Til kattaeigenda

Töluvert hefur borið á ónæði af völdum katta upp á síðkastið. Kattaeigendum er því bent á að kattahald í þéttbýli Grundarfjarðar er óheimilt nema með sérstakri undanþágu og leyfi til kattahalds. Í dag er virkt leyfi fyrir einn kött í bænum.   Kattaeigendur eru hvattir til að sækja um leyfi til kattahalds í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar um kattahald frá árinu 2005. 

Árshátíð unglingadeildar grunnskólans

Fimmtudaginn 11. mars n.k. halda nemendur unglingadeildar grunnskólans árshátíð. Að þessu sinni verður hún með því sniði að sett er upp sýning þar sem á boðstólnum verður dans, söngur, tónlist, myndbönd og margt fleira. Sýningin verður í samkomuhúsinu og hefst klukkan 17:30.   Frekari upplýsingar er að finna á vefsíðu grunnskólans.  

Auglýsa eftir umhverfisfulltrúa á Snæfellsnes

Skessuhorn 8. mars 2010: Náttúrustofa Vesturlands í Stykkishólmi auglýsir nú eftir umhverfisfulltrúa til að sinna umhverfismálum sveitarfélaganna fimm á Snæfellsnesi. Um er að ræða 100% stöðu, sem felur í sér vinnu að og umsjón með sjálfbærnivottun Snæfellsness. Um er að ræða krefjandi og fjölbreytt starf sem getur falið í sér tækifæri til að hafa víðtæk áhrif á sviði umhverfismála. Umsækjandi þarf að hafa lokið háskólanámi í umhverfisfræði eða náttúrufræði en framhaldsmenntun á háskólastigi er æskileg. Færni í að miðla upplýsingum á rituðu og töluðu máli og góð enskukunnátta er nauðsynleg. Sjá nánar á vef Náttúrustofu Vesturlands; www.nsv.is   

Pólverjar sigursælir á Northern Wave

Af vef Northern Wave.   Þriðju Northern Wave hátíðinni lauk í dag og hefur hátíðin aldrei verið betur sótt en í ár. Fullt hús var nánast allan laugardaginn en talið er að um hundrað manns hafi setið í gegnum þær átta klukkustundir af stuttmyndum sem í boði voru. Hin mikla fiskisúpuveisla var haldin á fiskmarkaði Grundarfjarðar á laugardaginn og er óhætt að segja að hún hafi slegið í gegn bæði hjá Grundfirðingum og gestum hátíðarinnar en rúmlega þrjú hundruð manns sóttu veisluna.

Vorboði

Það hafa eflaust margir rekið upp stór augu þegar þeir áttu leið fram hjá tjaldsvæði bæjarins í gær og í dag. En þar er komið upp tjald og að sjálfsögðu gestur með því. Svo virðist sem ferðamannastraumurinn ætli að byrja fyrr en áður. Bjóðum við þennan fyrsta ferðamann ársins velkomin til Grundarfjarðar.  

Northern Wave hefst í dag

Alþjóðlega stuttmyndahátíðin Northern Wave verður haldin í þriðja skiptið í Grundarfirði nú um helgina. Sýnd verða 75 tónlistarmyndbönd og stuttmyndir frá 20 löndum en hátíðinni bárust í kringum 150 myndir frá 40 mismundandi löndum.   Hátíðin hefst formlega kl. 17:00 í Samkomuhúsi bæjarins og hefjast sýningar klukkustund síðar.  

Þjóðaratkvæðagreiðsla 6. mars 2010

Auglýsing um kjörfund í Grundarfjarðarbæ vegna þjóðaratkvæðagreiðslu þann 6. mars 2010   Þjóðaratkvæðagreiðsla verður laugardaginn 6. mars 2010 skv. ákvæðum laga nr. 4/2010.   Kjörfundur í Grundarfjarðarbæ hefst kl. 10.00 og honum lýkur kl. 22.00 laugardaginn 6. mars 2010.   Kosið verður í einni kjördeild í Grunnskóla Grundarfjarðar.   Framvísa ber persónuskilríkjum á kjörstað ef kjörstjórn fer fram á það.   Kjörstjórn Grundarfjarðarbæjar.   Nánari upplýsingar um þjóðaratkvæðagreiðsluna er að finna á: http://www.thjodaratkvaedi.is/

Námskeið í markaðssetningu á netinu

SSV-þróun og ráðgjöf og Símenntunarmiðstöð Vesturlands í samvinnu við Útflutningsráð Íslands standa fyrir námskeiði í markaðssetningu á netinu, en það er byggt á samnefndri bók sem kom út á dögunum.   Kennarar eru Guðmundur Arnar, markaðsstjóri hjá Icelandair og Kristján Már hjá Nordic eMarketing. 

Ásbjörn vill að fiskifræði sjómannsins verði nýtt

Skessuhorn 3. mars 2010: Ásbjörn Óttarsson alþingismaður hefur á Alþingi mælt fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.  Þar leggur hann til að auk Hafrannsóknastofnunar skuli aflaráðgjafarnefnd veita sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ráðgjöf um heildarafla fisks í lögsögunni. Ráðherra skipi þessa nefnd og skuli hún við tillögugerð sína m.a. byggja á reynslu og þekkingu sjómanna og þeim gögnum sem verða til við störf  þeirra á vettvangi. Nefndin leggi áherslu á nauðsyn þess að nýta fiskistofna með skynsamlega nýtingu að leiðarljósi og að samræmis sé gætt milli tegunda.

Líf og fjör hjá hestamönnum

Ýmislegt hefur verið á döfinni hjá Hestaeigendafélagi Grundarfjarðar frá áramótum, meðal annars spilakvöld, sunnudagsreiðtúrar og kaffi á eftir.  Haldin var rekstrardagur þar sem var farið seinnipart föstudags og hrossin rekin út að Kirkjufellsbrekku og til baka með tilheyrandi hamagangi.  Greinilegt var að hrossunum leiddist það ekkert að geta teygt aðeins úr sér án knapa.  Á eftir var boðið upp á súpu og brauð, horft á videó og spjallað fram á kvöld.  Allmargir félagar eru á reiðnámskeiði hjá Lárusi Hannessyni sem er einu sinni í viku og framundan er fyrirlestur um litaerfðir hesta, einnig páskamót og árshátíð.