Jarðvegsframkvæmdir í Grundarfirði

Þessa dagana er vandratað fyrir marga íbúa og gesti um bæinn, þar sem margar götur eru lokaðar vegna jarðvegsframkvæmda.  Frá grunnskólanum og  niður Borgarbraut er verið að endurnýja vatnslögn og setja hitaveiturör. Á Grundargötu, Ölkelduvegi  hefur Orkuveita Reykjavíkur verið að láta leggja hitaveitulagnir sem tilheyra dreifikerfi væntanlegrar hitaveitu.   Í næstu viku kemur malbikunarflokkur frá Hlaðbær Colas sem mun leggja malbik á þessar götur og í kringum skólann.  

Ný sundlaug og nýtt íþróttahús, kallað eftir sjónarmiðum íbúa

Grundarfjarðarbær er að hefja undirbúning að byggingu nýrrar sundlaugar og íþróttahúss, sem verður staðsett sunnan við núverandi íþróttahús samkvæmt hugmyndum sem Zeppelin arkitektar hafa lagt fram.     Á þessum tímapunkti er mikilvægt að draga fram þau markmið sem verða höfð að leiðarljósi við hönnun mannvirkisins.  Hvaða atriði á að setja í forgang og hvaða atriði er æskileg að ná fram þannig að aðstaða til íþróttaiðkunar í Grundarfirði verði sem best og gagnist sem flestum.           

HSH hlaut fyrirmyndarbikarinn

Eftirfarandi frétt birtist á Skessuhorni.is:   Ungmenni af Vesturlandi gerðu góða ferð á unglingalandsmót UMFÍ sem haldið var á Laugum í Reykjadal um og fyrir liðna helgi. Lið frá HSH, UMSB, UDN og Akranesi voru meðal keppenda, alls hátt á annað hundrað krakkar. Árangur Vestlendinga var ágætur og komust margir þeirra á verðlaunapalla. Sérstök háttvísisverðlaun, eða fyrirmyndarbikarinn, hlaut 47 manna lið HSH en viðurkenningin er veitt fyrir framúrskarandi umgengni, háttvísi og prúða framgöngu.  

Landaður afli í júlí

Landaður afli í Grundarfjarðarhöfn í júlí var 1.675 tonn. Landaður afli í júlí árið 2005 var 1.110 tonn og 658 tonn árið 2004. Í töflunni hér að neðan má sjá aflann í kílóum eftir tegundum öll þrjú árin.   Fyrstu sjö mánuði ársins hefur verið landað 12.618 tonnum. Til samanburðar var búið að landa 14.065 tonnum á sama tíma 2005 og 9.095 tonnum árið 2004.   Í töflunni hér að neðan er afli sundurliðaður og tilgreindur í kílóum.  

Skemmtiferðaskip í Grundarfirði

Skemmtiferðaskipið Princess Danae kom til Grundarfjarðar eftir hádegi í dag.  Skipið er um 162 metra langt og um 10 þúsund tonn að stærð.  Um 500 farþegar eru með skipinu,  flestir franskir og munu þeir fara í skoðunarferð um Snæfellsnes.  Leið skipsins liggur um norðurhöf;  Noreg, Ísland, Grænland og Færeyjar.    

Framkvæmdir hafnar við nýja bryggju við Grundarfjarðarhöfn

Grundarfjarðarhöfn hefur hafið framkvæmdir við gerð nýrrar stálþilsbryggju sem mun leysa litlu bryggjuna af hólmi.  Nýja bryggjan verður mun stærri en sú eldri,  um 65  löng annars vegar og 85 m löng hins vegar og 20 m breið. Tæplega 50 metra löng jarðvegsfylling er út að nýju bryggjunni.  Verktakafyrirtækið Berglín, sem var lægst í útboði verksins fyrr í vor með tilboð uppá tæpar 84 milljónir kr., sér um framkvæmdina.  

Jökulhálstryllir varð að Tankatrylli

Eftirfarandi frétt er á vef Skessuhorns:   Fjallahjólabrunkeppnin sem fram fór í fyrsta sinn á síðasta sumri á Jökulhálsi sem sérstakt norðurslóðaverkefni með tilstyrk Evrópusambandsins, var áformuð öðru sinni laugardaginn 29. júlí. Þegar til átti að taka voru forsvarsmenn Hjólreiðafélags Reykjavíkur ekki ánægðir með brautina sem slíka og var því ákveðið að flytja hana í brekkurnar ofan við Grundarfjörð. Þar lá leiðin framhjá vatnstanki Grundfirðinga og flaug einum keppenda í hug að kalla þetta Tankatrylli. Þar fór keppnin því fram á laugardag með þátttöku 6 hjólreiðakappa úr Hjólreiðafélagi Reykjavíkur sem sýndu snilldartakta á hjólum sínum. Teymdu þeir hjól sín upp en brunuðu síðan niður tvær ferðir hver.