Nú er ár liðið frá íbúaþingi sem haldið var á vegum Grundarfjarðarbæjar í nóvember í fyrra og því ekki úr vegi að rifja upp helstu skilaboð íbúa og hvernig þeim hefur verið fylgt eftir.
Á þinginu voru flutt erindi um sjávarútveg, ferðaþjónustu, Svæðisgarðinn Snæfellsnes, menntun og málefni ungs fólks og eldri borgara. Þátttakendur stungu síðan upp á umræðuefnum sem rædd voru í hópum.
Í samantekt um íbúaþingið er sagt frá erindunum og niðurstöðum umræðuhópa. Eftir þingið fór stýrihópur yfir hugmyndir sem fram komu og gerði tillögur um eftirfylgni, sem bæjarráð fjallaði um. Sumt var einfalt að framkvæma og annað stærra og flóknara og þarf lengri tíma. Einhverjar hugmyndanna eiga ekki eftir að verða að veruleika og aðrar snúa að félagasamtökum, fyrirtækjum og stofnunum, t.d. skólunum og eru í þeirra höndum.