Sýningin Kvennaverk

Þær Dagbjört Lína, Kristín og Hrafnhildur Jóna opnuðu fyrir skemmstu sýninguna Kvennaverk í Sjálfstæðishúsinu að Grundargötu 24. Þar sýna þær hátt í 40 verk sem öll eru unnin sérstaklega fyrir þessa sýningu. Dagbjört Lína og Kristín sýna bæði gler- og leirmyndir. Þær eru einnig að koma af stað framleiðslu á matarstelli og öllum tilheyrandi fylgihlutum úr gleri. Þar getur kaupandinn tekið þátt í hönnun matarstellsins og komið með sínar óskir um útlit og fleira. Hrafnhildur Jóna sýnir tölvumyndir á skjávarpa. Hægt er að kaupa þessar myndir í mismunandi útfærslum og  samráði við Hrafnildi Jónu getur kaupandinn valið sína útfærslu á verkunum, t.d. er hægt að prenta á pappír, tau og striga.

Tómstundastarf eldri borgara í Grundarfirði

Eldri borgarar í Grundarfirði hafa hist vikulega í gamla fjarnámsverinu sem er til húsa að Borgarbraut 16. Þær Kristín Pétursdóttir og Dagbjört Lína Kristjánsdóttir leiðbeina áhugasömum og kynna fyrir þeim ýmiss konar föndurmynstur. Allir eldri borgarar í Grundarfirði eru velkomnir í tímana. 

Frá heilsugæslustöð Grundarfjarðar

Háls-, nef- og eyrnalæknir   Þórir Bergmundsson háls-, nef- og eyrnalæknir verður með móttöku á heilsugæslustöðinni föstudaginn 4. nóvember. Tekið er á móti  tímapöntunum á Heilsugæslustöð Grundarfjarðar í síma 438-6682.

Málfundur um öryggismál

Miðvikudaginn 2. nóvember var haldinn málfundur um öryggismál sjófarenda í Grundarfirði. Fundurinn hófst kl. 20.00 í Fjölbrautaskóla Snæfellinga og var fundarstjóri Sigríður Finsen, forseti bæjarstjórnar Grundarfjarðar. Fundurinn var sá fyrsti í röð funda um land allt um öryggismál. Málfundum þessum er ætlað að vekja athygli á einstökum þáttum í öryggismálum, svo sem nýjungum í öryggisfræðslu o.fl., og eru hluti áætlunar um öryggi sjófarenda.  

Fundargerðir framkvæmdaráðs Snæfellsness

Vakin er athygli á því að fundargerðir framkvæmdaráðs Snæfellsness eru aðgengilegar á vef Grundarfjarðarbæjar. Neðarlega á hægri hlið forsíðunnar, undir dálknum gaman að skoða, er hægt að smella á Green Globe 21 merkið og þá opnast undirsíða með ýmsum upplýsingum um Green Globe 21 og stefnu sveitarfélaganna á Snæfellsnesi í sjálfbærri þróun umhverfis- og samfélagsmála Snæfellsness. Hægt er að fara beint inn á síðuna hér.

Opinn kynningarfundur um hitaveitumál

Orkuveita Reykjavíkur, í samvinnu við Grundarfjarðarbæ, boðar til kynningarfundar um hitaveituvæðingu Grundarfjarðar.   Fundurinn verður haldinn í samkomuhúsi Grundarfjarðar í kvöld,  1. nóvember, kl. 20.00  Orkuveita Reykjavíkur hefur tekið yfir rannsóknir og fyrirhugaða lagningu hitaveitu, skv. samningi við Grundarfjarðarbæ. Á fundinum verður kynnt staða rannsóknanna og áform um framkvæmdir við lagningu veitunnar, auk þess sem fulltrúar OR munu kynna fyrirtækið og leita eftir sjónarmiðum íbúa.    Allir hvattir til að mæta!