Bókasafnið - Stærsta setustofan í bænum.

Frítt á bókasafnið Ákveðið var á fundi bæjarstjórnar í janúar að hætta að innheimta árgjöld. Ástæðan er sú að ekki þykir svara kostnaði að fylgjast með hverjir borga. Eftir sem áður verða rukkaðar sektir fyrir vanskil efnis og gjöld fyrir ljósritun, myndbönd og fleira.  

KB banki Grundarfirði færir grunnskólanum gjöf

Grunnskóla Grundarfjarðar barst gjöf frá KB banka í Grundarfirði í dag. Olga Einarsdóttir afhenti skólanum 10 taflsett og  klukkur fyrir hönd bankans og er þetta kærkomin gjöf fyrir skákáhugamenn skólans. Hér að neðan fylgja myndir af nokkrum áhugasömum skákmönnum og búast má við að fleiri bætist í hóp þeirra sem taka skák í frímínútunum. Grunnskóli Grundarfjarðar færir KB banka bestu þakkir fyrir gjöfina.   Ingólfur Örn, Heimir Þór, Albert Þórir og Erling ánægðir með gjöfina frá KB banka. Á myndinni má einnig sjá Olgu Einarsd. og Önnu Bergsd. fylgjast með nemendum leika skák.  

Metafli í einum mánuði!

Hafsteinn hafnarvörður, Björg hafnarstjóri og Sigríður forseti bæjarstjórnar gæða sér á tertunni   Febrúarmánuður 2005 var sannarlega annasamur í Grundarfjarðarhöfn. Alls bárust 2.340 tonn að landi og er það mesta magn landaðs afla í einum mánuði, stærsti mánuður hingað til var júní 2001 en þá var landað 2.291 tonni á höfninni.   Heildarafli í febrúar á síðasta ári var 1.828 tonn og árið 2003 var landað 1.248 tonnum í sama mánuði.     Janúarmánuður sl. var ennfremur stærsti janúarmánuður hingað til, í aflamagni, og í janúar og febrúar hafa samtals borist 4.011 tonn að landi í höfninni. Það munu vera um 27% af heildarafla alls síðasta árs og 32% af heildarafla ársins 2003.   Af þessu tilefni mætti hafnarstjóri með dýrindis marengstertu (hnallþóru frá dömunum á 59!) niðrá hafnarvog í morgun – að sjálfsögðu með áletruninni 2340 tonn!