Deiliskipulagsuppdráttur

 

Deiliskipulag vegna fyrirhugaðs hótels í landi Skerðingsstaða tekur gildi

 

Þann 24. ágúst nk. mun deiliskipulag vegna hótels í landi Skerðingsstaða taka gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda.

 

Deiliskipulagið er í samræmi við Aðalskipulag Grundarfjarðarbæjar 2019-2039 en þar er svæðið skilgreint fyrir verslun og þjónustu. Skipulagssvæðið er um 4,5 ha að stærð og liggur á tanga sem gengur út í Lárvaðal undir Skerðingsstaðafjalli. Nýtingarhlutfall skipulagssvæðisins verður að hámarki 0,13. Á svæðinu er gert ráð fyrir allt að 100 herbergja hóteli og allt að fimm smáhýsum. Hótelbyggingin verður stölluð og verður hæsti punktur hennar mest 22,5 m frá botnplötu 1. hæðar. Hámarks byggingarmagn hótelsins verður 5500 m2 ofanjarðar. Byggingarreiturinn er að miklu leiti innan fornminjasvæðis og liggur niðurstaða fornminjaskráningar fyrir. Byggingin verður klædd að utan með náttúrulegum efnum og þök lögð gróðurþekju. Byggingarreitur fyrir smáhýsin er austast á skipulagssvæðinu og er húsunum raðað upp með óreglulegum hætti. Hæð smáhýsanna verður mest 4,5 m frá botnplötu. Hámarks byggingarmagn smáhýsanna er 300 m2.

Deiliskipulagið hefur hlotið meðferð í samræmi við 41. gr. og 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 m.s.br. Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar samþykkti þann 10. mars 2022 að auglýsa tillögu að  deiliskipulagi fyrir Skerðingsstaði ásamt umhverfismatsskýrslu í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 15. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Tillagan var auglýst 20. júlí 2022 með athugasemdafresti til og með 14. september 2022.

Eftir umfjöllun um athugasemdir sem bárust, lagði skipulags- og umhverfisnefnd fram þrettán skilyrði á 246. fundi sínum þann 20. febrúar sl. sem staðfest voru á 270. fundi bæjarstjórnar þann 9. mars 2023. Hér er hlekkur á fundargerð bæjarstjórnar

Þeim sem gerðu athugasemdir við deiliskipulagstillöguna hefur verið sendur tölvupóstur með samantekt athugasemda og viðbrögðum sveitarfélagsins við þeim.

 

Vakin er athygli á málskotsrétti skv. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála nr. 130/2011, en þar er kveðið svo á að þeir sem lögvarða hagsmuna eiga að gæta er heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir. Kærufrestur er einn mánuður frá birtingu deiliskipulagstillögu í B- deild Stjórnartíðinda, þ.e. frá 24. ágúst 2023 til 24. september 2023. Þeim sem gerðu athugasemdir við tillöguna verður tilkynnt um málsskotsrétt sinn.

 

Grundarfirði, 15. ágúst 2023

Kristín Þorleifsdóttir, skipulagsfulltrúi

 

Skipulagsgreinagerð

Umhverfis- og framkvæmdaskýrsla

Samantekt umsagna og athugsemda

Svör skipulags- og umhverfisnefndar við athugasemdum