Páskamót Hesteigendafélags Grundarfjarðar

Þátttakendur í barnahring: Aftari röð: Svana Björk, Sandra Rut, Rakel Mirra, Harpa Lilja og  Fanney. Fremri röð: Helena Líf, Brynja Gná, Arna Jara og Freyja Líf. Á myndina vantar Sigurð Heiðar.  Árlegt páskamót Hesteigendafélag Grundarfjarðar var haldið í gær, annan dag páska. Mjög góð mæting var á mótið og var húsfyllir í Fákaseli! Á myndinni hér að ofan má sjá yngstu knapa mótsins sem stóðu sig með prýði í „barnahring“. Í barnahring er ýmist er teymt undir börnunum eða þau tvímenna með foreldrum sínum. Níu stelpur og einn strákur tóku þátt í hringnum að þessu sinni og fengu þau páskaegg fyrir þátttökuna.   Verðlaun á mótinu voru í boði Sjóvá - Almennra hf.

Hlýindi á páskum

Hlýindi hafa einkennt Páskaveðrið í Grundarfirði, eins og víðar um land. Hiti hefur verið um 8-12°C síðustu daga, en nokkur úrkoma. Margir hafa notað frídagana til útivistar, vinsælt er að ganga eftir reiðveginum sem teygir sig alla leið frá hesthúsahverfi vestan þéttbýlisins og út fyrir Kverná, austan byggðarinnar. Kirkjugestir tóku Páskadaginn snemma því messað var í Grundarfjarðarkirkju kl. 9 og minnst upprisu Jesú. Messað var í Setbergskirkju Föstudaginn langa og sameiginleg athöfn var með Ólsurum og Grundfirðingum í Ólafsvíkurkirkju á Skírdagskvöldi.

Bæjarstjórn Grundarfjarðar

Meirihlutasamstarfi Framsóknarmanna og Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Grundarfjarðar hefur verið slitið, en samstarf hefur verið með flokkunum í um ellefu ár. Þreifingar eru hafnar um myndun nýs meirihluta. Sjálfstæðismenn eiga þrjá fulltrúa í bæjarstjórninni, Framsóknarmenn tvo, listi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og óflokksbundinna í Grundarfirði  á einn fulltrúa og J-listi óháðra í Grundarfirði á einn fulltrúa.      

Búið að bora 174 metra

Borun eftir heitu vatni sem hófst í liðnni viku, gengur vel. Í dag, 23. mars, er búið að bora niður á 174 metra af 900 metrum sem áætlað er. Upplýsingar af gangi mála verða reglulega settar inn á heimasíðuna.

Umsókn um leyfi til kattahalds

Bæjarstjórn Grundarfjarðar hefur gert breytingu á eldri samþykkt um kattahald í þéttbýlinu. Sækja þarf um leyfi til kattahalds á þar til gerðum eyðublöðum sem fást á skrifstofu bæjarins og hér á vefnum.

Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum

Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum 12 – 14 ára var haldið helgina 5 – 6 mars í Fífunni í Kópavogi.  Frá UMFG fóru 7 krakkar að keppa af rúmlega 20 keppendum frá HSH en það er langt síðan að jafn margir hafa keppt fyrir hönd HSH á einu móti.  Af  UMFG krökkunum náði Hermann Þór Haraldsson bestum árangri en hann náði í gull, silfur og brons ásamt því að komast í úrslit í 60 m hl.  Þau voru flest að keppa á sínu fyrsta stóra móti en það voru um 300 keppendur á mótinu, en okkar krakkar stóðu sig öll með sóma.  

Samæfing í frjálsum íþróttum

Samæfing í frjálsum íþróttum á vegum UMSB, HSH og UDN var haldin í Borgarnesi föstudaginn 25 feb. síðastliðin fyrir 11 – 14 ára.  Þetta er liður í því að koma á fót úrvalshóp Vesturlands með krökkum frá þessum þrem félögum.  Stefnt er að því að hafa fleiri samæfingar og jafnvel að fara með þau í stutt keppnisferðalag í sumar.  

Götusópun - rýmum göturnar!

Nú fegrum við bæinn!   Vorið kemur óvenju snemma í ár. Hópur unglinga hefur þegar farið um bæinn og hreinsað rusl af götum og opnum svæðum. Fyrsta hreinsunarhelgin var um liðna helgi þar sem íbúar voru hvattir til að hreinsa lóðir sínar.  

Borun hefst!

Á þriðjudag í síðustu viku var byrjað að bora vinnsluholu fyrir væntanlega hitaveitu. Gert er ráð fyrir að borunin taki nokkrar vikur. Áætlað er að bora um 900 metra djúpa holu. Á föstudag var búið að bora niður á 60 metra.   Hér á heimasíðunni verður verkinu gerð regluleg skil á sérstökum tengli á forsíðunni.    

Fréttatilkynning um íbúaþing

Laugardaginn 5. mars var haldið íbúaþing Grundfirðinga, undir yfirskriftinni „Bjóðum tækifærunum heim!“  Ríflega 130 íbúar sóttu þingið og tóku virkan þátt í umræðum um framtíðarsýn bæjarins í skipulagsmálum og málefnum fjölskyldunnar.