Sundlaugin á sumardaginn fyrsta.

Sundlaugin verður opin frá klukkan 13.00 - 17.00 á morgun fimmtudag, sumardaginn fyrsta. Íþróttahús verður lokað þann dag.     

Danskennsla í grunnskólanum.

  Á mánudegi til miðvikudags í þessari viku fer fram danskennsla í öllum bekkjum grunnskólans. Danstímarnir eru í íþróttahúsinu á skólatíma nemenda en danssýning verður á miðvikudeginum kl. 15.00. Danskennari er Eva Karen ÞórðardóttirStjórn foreldrafélagsins hefur sýnt danskennslunni mikinn áhuga og lagt skólanum lið með fjárframlagi o. fl.Allir eru velkomnir á danssýninguna í íþróttahúsinu á miðvikudag 21. apríl kl. 15.00

Umhverfisátak 19. – 25. apríl – Hendur fram úr ermum!

Kæri Grundfirðingur. Nú líður að sumri og kominn tími til að klæða bæinn í sumarbúning. Brettu nú upp ermar og taktu til hendinni. Nú er tíminn til að skella sér í það sem staðið hefur til lengi, henda rusli, laga til í garðinum, mála og allt hitt. Síðasta sumar leit bærinn okkar mjög vel út. Gerum hann enn flottari í ár! Opnunartími gámastöðvarinnar er mánudaga til föstudaga kl.16:30-18:00 og laugardaga kl.10:00-12:00 Bókasafnið, félagar í Skógræktarfélagi Eyrarsveitar og garðyrkjuhópi kvenfélagsins verða með kynningar– og fræðslubás í Samkaupum 22. apríl (sumardaginn fyrsta) kl.16:00-18:00. Þar er boðið upp á ráðgjöf og leiðbeiningar.   Umhverfisnefnd Grundarfjarðarbæjar veitir  viðurkenningar fyrir bestu tilþrifin í tiltekt og fegrun. Þetta átak er í tilefni af Degi umhverfisins sem er á sunnudaginn þ. 25. apríl n.k. Viltu vita meira?  

Vika bókarinnar - Lestur

Bókasafn Grundarfjarðar minnir á bækling Ibbys um lestur sem barst inn um bréfalúgur á mánudaginn. Flestar bækur sem minnst er á eru til og hægt að fá aðstoð við bókaval, bæði á pappír, rafrænar eða hljóðbækur. Verðum í Samkaupum á Sumardaginn fyrsta kl. 16-18 með bækur o.fl. um gróður og garðyrkju í tilefni af Degi umhverfisins.                     SuN                    Þema:  Líffræðileg fjölbreytni.   GN  

Opinn dagur í hesthúsunum á sumardaginn fyrsta.

Sumardaginn fyrsta 22. apríl á milli kl 14 og 16 býður Hesteigendafélag Grundarfjarðar bæjarbúum í heimsókn í hesthúsin. Þar gefst þeim kostur á að skoða það sem þar fer fram, skoða dýrin sem eru í hesthúsunum  og síðan verður börnum  boðið á hestbak. Í Fákaseli verður Vöfflukaffi  til sölu á meðan húsin eru opin. Verið öll velkomin. Stjórnin  

Síðasta Pub Quiz vetrarins er í kvöld

Nú er síðasti séns til að láta ljós sitt skína á pub quiz hjá Meistaraflokknum því að síðasta Pub Quiz vetrarins er á dagskrá í kvöld kl 21:00 á Kaffi 59. Það kostar aðeins 500 kr. að taka þátt og rennur allur ágóðinn beint til Meistaraflokks Grundarfjarðar í knattspyrnu. Þemað í kvöld er óvænt en óhætt er að búast við miklu fjöri. Láttu sjá þig.   Meistaraflokksráð 

Blúndubrók og brilljantín - Aukasýning

Nú er sýningum á söngleiknum Blúndubrók og brilljantín - "Those were the days" lokið og voru viðtökurnar vægast sagt frábærar. Uppselt var á allar sýningar og voru margir sem höfðu á orði að gaman væri að hafa eins og eina aukasýningu. Nú hefur verið sett upp ein aukasýning á miðvikudagsvköldið kl. 20 og sýnt er eins og áður í Samkomuhúsi Grundarfjarðar. Nú er um að gera og panta miða á þessa aukasýningu, bæði þeir sem séð hafa verkið og vilja fara aftur sem og þeir sem hafa einhverra ástæðna vegna ekki séð sýninguna.   Miðasala fer fram í síma 430-8550 frá kl: 08 til 16 og eftir það í síma 863-1670.  

Ekki hætta á öskufalli í bráð

Almannavarnanefnd Snæfellsness fylgist með þróuninni í gosinu í Eyjafjallajökli.  Ekki er talin hætta á að aska berist yfir vestanvert landið næstu daga.  Hægt er að fylgjast með leiðbeiningum og fréttum af aðgerðum og þróun gossins á eftirfarandi vefum:   http://www.ust.is/Adofinni/Frettir/nr/6573 http://www.landlaeknir.is/Pages/1055?NewsID=2121 www.almannavarnir.is http://www.almannavarnir.is/displayer.asp?cat_id=8&module_id=220&element_id=2121   Sóttvarnalæknar hafa verið virkjaðir og fá upplýsingar eftir því sem þær berast.  Sjá vef landlæknisembættis: http://www.landlaeknir.is/Pages/1055?NewsID=2121  

Bæjarstjórnarfundur

118. fundur bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar verður haldinn í grunnskóla Grundarfjarðar, mánudaginn 19. apríl 2010, kl.16.15. Fundir bæjarstjórnar eru opnir og eru allir velkomnir að koma og hlýða á það sem fram fer.

Eftilitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur ákveðið að aðhafast ekki frekar vegna fjárhagslegrar stöðu Grundarfjarðarbæjar

Með bréfi dagsettu 13. apríl 2010, hefur eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga tilkynnt bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar, að hún muni ekki að svo stöddu aðhafast frekar vegna fjárhagslegrar stöðu bæjarfélagsins.  Nefndin áréttar að vinna þurfi markvisst að því að bæta rekstrarafkomu og að lækkun á skuldastöðu sem nefndin telur vera of háa eins og er.  Tekið er fram, að í fjárhagsáætlunum fyrir yfirstandandi og næstu ár, sé gert ráð fyrir hallalausum rekstri bæjarsjóðs.  Nefndin fer fram á að ársreikningar fyrir árið 2009 verði sendir til hennar um leið og þeir hafa verið afgreiddir.  Einnig er farið fram á að nefndinni berist ársfjórðungslega uppgjör úr rekstri sveitarfélagsins með samanburði við fjárhagsáætlun.   Þegar á síðari hluta ársins 2008 var gripið til aðhaldsaðgera í rekstri bæjarins og þeim var haldið áfram skipulega og markvisst á síðasta ári.  Árangurinn varð sá að allur rekstrarkostnaður lækkaði á milli áranna 2008 og 2009.  Með þessu var brugðist við efnahagshruninu um leið og það varð og þeirri vinnu hefur verið haldið áfram.  Á síðasta ári varð lántaka minni en afborganir lána, þannig að fyrir utan áhrif af verðbólgu og gengissigi, var um lækkun skulda að ræða hjá bæjarsjóði.  Ársreikningar fyrir árið 2009 voru lagðir fram til fyrri umræðu þ. 25. mars sl.  Síðari umræða og afgreiðsla fer fram seinna í þessum mánuði.