Eldri borgarar

Söngæfingin miðvikudaginn 23 apríl fellur niður, næsta æfing verður miðvikudaginn 30 apríl sem verður jafnframt síðasta söngæfing vetrarins. 

Líflegt málþing um líf án þorsks á Snæfellsnesi

Gestir á málþinginu.Er líf án þorsksins? var yfirskrift málþings um atvinnumál sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Snæfellsbær stóðu fyrir í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík á föstudag. Tilefni fundarins var breytt staða í atvinnumálum á Vesturlandi, þá sérstaklega Snæfellsnesi, eftir skerðingu þorskkvótans við upphaf síðasta fiskveiðiárs. Síðustu fréttir um lélega árganga og nýliðun í stofninum benda til þess að samdrátturinn í þorskveiðum sé kominn til að vera, að minnsta kosti næstu árin. Snæfellsnes hefur verið sérstaklega háð þorskaflanum og sjávarútveginum, enda vægi sjávarútvegs hvorki meira né minna en 70% af verðmætasköpun atvinnulífsins á svæðinu. Frétt á vef Skessuhorns 21. apríl 2008.

Sýning í Norska húsinu í Stykkishólmi

Á sumardaginn fyrsta opnar Sigríður Erla Guðmundsdóttir myndlistarkona sýningu á verkum sínum. Sýningin er að efninu til að mestu unnin úr leir frá Fagradal á Skarðströnd en hugmyndirnar eru sóttar hingað og þangað. Þó má sjá  þráð sem liggur til Breiðafjarðar bæði til sjávar og lands. Má nefna portret af Breiðfirðingum þekktum sem óþekktum, forvitna fugla sem einu sinni  sátu á skerjum og vissu ekki annað. Tómataþroskarar og ávaxtaskálar sem spruttu upp úr hrúðurkörlum og júgrum. Beinahrúgu úr fínu frönsku postulíni og sterkleg bein úr Dölum.  

Listasmiðja fyrir börn á Snæfellsnesi

Viðburðarvika verður haldinn dagana 23. - 30. apríl nk. og af því tilefni verður sett upp listasmiðja fyrir börn sem eru í 1. - 7. bekk í grunnskóla. Hér má sjá auglýsingu með nánari upplýsingum.   

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, í heimsókn í Grundarfirði og víðar á Snæfellsnesi

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra fór um Snæfellsnesið í dag og hélt fundi með sveitarstjórnarfóki og fleirum.  Ráðherrann vildi m.a. kynna sér frá fyrstu hendi stöðu mála í Green Globe verkefninu.  Mörg önnur umhverfismálefni voru einnig rædd og nefna má t.d.; úrbætur í frárennslismálum, lög um verndun Breiðafjarðar, frumvörp um skipulags- og mannvirkjamál, friðlýsingar, Þjóðgarðinn, upptöku votlendis Breiðafjarðar á Ramsar skrá o.fl. o.fl.  Eftir heimsókn til Stykkishólms kom ráðherrann til Grundarfjarðar þar sem haldinn var fundur með bæjarráði Grundarfjarðarbæjar og bæjarstjóra.  Að loknum fundi með fulltrúum bæjarstjórnarinnar hélt ráðherrann í Fjölbrautaskóla Snæfellinga og síðan til Snæfellsbæjar. 

Niðurstöður úr rannsókn á notkun vímuefna meðal unglinga í 10. bekk

Fyrir um það bil ári tóku nemendur í 10. bekk grunnskóla á landinu öllu þátt í evrópskri rannsókn á áfengis - vímefna - og tóbaksnotkun (ESPAD). Um þessar mundir er unnið að fjölþjóðlegri skýrslu úr niðurstöðum rannsóknanna í þáttökulöndunum, sem væntanleg er á næstu misserum. Til að tryggja persónuvernd miðast niðurstöðurnar við hópa sem í eru að lágmarki 40 nemendur. Hér má sjá niðurstöður fyrir nemendur í sveitarfélögum á Snæfellsnesi. 

Starfsfólk óskast í sundlaug

Grundarfjarðarbær óskar eftir að ráða starfsfólk í sundlaug Grundarfjarðar í sumar.  Starfsfólk sundlaugar annast þrif, móttöku og afgreiðslu gesta og öryggisgæslu.  Unnið er á vöktum og eru launakjör skv. kjarasamningi Launanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga.  Nánari upplýsingar og eyðublöð má nálgast á skrifstofu Grundarfjarðarbæjar, s. 430 8500 eða á heimasíðunni www.grundarfjordur.is.

Fundur um atvinnumál

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Snæfellsbær boða til fundar um atvinnumál í félagsheimilinu Klifi, Ólafsvík, föstudaginn 18. apríl 2008. Húsið opnar kl. 12.30. Hér má sjá dagskrá fundarins.

Kallað eftir styrkumsóknum og tilnefningum vegna umhverfisviðurkenningar.

Umhverfissjóður Snæfellsness mun úthluta styrkjum úr sjóðnum á alþjóðlegum degi umhverfisins þann 5. júní 2008. Hér má sjá nánar um styrkveitinguna.

Gönguferð með Lions

Laugardaginn 19 apríl verður farið í gönguferð til að vekja athygli á þeirri vá sem sykursýki er. Farið verður frá Samkaupum kl. 14.00 og gengið í c.a. klukkutíma. Á sama tíma verða Samkaup og apótekið  með kynningu á nýjum  vörum fyrir sykursjúka. Að gönguferð lokinni verður farið á heilsugæsluna þar sem boðið verður upp á heilsusamlega hressingu í boði Samkaupa, einnig mun  Gunda, læknirinn okkar, mæla blóðsykurinn hjá þeim sem það vilja. Fjölmennum og njótum hollrar og skemmilegrar stundar saman.   Stjón Lions