Kæru lesendur! 

Hér koma nokkrar glefsur úr starfsemi og af verkefnum Grundarfjarðarbæjar og stofnana hans, einkum í apríl 2025:

Framkvæmdir og starfsemi hafnarinnar

Höfnin okkar stendur í stórræðum. Verið er að byggja við hafnarhúsið, um 150 m2 viðbyggingu sem á að bæta verulega þjónustu hafnarinnar við móttöku skemmtiferðaskipa. Í húsinu verða salerni og rými fyrir þá sem koma að móttöku skipanna, auk þess sem bætt er við vinnuaðstöðu hafnarstarfsmanna, sem nú er afar þröng. Framkvæmdirnar ganga vel og er ætlunin að hægt verði að taka húsið í notkun í lok maí. Fyrsta skemmtiferðaskipið kemur einmitt í fyrramálið, 5. maí, það er skipið Amera sem er 204 m langt og með u.þ.b. 800 farþega. Níu skipakomur eru bókaðar í maímánuði og tæplega 80 komur alls í sumar.

Dagana 7. til 9. apríl sl. var haldin í Miami, Florida, risastór kaupstefna skemmtiferðaskipageirans, Seatrade Cruise Global. Undir merkjum Cruise Iceland tóku um 12 íslenskir aðilar þátt, fimm hafnir, fyrirtæki og Íslandsstofa, sem hélt utan um hluta undirbúnings. Grundarfjarðarhöfn tók þátt í Miami-viðburðinum í fyrsta skipti. Höfnin hefur í mörg ár sent fulltrúa á slíkar kaupstefnur í Evrópu og hefur Hafsteinn hafnarstjóri t.d. farið til Malaga og Hamborgar, þar sem slíkar stefnur eru oft haldnar. Úr varð að bæjarstjóri færi í þetta skiptið, fyrir hönd hafnarinnar, til Miami. Í kringum kaupstefnuna eru fundir og „hittingar“ en allt gengur þetta út á samskipti og að byggja upp tengslanet; ná tengslum við þau sem skiptir máli að ná til í þessum geira, með kynningu á okkar höfn og Íslandi yfirhöfuð. Eftir þau samtöl sem við áttum og reynsluna af þátttöku í þessari kaupstefnu, þá er ég sannfærð um hve miklu máli skiptir að vera með.

Það sem hæst bar í samtölum á okkar bás, Cruise Iceland, eru þær lagabreytingar sem gerðar voru á innheimtu innviðagjalds á gesti skemmtiferðaskipa og tóku gildi í ársbyrjun, þrátt fyrir kröftug andmæli og rökfærslur Cruise Iceland, hafnar- og bæjarstjórnum. Það sem helst hefur verið gagnrýnt er aðferðin við að taka einn hóp ferðamanna út og hækka bara á hann og hve hækkun gjaldsins (gistináttaskattur, pr. nótt) er mikil, eða úr 1000 kr. í 2500 kr. fyrir hverja gistinótt fyrir einstakling um borð í skemmtiferðaskipi og úr 1000 kr. í 5000 kr. á par sem deilir káetu. Þetta er 250% og 500% hækkun. Allra verst er þó að enginn fyrirvari er gefinn á hækkuninni, því hún tók gildi strax á þessu ári, eftir lagabreytingu í nóvember sl. Skemmtiferðaskip bóka og selja ferðir sínar 2-3 ár fram í tímann og það tíðkast ekki í þeim bransa að bæta óvæntri hækkun gjalda ofaná ferðir, sem gestir hafa þegar keypt og greitt fyrir. Hér er grein sem ég skrifaði 13. nóvember 2024 þar sem ég rakti allítarlega þetta mál.

Það er enginn vafi á því að íslenskar hafnir eru að missa viðskipti vegna þessa. Minnstu hafnirnar finna fyrst fyrir þessu. Á Miami hitti ég stjórnanda hjá fyrirtæki sem komið hefur með lítil leiðangursskip til Íslands, m.a. í Stykkishólm. Sú var nú allt annað en ánægð með þessar skyndihækkanir gjalda, en þar sem um er að ræða lítið fyrirtæki og meiri sveigjanleika í ferðum, þá hafði fyrirtækið afbókað ALLAR Íslandsferðir strax 2025, sem og 2026. Hvert farið þið þá, spurði ég – og svarið var, til Noregs og Grænlands. Þó þessi skip séu e.t.v. ekki að borga stórar fjárhæðir, þá eru þetta tekjur sem minni hafnarsjóði munar sannarlega um. Að ekki sé minnst á tekjur ferðaþjónustuaðila, sem hafa verið að byggja upp sína þjónustu og viðskipti m.a. við skipagesti. Okkar höfn hefur reiknað út að afbókanir 2025 og 2026 nemi rúmlega 40 millj. kr. tekjutapi, sem er um helmingur heildartekna hafnarinnar 2024, en þá voru þær um 82 millj. kr.

Fyrirsjáanleiki er gulls ígildi í viðskiptum og rekstri. Fyrirsjáanleiki í álagningu/innheimtu opinberra gjalda eykur traust og fyrirsjáanleiki hefur án efa jákvæð áhrif í viðskiptum til lengri tíma. Ákvarðanir stjórnvalda, sem gefa fyrirtækjum ekki færi á að laga sig að nýjum gjöldum eða breyttum leikreglum, hafa gagnstæð áhrif. Þær rýra traust og laska jafnvel orðspor landsins, sem viðskiptaaðila og sem áfangastaðar. Okkur, fulltrúum hafna sem hafa í yfir tvo áratugi lagt fé og fyrirhöfn í markaðsstarf og innviði fyrir þessa viðskiptavini, finnst að ekki hafi verið á okkar sjónarmið hlustað, hvorki af fyrri þingmönnum og ríkisstjórn, né núverandi.

Rétt er að minna á, að á árinu 2026 á svo að taka gildi breytt regluverk þar sem afnumið verður tollfrelsi skipa í hringsiglingum um Ísland, sem er hluti af skipakomum til landsins. Útfærsla og framfylgd á þessum breyttu reglum verður mjög flókin í framkvæmd og mun skapa enn meiri skriffinnsku fyrir okkar viðskiptavini. Ég veit að hjá stofnunum ríkisins hafa starfsmenn setið sveittir við að útbúa regluverkið, til að geta skýrt það m.a. fyrir umboðsmönnum skipafélaganna. Okkar viðskiptavinir bíða eðlilega eftir að sjá hvernig þessi breyting verður útfærð, en hún mun líklega hafa enn meiri áhrif en innviðagjaldið.

Í lok apríl sótti Hafsteinn hafnarstjóri aðalfund Cruise Iceland samtakanna, sem haldinn var á Akureyri. Verið er að gera umtalsverðar breytingar á stjórnun og starfi samtakanna, til að styrkja þau og starf þeirra sem samtök þjónustu- og hagsmunaaðila við móttöku skemmtiferðaskipa.

Uppbygging á miðbæjarreit í undirbúningi

Á næstunni verður auglýst útboð á byggingarrétti á svonefndum „miðbæjarreit“, þ.e. fjórum samliggjandi lóðum við Grundargötu 31 og 33, Hamrahlíð 6 og 8, samtals um 2600 m2. Í Aðalskipulagi Grundarfjarðar frá 2019/2020 er gert ráð fyrir uppbyggingu miðbæjarstarfsemi á þessum lóðum. Skipulags- og umhverfisnefnd og bæjarstjórn hafa unnið að málinu síðustu vikurnar. Það liggur mikil vinna í að koma svona máli á koppinn, en hér er verið að fara nýjar leiðir í þróun og uppbyggingu. Byggt er á því að lóðirnar og staðsetning þeirra sé mjög dýrmæt, þegar höfð er í huga sú uppbygging í ferðaþjónustu sem verið hefur og verða mun á Snæfellsnesi næstu ár og áratugi. Lóðirnar eru á afar góðum stað við gatnamót í miðjum bænum, í alfaraleið eftir Snæfellsnesinu, með útsýn á fallegasta fjallið, Kirkjufellið sjálft. Mikilvægt er að sýnin um uppbyggingu sé skýr, þegar reiturinn verður auglýstur, og hvaða heimildir fylgi lóðinni. Ætlunin er að í fallegu og hentugu miðbæjarhúsi, á þessum reit, verði komið fyrir blöndu af verslun, þjónustu og íbúðum. Slíkt hús myndi auka gæði annarra lóða og uppbyggingar í bænum okkar. Við uppbyggingu ferðaþjónustu skiptir t.d. máli að hafa huggulegan miðbæ og fjölbreytni í annarri þjónustu. Miðbær og Framnes kallast t.d. augljóslega á og munu í framtíðinni tengjast betur en nú er. Fyrir byggðina okkar og íbúa í nágrenninu myndi fallegt miðbæjarhús einnig verða bæjarprýði, sem lyftir upp „standard“ svæðisins. Haldinn var opinn fundur með íbúum í byrjun apríl, auk sérstakra funda sem haldnir hafa verið með húseigendum á nærliggjandi lóðum.

Í tengslum við þetta er unnið að því að gera breytingu á aðalskipulagi vegna reitsins og var skipulagslýsing og vinnslutillaga auglýst og tekin fyrir í skipulagsnefnd 30. apríl sl.

En hvað gerist ef enginn vill kaupa byggingarrétt og standa að uppbyggingu slíks húss? Þó við séum bjartsýn, þá getum við sannarlega ekki gengið að því vísu að þróunaraðili fáist í fyrstu atrennu. En það er mikils virði að undirbúningsvinnan sé að baki og skilmálar fyrir uppbygginguna séu tiltækir. Þannig verður uppbyggingarreiturinn orðinn „hilluvara“ – tilbúnir skilmálar fyrir dýrmæta lóð, þegar áhugi verður fyrir hendi.

Önnur skipulagsverkefni

Mikill tími hefur farið í skipulagsmálin að undanförnu, enda standa skipulagsnefndin og bæjarstjórn í óvenju mörgum og umfangsmiklum verkefnum. Unnið var að heildarendurskoðun deiliskipulags fyrir iðnaðarsvæðis og á íbúðasvæði Ölkeldudals. Þær áætlanir eru nú að koma úr rýni Skipulagsstofnunar, sem fram fer að loknum auglýsingatíma tillagna og afgreiðslu athugasemda. Ef allt gengur vel, er stefnan að nýjar íbúðarlóðir í Ölkeldudal verði auglýstar í sumar. 

Hafnarstjórn og bæjarstjórn hafa líka sett af stað vinnu við deiliskipulagsgerð á suðursvæði hafnarinnar. Á suðursvæðinu (neðan/norðan við húsin á innanverðri Grundargötu) hefur í áratugi verið gert ráð fyrir því, í aðalskipulagsáætlunum bæjarins, að fylla upp og búa til nýtt land og „neðanbyggðarveg“ fyrir þyngri flutninga, sem losaðir yrðu að miklu leyti af Grundargötunni. Undanfarið höfum við t.d. verið að skoða hvernig haga ætti vegtengingu slíks neðanbyggðarvegar af þjóðveginum, bæjarmegin við Suðurgarð og niður á nýja landfyllingu á hafnarsvæðinu. Þetta er mjög háð samtali við Vegagerðina. Þegar mesta vinnan við iðnaðarsvæði, Ölkeldudal og miðbæjarreit verður að baki, sem og við viðbyggingu hafnarhússins, munum við fara á fullt í þetta verkefni. Það er rétt að taka fram að þetta er ekki skyndiverkefni, heldur er verið að horfa á mörg ár fram í tímann, með efnistöku, m.a. af hafsbotni, landfyllingu, vegagerð o.fl.

Orkuskiptin

Í lok mars áttum við verkfund um orkuskiptaverkefnið í skóla- og íþróttamannvirkjum. Við höfum átt í vandræðum með leir í borholu nr. 7, sem kemur með vatninu sem við erum að nýta úr þeirri holu. Leirdrullan hefur stíflað síur og valdið vandræðum í varmaskipti. Af þeim sökum höfum við ekki getað nýtt holuna sem skyldi, en hún gefur um 2,3 l/sek. og úr því fæst miklu meiri orka heldur en fengist með varmasöfnunarlögnum í lokaða kerfinu. Unnið hefur verið að lausnum.

Við tökum líka þátt í sameiginlegu verkefni sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Gleipnir, nýsköpunar- og þróunarsetur á Vesturlandi, Gleipnir - nýsköpunar- og þróunarsetur á Vesturlandi standa að, þar sem verið er að skoða möguleika „köldu svæðanna“ á Vesturlandi til frekari orkuskipta. Sjáum síðar hvað kemur út úr því, en nú er a.m.k. verið að kortleggja orkunýtingu hjá okkur í Grundarfirði og í Snæfellsbæ. 

Önnur umhverfisverkefni, skólalóðir o.fl.

Vinnuvikan byrjar alla jafna á verkfundi 8:15 á mánudögum þar sem við hittumst, starfsfólk eignaumsjónar og áhaldahúss og ég, og förum yfir verkefnastöðu og ákvarðanir sem þarf að taka. Nanna verkefnisstjóri skipulags- og umhverfismála kemur núna líka í það samtal, þar sem verið er að undirbúa verkefni vors og sumars, sem hún kemur m.a. að. Þar sem við höfum ekki tæknifræðing í starfi (erum alltaf að leita!) er ekkert annað að gera en að bæjarstjóri sé til staðar fyrir þessi samskipti. Það er gríðarlega gaman að sjá verklegar framkvæmdir og umhverfisverkefni þokast áfram og sjá umbætur í umhverfinu okkar. Þríeykið í þjónustumiðstöðinni okkar, þau Elvar, Sævar og Hadda hafa staðið í ýmsum stórum verkefnum og það er í mörg horn að líta.

Bæjarstjórn tók ákvörðun um að byggja upp nýtt geymslusvæði bæjarins við Ártún 8, sunnan við söfnunarstöðina (gámastöðina). Gamla svæðið var við Hjallatún 1 en búið er að úthluta þeirri lóð og næstu lóð við hliðina fyrir byggingu iðnaðarhúsa. Verðkannanir fóru fram um jarðvegsvinnu og girðingarvinnu á nýja geymslusvæðinu og er framkvæmdum nú lokið, utan smá snurfus. Þríeykið sá um að taka niður girðingarstaura og girðingarefni gamla geymslusvæðinu, en einnig á svæðinu við gömlu spennistöðina, efst á Borgarbraut. Hvorutveggja var nýtt í girðingu umhverfis nýja geymslusvæðið. Það var gríðarleg landhreinsun af því að losna við girðinguna við gömlu spennistöðina og samhliða því tóku þau virkilega vel til á svæðinu og létu fylla ofaní gryfjuna undan gömlum spennum, sem áður stóðu þar. Einnig hefur staðið yfir mikil tiltekt á geymslusvæðinu, við að hreinsa til það dót sem tilheyrir starfsemi bæjarins, en af nógu er að taka. Gamlir hlutir eiga það til að daga uppi og á endanum er ljóst að þeir verða aldrei notaðir. Tveir nýlegir 20 feta gámar voru keyptir á nýja geymslusvæðið, en gömlu gámarnir tveir hafa þjónað sínu hlutverki og verður þeim komið í endurvinnslu. Þeir sem leigt hafa pláss á gamla geymslusvæðinu hafa einnig verið að taka til sitt dót. Verið er að ganga frá nýjum reglum og gjaldskrá fyrir geymslusvæði. Í tengslum við nýja svæðið hefur einnig verið sett upp ný aðstaða og varanleg, fyrir gróðurgám.

Það hefur verið mikið að gera síðan í haust vegna breytinga í sorpmálum. Fjögurra tunnu kerfi var tekið upp í lok september sl. í samræmi við breytta löggjöf og í kjölfarið á stóru sorpútboði, sem við fórum í ásamt Snæfellsbæ. Nýju lögin gera það að skyldu að safna fjórum flokkum sorps við öll heimili. Breytingar á sorpflokkun nær einnig til stofnana bæjarins og höfum við þurft að fara í ýmiss konar breytingar við okkar stofnanir, sem ekki er að fullu lokið. Áhaldahúsið sér um að koma tunnum til íbúa, þegar verið er að breyta. Við fjölbýlishús er frekar reynt að hafa kör, þar sem það er hagstæðara. Til viðbótar við nýjar tunnur sem komu í haust (fjórða tunnan) þá keyptum við notaðar tunnur og kör af Reykjavíkurborg, á góðu verði.

Það er mikill munur að fá svona gott veður eins og hefur verið nánast allan mars- og aprílmánuð og var einnig hluta febrúar. Það hefur heldur betur gert okkur auðveldara að sinna ýmsum verkum og segja má að vorverkin hafi verið á fullu, allan apríl. Myndir segja meira en mörg orð – og hér í myndaalbúmi á Facebook-síðu bæjarins má sjá ýmis þau verkefni sem verið hafa í gangi eftir veturinn.

Áhaldahúsið útbjó tvo gróðurkassa fyrir leikskólann, þar sem ætlunin er að rækta kartöflur í sumar. Við erum mjög spennt fyrir þessu verkefni, en leikskólinn stefnir að því að auka umhverfisstarf sitt og verða Grænfánaskóli að nýju. Grunnskólinn er einnig með „græna fingur“. Skólinn ætlar að leggja áherslu á umhirðu skólalóðarinnar, gróðursetningu og almenna útiveru í vor og verið er að vinna í nýja gróðurhúsi skólans, sem er svokallað „Bambahús“.

Stóri plokkdagurinn var haldinn um allt land 27. apríl sl. og létu Grundfirðingar ekki sitt eftir liggja. Góð mæting var og dagurinn vel undirbúinn af Nönnu og áhaldahúsinu, en ennþá eru tunnur hér og þar í bænum, og gámur fyrir rusl, því við erum jú enn að plokka og hreinsa bæinn okkar.

Fyrir dyrum eru áframhaldandi umbætur á skólalóðunum, bæði við leikskóla og grunnskóla. Nanna Vilborg, verkefnisstjóri skipulags- og umhverfismála, hefur unnið með báðum skólunum og þeirra fólki að þeim undirbúningi. Keypt verða ný leiktæki til að skipta út rennibraut og klifurkastala á skólalóð grunnskóla. Breytingar verða gerðar á leikskólalóð, en til stendur að malbika „hjólabraut“ inní stóra garðinum, sunnan við leikskólann, kaupa nýjar rólur og færa staðsetningu þeirra, o.fl.

Leiktæki sem fjarlægð verða af lóðum leik- og grunnskóla eru sum hver í ágætu standi og verða því sett upp á öðrum stöðum í bænum.

Verklegar framkvæmdir ársins

Í vetur létum við gera ástandsmat á nokkrum eignum bæjarins. Eldra ástandsmat fyrir íþróttahús var uppfært, mat gert á ástandi stórs hluta grunnskólahúsnæðis og á Sögumiðstöðinni meðal annars.

Í undirbúningi síðustu vikurnar hefur m.a. verið opið útboð sem fram á að fara um viðgerð íþróttahússins. Ætlunin er að klæða húsið, ljúka gluggaskiptum, en búið er að skipta út talsverðum hluta af gluggum og hurðum hússins, gera á við þak, ljúka viðgerðum á tengiganginum yfir í grunnskólann, o.fl. Klæðning hússins og ytra byrði er mjög illa farið og veðrað, enda er mikið veðurálag á húsinu. Boðnar verða út í einu lagi, framkvæmdir sem skiptast á tvö ár, 2025-2026. VSÓ og VA-arkitektar koma að undirbúningi útboðsins, gerð teikninga o.fl.

Í samræmi við ástandsmat á húsi Sögumiðstöðvar, Grundargötu 35, og lýsingu á nauðsynlegum endurbótum, var gerð verðkönnun fyrir viðgerðir hússins. Ekkert tilboð barst, en ætlunin var að ljúka viðgerðum í byrjun júní nk., með það fyrir augum að nýta mætti húsið í sumar fyrir annarskonar starfsemi en hið hefðbundna vetrarstarf hússins. Í ljósi stöðunnar var tekin ákvörðun í bæjarráði um að nýta yrði sumarið í framkvæmdir við húsið, þannig að það yrði tilbúið fyrir haustið, fyrir þá kjarnastarfsemi sem þar er hýst. Sjá hér fundargerð bæjarráðs 2. maí 2025.

Fyrir páska var sett af stað verðkönnun fyrir framkvæmdir við göngustíg við Kirkjufellsfoss, en Grundarfjarðarbær fékk á sínum tíma stóran styrk í framkvæmdir við uppbyggingu áningarstaðarins, í samvinnu við landeigendur. Um er að ræða göngustíg og palla, austan megin (bæjarmegin) við fossinn. Verkið felst í jarðvinnu, steypu og uppsetningu stálpalla og handriðs, og verða opnuð í næstu viku.

Framkvæmdir eru hafnar við að endurnýja gangstétt og koma fyrir tilheyrandi blágrænum beðum á Hrannarstíg neðanverðum, þ.e. frá Kjörbúðinni og niður að Nesvegi. Í aðalskipulagi bæjarins er gert ráð fyrir að innleiddar verði blágrænar lausnir í þéttbýlinu, sem er bæði í senn fráveitulausn og upplyfting grænna svæða í bæjarumhverfinu. Haldnir hafa verið kynningarfundir um þetta og má sjá meira um þetta hér. Sif Hjaltdal Pálsdóttir, landslagsarkitekt hjá Landslagi, vann með okkur að því að hanna miðbæjarútlit á svæðinu, og verða næstu áfangar í sama stíl. Gangstéttin verður breið og góð og bætir til muna öryggi vegfarenda á Hrannarstíg.

Aðrar framkvæmdir eru einnig fyrirhugaðar í götum og stígum, m.a. frágangur við gangstéttar í Hrannarstíg og Borgarbraut, stígur við Fellaskjól og fleira.

Í næstu viku, frá mánudegi 5. maí til og með mánudegi 12. maí, verður sundlaugin lokuð. Er það gert vegna framkvæmda í búningsklefum, en ætlunin er að mála, setja nýtt epoxyefni á gólf og veggi í sturtum, setja upp nýja bekki og ennfremur skápa í búningsklefana.

Skólastarfið og nýr aðstoðarleikskólastjóri

Frábærlega tókst til hjá 6. og 7. bekkingum sem settu upp leikrit í lok mars/byrjun apríl um hana Fíusól sem gefst aldrei upp. Fjórar sýningar gengu fyrir fullu samkomuhúsi og auk þess fékk leikskólinn sérstaka sýningu. Það lætur nærri að um 600 manns hafi séð sýninguna, þegar allt er talið. Við megum vera virkilega stolt af krökkunum sem stóðu að sýningunni, kennurum og skólanum okkar. Fyrir páska var svo einnig haldin árshátíð grunnskólans, þar sem nemendur á öllum aldri fóru enn og aftur á kostum. Ég tek undir með skólanefnd bæjarins og þeim fjölmörgu sem hafa tjáð sig um þetta starf og vil hrósa öllum sem að hafa komið og óska til hamingju með þessar frábæru sýningar og allt starfið þar að baki!  

Harðsnúinn hópur af frábæru fólki er nú að undirbúa skólahlaup („litahlaup“) grunnskólans, en í ár fékkst styrkur úr Lýðheilsusjóði, sem við fögnum, því hann mun nýtast vel við framkvæmd hlaupsins.

Skólanefnd Fjölbrautaskóla Snæfellinga fundaði í lok mars, en þar er ég formaður. Farið var yfir ársreikning 2024, en lítilsháttar tap er á rekstrarárinu.

Elísabet Kristín Atladóttir hefur verið ráðin aðstoðarleikskólastjóri Leikskólans Sólvalla. Hún starfaði áður á Sólvöllum og Eldhömrum, en hefur undanfarið verið kennari við Grunnskóla Grundarfjarðar. Starfið, sem auglýst var 22. mars sl., innifelur nýja samsetningu verkefna, til að styrkja enn frekar leikskólastarfið. Helstu verkefni Elísabetar í leikskólanum verða umsjón með sérkennslu og stuðningi, farsæld barna og stjórnun auk þess sem hún verður faglegur leiðtogi yfir útikennslu, sem leikskólinn leggur sérstaka áherslu á. 

Önnur verkefni

Í byrjun apríl skiluðum við umsögn um drög að frumvarpi til breytinga á lögum um veiðgjald nr. 145/2018, en umsagnarfrestur var afar skammur eða frá 25. mars til 3. apríl sl. Alls bárust 115 umsagnir um frumvarpsdrögin. Málið er í meðförum þingsins og mun án efa koma nánar við sögu á næstunni.

Ég sótti árlegan fund bæjar- og sveitarstjóra, sem fram fór að þessu sinni í uppsveitum Árnessýslu, 29.-30. apríl sl. Þessar samkomur eru alltaf gagnlegar. Farið er um viðkomandi svæði, starfsemi sveitarfélags eða sveitarfélaganna kynnt og auk þess er farið í heimsóknir í fyrirtæki eða stofnanir á svæðinu. Þar gefst einstakt tækifæri til að fá innsýn í atvinnulíf og starfsemi á viðkomandi svæði. Inná milli nýtum við tækifærið og skiptumst á fréttum úr starfi kolleganna, leitum upplýsinga og skiptumst á skoðunum. 

Það voru sveitarfélögin Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur og Skeiða- og Gnúpverjahreppur sem voru gestgjafar og buðu okkur til skoðunarferða um svæðið. Meginþemað var málþing í félagsheimilinu Aratungu, Reykholti, þar sem Þóroddur Bjarnason, prófessor við HÍ fjallaði um byggðaþróun og búsetufrelsi við góðar og líflegar umræður á eftir.  Við fórum í heimsókn í nýja byggingu slökkvistöðvar á Laugarvatni, sem senn verður tekin í notkun. Þar fræddumst við um starf Brunavarna Árnessýslu, sem sveitarfélögin í sýslunni reka sameiginlega, með myndarbrag. Farið var í heimsókn í Friðheima og var magnað að heyra af uppbyggingu fyrirtækisins, sem hjónin Knútur og Helena Hermundardóttir reka. Við heimsóttum líka Gunnar Þorgeirsson og Sigurdísi Eddu Jóhannesdóttur í Garðyrkjustöðinni Ártanga í Grímsnes- og Grafningshreppi en þau rækta kryddjurtir, sumarblóm og ýmislegt fleira. Farið var í Sólheima í Grímsnesi og margt fleira. 

---

Hér koma svo myndir af Facebook úr starfsemi og verkefnum bæjarins að undanförnu.

Grundarfirði, 4. maí 2025,
Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri