Stefnumótun Grundfirðinga í ferðaþjónustu

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum þann 8. júní 2009 stefnu í ferðaþjónustu. Upphaf stefnumótunarvinnunnar má rekja til aðgerða bæjarstjórnarinnar og ákvörðunar um að verkefnið yrði liður í mótvægisaðgerðum vegna almennrar skerðingar á aflaheimildum. Með því vildi bæjarstjórn bregðast við og kortleggja möguleika byggðarlagsins til eflingar atvinnulífsins til framtíðar.

Kjör forseta og varaforseta bæjarstjórnar og bæjarráðs til eins árs

Á fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar þ. 8. júní sl. var Sigríður Finsen kosin forseti bæjarstjórnar til eins árs.  Þórey Jónsdóttir var kosin varaforseti til sama tímabils.  Í bæjarráðið voru kosin til eins árs; Rósa Guðmundsdóttir, Sigríður Finsen og Gísli Ólafsson.   Væntanlega er þetta í síðasta sinn sem kosið er til þessara embætta á yfirstandandi kjörtímabili en sveitarstjórnarkosningar verða í maí 2010.

Vel heppnaður Sjómannadagur í frábæru veðri

Hátíðarhöld á sjómannadaginn tókust einkar vel í ár. Forskot var tekið á sæluna á föstudeginum með golfmóti Guðmundar Runólfssonar. 63 mættu til leiks og skemmtu menn sér hið besta. Á laugardeginum lék veðrið við viðstadda. Dagskráin hófst með siglingu Hrings og Farsæls. Þegar komið var í land tók við grillveisla á höfninni við undirleik lúðrasveitarinnar og ýmsar skemmtilegar uppákomur voru í boði.

Vel tekið á móti gestum

Síðastliðinn fimmtudag var mikið um dýrðir í Grundarfirði. Dagurinn hófst með því að skemmtiferðaskipið Spirit of Adventure lagðist að bryggju. Gestirnir voru boðnir velkomnir með ljúfum tónum frá Lúðrasveit Tónlistarskóla Grundarfjarðar. Samtímis var opnaður í fyrsta skiptið markaðurinn Komdu í land. Þar voru samankomnir aðilar af öllu Snæfellsnesi að bjóða vörur sínar og framleiðslu til sölu. Markaður þessi er framtak Steinunnar Hansdóttur og tilraun til að efla verðmætasköpun við heimsóknir skemmtiferðaskipa til Grundarfjarðar. Ekki er hægt að segja annað en að sú tilraun hafi tekist með prýði og þeir 14 aðilar sem tóku þátt voru ánægðir með árangurinn.

Sigríðarganga

Hin árlega Sigríðarganga á Eyrarfjall verður farin 14. júní n.k. Gengið er á Eyrarfjall og hlaupið niður strákaskarð. Hægt er að ganga upp á Eyrarfjall í Framsveit við Grundarfjörð á nokkrum stöðum. En núna er farið upp frá Þórdísarstöðum og lagt verður af stað klukkan 16:00. Gangan upp tekur um einn og hálfan tíma ef rólega er gengið. Siðan er hlaupið niður fjallið og er skemmsti tími 49 sekúndur, en oftast er miðað við 3 mínútur en það setur engin met í fyrstu tilraun. Ganga á Eyrarfjall hentar fjölskyldum og börnum allt niður til 4-5 ára aldurs.

106. fundur bæjarstjórnar

106. fundur bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar verður haldinn í Samkomuhúsinu þann 8. júní 2009 kl.16.15. Fundir bæjarstjórnar eru opnir og eru allir velkomnir að koma og hlýða á það sem fram fer.

Kiwanis gefur hjálma

Kiwanishreyfingin á Íslandi færir árlega öllum 6 ára börnum reiðhjólahjálma að gjöf. Þessi vaski hópur Grundfirðinga var að vonum ánægður með framtakið.  

Sjómannadagur 2009

Nú líður að sjómannadeginum. Í Grundarfirði verður glatt á hjalla og margt að gerast.   Dagskránna má finna hér. 

Ath breyttan tíma hjá 4-5 fl kk í dag

Æfingin sem átti að vera kl 16 í dag verður kl 19 í staðinn. Endilega látið þetta berast til þeirra sem þetta varðar.   kv Raggi Mar 

Andi ævintýra í Grundarfirði

Fimmtudaginn 4. júní heimsækir skipið Spirit of Adventure Grundarfjörð. Skipið er smíðað í Þýskalandi 1980 og hét upprunalega Berlin. Undir því nafni var það í aðalhlutverki í hinum vinsæla þýska sjónvarpsþætti Traumshchiff (draumaskipið). 1986 var skipinu breytt og hefur frá því heitið Spirit of Adventure. Það er 9.570 tonn og 140 metrar á lengd. Í áhöfn eru 168 og ber skipið 352 farþega. Skipið telst ekki stórt en gert er út á persónulega þjónustu og upplifun fyrir gesti. Grundfirðingar taka að sjálfsögðu vel á móti þessum gestum og mun ýmislegt vera í gangi í bænum. Markaður verður í gömlu Hamrabúðinni, hressir krakkar verða með uppákomur með söng og leik, gallerí Bibba opnar með stæl og margt fleira.