17. júní - myndir

Hér er að finna myndir af hátíðarhöldum 17. júní og vígslu nýrrar sundlaugar. Myndirnar tók Sverrir Karlsson.

17. júní 2009: Ný sundlaug vígð í Grundarfirði

Frétt af vef Skessuhorns  19.06.2009   Klippt á borða og laugin vígð.Meðal viðburða á þjóðhátíð í Grundarfirði á þjóðhátíðardaginn var vígsla nýrrar sundlaugar, sem reist var á grunni þeirrar gömlu sem tekin var í notkun árið 1976. Nýja sundlaugin er úr sömu efnum og sú gamla, en fullkomnari að því leyti að við bakka hennar er svokallaður öldubrjótur, þar sem vatnið rennur áfram yfir í rennur og þaðan í hreinsikerfi laugarinnar. Sundlaugin er byggð á trégrind og laugarkerið er eins og í gömlu lauginni plastdúkur frá Seglagerðinni. Stærðin er sú sama og áður 8x16,66 metrar. Ekkert ásættanlegt tilboð barst í framkvæmdirnar í vor og var því ákveðið að starfsmenn bæjarins undir stjórn Ágústs Jónssonar ráðsmanns sæju um verkið og fengju til aðstoðar iðnaðarmenn á staðnum. Gamla laugin var rifin í byrjun maí og smíði við endurnýjunina hófst síðan 14. maí.

Grundar- og Kvernárhlaup 17. júní 2009

Hin árlegu Grundar- og Kvernárhlaup fóru fram í góðu veðri á 17. júní sl.  Þátttaka í hlaupunum hefur verið að aukast á ný.  Hér koma nokkrar myndir sem Björg Ágústsdóttir tók af þátttakendum og fleirum:    

17. júní 2009

Vel heppnuð Sigríðarganga

Rúmlega 50 manns mættu í hina árlegu Sigríðargöngu s.l. sunnudag. Veðrið var með besta móti og allir með góða skapið með sér. Engin met voru slegin á niðurleiðinni en sá fljótasti var Hallur Pálsson á u.þ.b. einni mínútu.   Halldór K. Halldórsson tók þessar skemmtilegu myndir í ferðinni.  

Garðaganga Kvenfélagsins Gleym mér ei

Miðvikudagskvöldið 10. júní kl. 20:00 hittist fólk í Þríhyrningnum og fór þaðan í garðyrkugöngu. Heimsóttir voru nokkrir garðar í björtu og fallegu veðri. Lesið meira á fréttasíðu kvenfélagsins og skoðið mokkrar myndir. SuN

Kvennahlaupið 20 ára.

Í ár eru 20 ár frá því að fyrsta kvennahlaupið var haldið og vonast forsvarsmenn hlaupsins til að konur um allt land fjölmenni.  Hlaupið verður haldið 20 júní um land allt og auglýsingar hafa birst í Morgunblaðinu með upplýsingum um hlaupastaði. Hér í Grundarfirði verður líka hlaupið og er mæting laugardaginn 20 júní kl. 12:00 við íþróttahúsið, og lagt af stað 12:10.  Allar konur ættu að finna einhverja vegalengd við sitt hæfi hvort sem þær vilja ganga eða skokka.  Þær sem vilja nálgast kvennahlaupsboli fyrir hlaupið geta haft samband við Kristínu H í S: 8993043 eða komið við í Gröf 4.  Bolirnir eru fallega bleikir í ár og skráningargjaldið er það sama og hefur verið, 1000 kr.

Glampandi sól í Grundarfirði um helgina

Séð yfir Grundarfjörð                               Veðurspáin fyrir komandi helgi í Grundarfirði er aldeilis stórfín.  Gert er ráð fyrir björtu og hægu veðri.  Breiðafjörðurinn skartar sínu fegursta og náttúrudýrðin heillar alla.  Ferðfólkið streymir nú um Snæfellsnesið og tjaldsvæðin fyllast.  Í Grundarfirði er óendanleg náttúrudýrð og útsýnið yfir Breiðafjörðinn á ekki sinn líka.  Kirkjufellið er einstakt, Kolgrafafjörður og Hraunsfjörður eru náttúruperlur.  Fuglalífið er í mestum blóma um þetta leyti.  Leikhópurinn Lotta verður með útileikhús á laugardaginn kl. 11.00 fyrir börn á öllum aldri.  Allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi hvort sem er í þjónustu eða afþreyingu.

Útileikhús í Grundarfirði á laugardaginn

Laugardaginn 13. júní sýnir Leikhópurinn Lotta barnaleikritið Rauðhettu í Grundarfirði. Sýnt verður í Þríhyrningnum og hefst sýningin klukkan 11:00. Sýnt er utandyra og er því um að gera að klæða sig eftir veðri og taka með sér teppi til að sitja á og hlýja sér ef kalt er í veðri.  

Nýr rekstraraðili tekur við tjaldsvæði Grundarfjarðar

Grundarfjarðarbær hefur gert rekstrarsamning við fyrirtækið 65°Ubuntu um rekstur tjaldsvæðis bæjarins. Þessi samningur er gerður í kjölfar umfangsmikilla umbóta á tjaldsvæðinu, bæði hvað varðar stærð og staðsetningu. Í raun er um að ræða þrjú svæði sem henta mismunandi þörfum ferðalanga. Þessar breytingar hafa í för með sér að tekin verður upp gjaldtaka. Áform eru uppi um enn frekar stækkun og eflingu þjónustu.   Nánari upplýsingar um tjaldsvæði Grundarfjarðar er að finna hér.