Einn fjölsóttasti vefur sveitarfélags

Vefur Grundarfjarðar (grundarfjordur.is) er einn fjölsóttasti vefur sveitarfélags á landinu og reyndar einn af mest sóttu vefjum landsins. Í vikunni 21.-27. mars voru 573 notendur sem litu 1.756 sinnum inn á vefinn. Flettingar á vefnum voru 5.103.  

UMFG fær góða gjöf !

Ungmennafélagi Grundarfjarðar var færð peninga gjöf síðastliðinn laugardag. Það var fyrirtækið G. Run sem færði félaginu 300.000 krónur. Gjöfin var afhent i afmælisfagnaði fyrirtækisins en fyrirtækið fagnaði 35 ára afmæli. Guðmundur Runólfsson stofnandi G. Run var einn af stofnendum UMFG og hefur hann unnið mikið og gott starf fyrir félagið.  Stjórn UMFG þakkar kærlega fyrir góða gjöf.

Ný stjórn hjá UMFG

Aðalfundur UMFG var haldin á Krákunni í mars. Ágætis mæting var á fundinn.Í aðal stjórn félagsins árið 2005 eru Eygló Jónsdóttir formaður, Dagbjört Lína Kristjánsdóttir ritari, Jófríður Friðgeirsdóttir gjaldkeri og Freydís Bjarnadóttir meðstjórnandi auk þess eru formenn ráða innan UMFG meðstjórnendur. Anna Júlía Skúladóttir og Guðmundur Jónsson gengu úr stjórn og þökkum við þeim fyrir þeirra störf.  

Búið að bora 300 metra

Borun vinnsluholu fyrir hitaveitu við Berserkseyri gengur vel. Í dag, 1. apríl, er búið að bora liðlega 300 m og styttist í að borinn hitti á fyrri æðina, sem er talin liggja á 340 m dýpi. Holan hefur verið fóðruð í 174 metrum. Enn hefur ekkert vatn komið inn í holuna og er því frekar þungt að ná svarfinu upp en þrátt fyrir það gengur verkið vel að sögn bormanns á svæðinu. Rétt í þessu er verið að hallamæla holuna.

Ölkeldudalur lýstur upp

Starfsmenn RARIK vinna nú að því að setja upp ljósastaura fyrir Grundarfjarðarbæ, en staðið hefur til í nokkurn tíma að fá þessa lýsingu upp á hinum nýja Ölkelduvegi. Settir verða upp 14 ljósastaurar á Ölkelduvegi, 1 efst á Hrannarstíg og 3 staurar efst á Borgarbraut gegnt Grunnskóla og íþróttahúsi. Ennfremur verða setter upp 3 minni staurar við göngustíg á milli Grundarfjarðarkirkju og Dvalarheimilis og íbúða eldri borgara, til að bæta lýsingu á því svæði.  

Húðsjúkdómalæknir á Snæfellsnesi

Gísli Ingvarsson húðsjúkdómalæknir mun frá og með apríl mánuði verða með móttöku á Heilsugæslustöð Grundarfjarðar. Hann gerir ráð fyrir að koma með reglulegu millibili næstu mánuði, en fyrsta móttakan verður föstudaginn 8. apríl nk. Tekið er á móti  tímapöntunum á Heilsugæslustöð Grundarfjarðar í síma: 438-6682.