Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson
Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson

Miðvikudaginn 27. apríl 2022 áttu nokkrir bæjarfulltrúar Grundarfjarðarbæjar, ásamt bæjarstjóra og byggingarfulltrúa, góðan fund með fulltrúum Símans, þeim Orra Haukssyni forstjóra, Maríu Blöndal deildarstjóra viðskiptatengsla og Eysteini Marvinssyni viðskiptastjóra. Umræðuefni voru fjarskiptamál og þjónusta Símans við íbúa og fyrirtæki í Grundarfirði.

Fundurinn var haldinn í framhaldi af umfjöllun bæjarráðs og bæjarstjórnar um fjarskiptamál í febrúar og mars sl. og ályktun bæjarstjórnar á 257. fundi sínum þann 10. mars sl. Bæjarstjórn hefur haft fjarskiptamálin til sérstakrar skoðunar. Fyrir lágu fjölmargar ábendingar íbúa um gæði fjarskipta, sem teknar voru saman í febrúar sl. að frumkvæði bæjarins og sendar fjarskiptafyrirtækjum til skoðunar, með ósk um viðbrögð. Ábendingar íbúa snéru bæði að heimilistengingum og farsíma - hér má lesa ábendingarnar. Í erindi til Símans var óskað eftir viðbrögðum og samtali um gæði farsíma- og netsambands og þjónustu við Grundfirðinga.

Síminn brást mjög vel við erindi bæjarins og var farið yfir stöðu og viðbrögð á fjarfundi þann 27. apríl eins og áður sagði. Eftirfarandi eru aðgerðir Símans í framhaldi af ósk bæjarstjórnar og samtali á fundinum: 

Vísað er í þær ráðstafanir sem Míla hyggst gangast fyrir á næstunni (sjá nánar hér í frétt á vef Grundarfjarðarbæjar) og Síminn mun nýta, eins og önnur þjónustufélög, mun Síminn gangast fyrir eftirfarandi í Grundarfirði:  

  • Síminn mun á næstu vikum greina og meta stöðu internet- og sjónvarpsþjónustu hjá öllum viðskiptavinum sínum í Grundarfirði. Komi í ljós að viðskiptavinir séu með eldri útgáfur af netbeinum og myndlyklum mun Síminn hafa samband við þá viðskiptavini og bjóða útskiptingu á þeim búnaði. Að auki mun Síminn skoða hugbúnað myndlykla í sveitarfélaginu; séu myndlyklar tengdir, sem af einhverjum sökum hafa ekki fengið sjálfvirkar uppfærslur, mun sá búnaður einnig verða uppfærður.
  • Dagana 23. – 25. maí nk. mun Síminn halda sérstaka ráðgjafadaga í Grundarfirði þar sem hægt verður að skipta út búnaði, fá almenna ráðgjöf um þjónustu Símans og tæknilega ráðgjöf um t.d. hvernig megi bæta þráðlaust net heimila. Staðsetning netbeina á heimilum skiptir þar sköpum og í einhverjum tilvikum, t.d. í stærri húsum, gæti þurft endurvarpa fyrir þráðlaust net. Ráðgjafadagar Símans munu verða auglýstir sérstaklega þegar nær dregur og ættu þannig ekki að fara framhjá neinum.
  • Í einhverjum tilvikum, þar sem erfitt er að lagfæra undirliggjandi vandamál með nettengingar, gæti 4G beinir verið lausn sem hentar mörgum heimilum. Síðar yrði 5G tenging þegar slíkir sendar hafa verið settir upp í Grundarfirði, sem verður síðar á árinu eða í byrjun næsta árs. 4G sem dæmi gæti hentað mjög vel sem nettenging á heimilum með litla eða hefðbundna notkun.

Á næstu dögum munu fulltrúar bæjarins einnig eiga fundi með fleiri þjónustufyrirtækjum um fjarskiptamál og þjónustu í Grundarfirði.