Umferð hleypt yfir Kolgrafafjörð á mánudaginn

Mynd: Sverrir Karlsson Starfsmenn Vegagerðarinnar unnu við það í morgun að rétta vegrið og taka til á nýju vegfyllingunni yfir Kolgrafafjörð á Snæfellsnesi. Þar með lýkur vinnu við þverun fjarðarins og brúargerð en nýja leiðin styttir veginn milli Grundarfjarðar og Stykkishólms um 7 kílómetra. Næstkomandi mánudag 13. des. klukkan 15 mun samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, opna veginn fyrir umferð en formleg vígsla hans verður þó ekki fyrr en í vor. Sótt á vef Skessuhorns, www.skessuhorn.is.  

Bygging Fjölbrautaskóla Snæfellinga á lokastigi

Ásgeir Valdimarsson, formaður stjórnar Jeratúns ehf., Dagbjartur Harðarson ,,stjóri” á byggingarstað og Bjarni Árnason eftirlitsmaður spá í spilin.   Iðnaðarmenn eru nú í óða önn að ljúka við seinni hluta byggingar skólahúsnæðis fyrir Fjölbrautaskóla Snæfellinga, en byggingaraðili og eigandi hússins er Jeratún ehf., hlutafélag í eigu sveitarfélaganna á norðanverðu Snæfellsnesi. Starfsemi skólans hófst í lok ágúst, í hluta hússins, en nú er búið að opna á milli rýma og styttist í að húsnæðið verði allt tekið í notkun. Húsnæðið verður formlega vígt þann 7. janúar n.k. Meðfylgjandi myndir voru teknar í skólanum þriðjudaginn 7. desember sl. Sjá fleiri myndir hér.  

Jólasýning í Sögumiðstöð

Jólastofa í Sögumiðstöðinni                  Mynd: HJJÍ Sögumiðstöðinni er búið að setja upp jólaskreytta dagstofu í anda áranna í kringum 1960. Margt af því sem fyrir augu ber vekur upp minningar þessa tíma. Heimagert jólatré og pappírsskraut er eitt af því sem horfið er nú sýnum manna. Þó er eitthvað um að fólk kjósi að hafa jólatrén sín í þessum stíl í dag og þykir það flott. Ef einhverjir eiga muni í fórum sínum frá þessum tíma má alltaf bæta við sýninguna, og má hafa samband við safnstjóra Sögumiðstöðvarinnar, Inga Hans Jónsson. Handverksfólk er einnig með sölubása í Sögumiðstöðinni þar sem heimagert handverk er til sölu.

Fjarnámsverkefni kynnt hjá RANNÍS

Í nóvember sl. hélt Rannsóknarmiðstöð Íslands (RANNÍS) kynningu á niðurstöðum verkefna í markáætlun um upplýsingatækni og umhverfismál, undir yfirskriftinni:   Markáætlun um upplýsingatækni og umhverfismál 1999 – 2004 - Uppgjör - Málþing og kynning á niðurstöðum verkefna og veggspjaldasýning Hótel Loftleiðum 11. nóvember 2004  

Landaður afli í Grundarfjarðarhöfn í nóvember

Góður mánuður   Í töflunni hér að neðan má sjá yfirlit yfir landaðan afla eftir tegundum í Grundarfjarðarhöfn í nóvember. Taflan sýnir samanburð á milli áranna 2003 og 2004. Heildarafli í nóvember á þessu ári er 1.511.694 kg en var 1.265.314 kg í sama mánuði í fyrra.   Tegundir 2003 2004 Þorskur 263.567 316.764 kg Ýsa 237.005 336.226 kg Karfi 92.381 82.680 kg Steinbítur 9.759 26.248 kg Ufsi 24.930 51.829 kg Beitukóngur 65.650 38.065 kg Rækja 97.664 kg Langa  3.241 2.548 kg Keila 4.688 2.408 kg Gámafiskur 534.057 515.827 kg Aðrar tegundir  30.036 41.435 kg Samtals 1.265.314 1.511.694 kg 

50. fundur bæjarstjórnar Grundarfjarðar haldinn í gær

50. fundur bæjarstjórnar Grundarfjarðar var haldinn í Samkomuhúsi Grundarfjarðar í gær. Á dagskrá var m.a. ákvarðanir um gjaldskrár/álagninu vegna fjárhagsáætlunar 2005. Í ljósi minnkandi skatttekna á undanförnum misserum sér bæjarstjórn sig knúna til að hækka skattprósentu fasteignagjalda, vatnsskatts, holræsagjalda og lóðarleigu. Samþykkt var samhljóða að vísa fjárhagsáætlun 2005 til síðari umræðu.  

Páll Óskar Hjálmtýsson og Monika Abendroth með tónleika í Ólafsvíkurkirkju

Í kvöld, fimmtudagskvöld 2. desember, verða tónleikar í Ólafsvíkurkirkju þar sem Páll Óskar Hjálmtýsson, söngvari, og Monika Abendroth, hörpuleikari, koma fram ásamt strengjakvartett.

Bæjarstjórnarfundur

50. fundur bæjarstjórnar verður haldinn í samkomuhúsinu fimmtudaginn 2. desember kl. 17:30. Á dagskrá eru fundargerðir bæjarráðs, fyrri umræða um fjárhagsáætlun bæjarsjóðs og stofnana ásamt forsendum áætlunar, ákvörðun um nýtingu tekjustofna, breyting á samþykkt um kattahald, umsögn umtillögu sameiningarnefndar félagsmálaráðherra og ýmis gögn til kynningar.   Bæjarstjóri

Kynningarfundur SSV

Kynningarfundur um þá vinnu sem SSV (Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi) hafa unnið á síðastliðnu ári verður í Sögumiðstöðinni í dag, miðvikudaginn 1. desember, kl. 17:00. Meðal efnis verður kynning á rannsókn um áhrif Hvalfjarðarganga, skýrsla um sameiningarmál á Vesturlandi og skýrsla um almenningssamgöngur. Fundurinn er öllum opinn.  

Heimsókn fulltrúa frá KSÍ

Fulltrúar KSÍ, þeir Eyjólfur Sverrisson, fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu, Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri KSÍ og Jakob Skúlason, landshlutafulltrúi KSÍ, afhentu formlega þá gjöf sem fólst í lagninu gervigrassins á sparkvöllinn sem lagður hefur verið á lóð Grunnskóla Grundarfjarðar.