1x2 í Sögumiðstöðinni !

Áhugasamir tipparar voru mættir í Sögumiðstöðina á laugardagsmorguninn til að freista gæfunnar. Við tókum að gamni myndir af nokkrum þeirra og er fyrsta myndin af áskorendum vikunnar þeim Guðna Hallgríms og Guðmundi Jóns Guðni og Guðmundur

Sundæfingar.

Mánudaginn 11.apríl byrja sundæfingar. Til að byrja með verða æfingar á mánudögum og fimmtudögum kl 15:30 - 16:20 fyrir lengra komna og á miðvikudögum kl 14:30 - 15:00 fyrir byrjendur. Athugið að börnin verða að vera orðin synd. Sjáumst á sundæfingu - Sundráð

Sundlaugin opnar á laugardag

Sundlaugin opnar laugardaginn 9. apríl. Athugið að viðgerð á heitu pottunum er ekki lokið! Fyrst um sinn verður sundlaugin opin sem hér segir: Virka daga kl. 16-21.* Laugardaga og sunnudaga kl. 12:15-18. Hætt er að selja ofan í laug hálftíma fyrir lokun.   *Ath. á mánudögum og fimmtudögum eru sundæfingar til kl. 16:30. Aðeins er hægt að fara í heitu pottana á meðan á sundæfingum stendur.

Verkstjóri í áhaldahúsi

Grundarfjarðarbær auglýsir laust til umsóknar starf verkstjóra í áhaldahúsi bæjarins. Verkstjóri sér um undirbúning, skipulagningu og vinnu við ýmsar verklegar framkvæmdir og umhirðuverkefni á vegum áhaldahúss, s.s. við gatnakerfi og opin svæði, hreinlætismál, fráveitu og vatnsveitu, hefur umsjón með sumarstörfum og vinnuskóla og ýmsum fleiri verkefnum. Lögð er mikil áhersla á sveigjanleika, enda eru verkefni og vinnulag töluverðum breytingum háð. Iðnmenntun er æskileg, en reynslu má meta til jafns, krafa er gerð um haldgóða tölvukunnáttu og ritfærni. Lögð er áhersla á vinnusemi, samviskusemi, frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð. Konur jafnt sem karlar koma til greina í starfið.  

Starfslýsing vegna starfs verkstjóra í áhaldahúsi

Í auglýsingu um lausa stöðu verkstjóra í áhaldahúsi Grundarfjarðar í síðustu viku kom fram að starfslýsing kæmi út í dag, 6. apríl. Starfslýsingin verður væntanlega afgreidd á fundi bæjarráðs Grundarfjarðar 7. apríl, og verður birt á vef Grundarfjarðabæjar að honum loknum.   Bæjarstjóri  

Fréttir af borun

Frá borsvæði, mánudaginn 4. apríl sl.   Bormenn frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða eru búnir að bora 430 metra. Borun gengur hægt þessa stundina vegna þess að bergið er mjög hart. Kristján Sæmundsson, sérfræðingur hjá Orkustofnun, telur borunina ganga eðlilega miðað við berglög á svæðinu. Borinn er kominn í gegnum fyrri æðina og hefur rennslið verið stöðvað og er köldu vatni dælt ofan í holuna til þess að auðveldara sé að ná sandinum upp. 

Aðalfundur Félags atvinnulífsins í Grundarfirði

Aðalfundur FAG verður haldinn fimmtudaginn 7. apríl nk. kl. 20 í Sögumiðstöðinni. Gestur fundarins er Þórólfur Árnason fyrrverandi borgarstjóri og framkvæmdastjóri Tals. Hann fjallar um spurninguna "Hvernig markaðssetjum við Grundarfjörð"?    Allir velkomnir!   Stjórn FAG

Óveður á Snæfellsnesi og allir vegir ófærir

Lögreglan í Ólafsvík varar fólk við ferðalögum því á bæði norðan- og sunnanverðu Snæfellsnesi sé hið versta óveður og allt ófært. Fjórir bílar hafi lent utan vegar á leið um Nesið í morgun og erfiðleikum hafi verið bundið að koma þeim til hjálpar. „Við hvetjum fólk til að hreyfa alls ekki við bíl og halda heldur kyrru fyrir,“ sagði varðstjóri á Ólafsvík við Fréttavef Morgunblaðsins (mbl.is) af þessu tilefni.   Eftir „vorblíðu“ síðustu vikna er fólk orðið góðu vant og óneitanlega viðbrigði að fá svona snjóakafla, en sl. föstudag 1. apríl tók að snjóa í Grundarfirði (og víðar) - og reyndist ekki aprílgabb!   Snjókarlar risu á víð og dreif um bæinn um liðna helgi

Hitaveituframkvæmdir

Sunnudaginn 3. apríl komu bormenn Ræktunarsambandsins, sem nú vinna við borun vinnsluholu í Berserkseyrarodda, niður á fyrri vatnsæðina (sprungu) sem ætlunin var að sneiða og hittu þeir hana á um 380 metra dýpi. Blásið var úr holunni og að sögn dr. Kristjáns Sæmundssonar jarðfræðings mun rennslið varla hafa verið undir 20 l/sek. og hitinn um 80°C í vatnsæðinni. Svokallaðri skáholuborun er beitt og er hallinn á holunni um 23,8° frá lóðlínu.  

Enn eitt metið í Grundarfjarðarhöfn

Sjómenn í Grundarfirði slógu enn eitt löndunarmetið í marsmánuði en hann var sá stærsti til þessa. Heildarafli landaður í Grundarfjarðarhöfn í mars 2005 var 2.634 tonn samanborið við 1.946 tonn í mars 2004. Í meðfylgjandi töflu má sjá sundurliðun á lönduðum afla eftir tegundum bæði árin.   Tegundir 2005 2004 Þorskur 702.509  kg 785.623  kg Ýsa 268.860  kg 174.174  kg Karfi 663.996  kg 395.146  kg Steinbítur 294.223  kg 121.381  kg Ufsi 68.350  kg 69.978  kg Beitukóngur  kg  kg Rækja  kg  kg Langa  2.881  kg 1.740  kg Keila 1.051  kg 654  kg Gámafiskur 562.423  kg 309.448  kg Aðrar tegundir  69.878  kg 87.952  kg Samtals 2.634.171  kg 1.946.096  kg