleggja er 24,9 hektarar og nær yfir Norðurgarð, Miðgarð og Suðurgarð hafnarinnar, ásamt aðliggjandi landsvæði, en auk þess er gert ráð fyrir stækkun hafnarsvæðisins með landfyllingu og nýrri vegtengingu við þjóðveg 54.

Sjávarútvegur hefur verið aðalatvinnugreinin í Grundarfirði og Grundarfjarðarhöfn er hjarta þeirrar starfsemi. Höfnin er umsvifamikil og hefur starfsemi henni tengd þróast hratt á síðustu árum, bæði vegna fiskveiða og ferðaþjónustu. Komum skemmtiferðaskipa á sumrin hefur fjölgað hratt síðustu ár, en frá maí til október 2025 komu 77 skemmtiferðaskip í Grundarfjarðarhöfn.
Þörf er á nýjum viðlegukanti og betri aðstöðu fyrir ferðamenn við höfnina. Eftirspurn eftir lóðum við höfnina hefur aukist og betri vegtengingu vantar fyrir þungaumferð frá höfninni að þjóðvegi 54, Snæfellsnesvegi og að iðnaðarsvæðinu vestan Kvernár.
Með nýrri vegtengingu er létt á þungaumferð í gegnum þéttbýlið austanvert, sem bætir öryggi, ekki síst fyrir gangandi vegfarendur. Þá eru komnar fram nýjar áskoranir á hafnarsvæðinu sjálfu varðandi flæði ólíkra hópa um hafnarsvæðið, þar sem afar mikilvægt er að tryggja öryggi gangandi vegfarenda samhliða þungri hafnarumferð.
Deiliskipulaginu er ætlað að koma til móts við þessar áskoranir með því að skýra línur, bæta flæði og tryggja öryggi, auk þess að skapa aukið rými fyrir hafntengda starfsemi.
Blágrænar ofanvatnslausnir verða innleiddar á deiliskipulagssvæðinu skv. stefnu Grundarfjarðarbæjar í aðalskipulagi og því unnin blágræn ofanvatnsáætlun sem hluti deiliskipulagsins.
Hafnarsvæðið er áberandi einkenni í Grundarfjarðarbæ, nátengt ímynd samfélagsins og það fyrsta sem blasir við þegar komið er að bænum austanvert, sem og af sjó. Markmið deiliskipulagsins er því einnig að skapa aðlaðandi og öruggt hafnarsvæði sem íbúar eru stoltir af og gaman er að heimsækja.
Framangreind áform um landfyllingu og nýja vegtengingu eru í samræmi við gildandi Aðalskipulag Grundarfjarðarbæjar 2019-2039 og hefur reyndar verið í aðalskipulagi Grundarfjarðar allt frá 1969.
Skipulagslýsing var auglýst frá 14.-31. október 2025 í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsagnir bárust við lýsinguna sem voru hafðar til hliðsjónar við mótun deiliskipulagsins.
Tillaga að deiliskipulagi er nú kynnt á vinnslustigi í samræmi við 40. gr. skipulagslaga. Vinnslutillagan er birt í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar https://skipulagsgatt.is/issues/2025/1420 , í héraðsfre´ttablaðinu Skessuhorni og er til sýnis í Ráðhúsi Grundafjarðar, Borgarbraut 16, og í Bókasafni/Sögumiðstöð, Grundargötu 35.
Vinnslutillagan er auglýst á tímabilinu 14. nóvember – 1. desember 2025. Ábendingar og athugasemdir við tillöguna skulu berast í síðasta lagi fyrir dagslok 1. desember 2025 í gegnum Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar.
Þrír kynningarfundir um vinnslutillögu deiliskipulagsins verða haldnir mánudaginn 17. nóvember 2025 í Samkomuhúsi, skv. auglýsingu á vef bæjarins.
Vinnslutillögu má nálgast hér
Uppdrátt má nálgast hér
Greinagerð um umhverfisáhrif má nálgast hér
Grundarfirði, 14. nóvember 2025,
Sigurður Valur Ásbjarnarson, skipulagsfulltrúi Grundarfjarðarbæjar