Haukaberg SH 20 komið til heimahafnar eftir breytingar

  Haukaberg SH 20 kom til heimahafnar í Grundarfirði í morgun eftir að hafa verið í breytingum og endurbótum í Póllandi. Fimm mánuðir eru síðan skipinu var siglt áleiðis til Póllands en breytingarnar á skipinu, sem hannaðar voru af Jóni Ásmundssyni á Akureyri, fólust m.a. í því að ný brú var sett á skipið og skuti þess var slegið út. Þá voru borðsalur og eldhús endurnýjað og skipt var um aðalvél.   Haukaberg SH 20 er í eigu Hjálmars ehf. og eru eigendum og áhöfn færðar innilegar hamingjuóskir með heimkomuna og breytingarnar.  

Sigurerni ekki sleppt í dag

Í morgun þegar menn voru í þann mund að fanga örninn Sigurörn í Húsdýragarðinum komu fyrirmæli frá yfirdýralækni um að sleppa fuglinum ekki, eins og til stóð að gera í dag. Að sögn yfirdýralæknis er beðið eftir niðurstöðum sýna sem tekin voru fyrr í vikunni. Ekki er ljóst hvort eða þá hvenær erninum verði sleppt. Í fréttatilkynningu segir að öllum spurningum um þetta mál skuli beint til landbúnaðarráðherra Guðna Ágústssonar, yfirdýralæknis Halldórs Runólfssonar eða forstjóra landbúnaðarstofnunar Jóns Gíslasonar.  

Kvikmyndaklúbburinn Kveldúlfur

Kveldúlfur í kvöld kl. 20.30 í Sögumiðstöðinni.

Orkuveita Reykjavíkur óskar eftir starfsfólki

Orkuveita Reykjavíkur auglýsir eftir starfsfólki. Iðnaðarmaður óskast til starfa í Stykkishólmi eða í Grundarfirði. Leitað er að duglegum, samviskusömum einstaklingi með færni í mannlegum samskiptum. Skilyrði er að viðkomandi búi í Stykkishólmi eða í Grundarfirði.  Nánari upplýsingar má finna á starfavef Morgunblaðsins.    

Heimildarmyndir um bæjarhátíðina Á góðri stund í Grundarfirði 2004-2006.

Félagar í UMFG ganga í hús fram að helgi og selja myndirnar. Myndirnar kosta aðeins 3.500 kr. og verður hægt að greiða með debet- og kreditkortum við dyrnar. Eftir helgina verða þær til sölu á bæjarskrifstofunni.   Tökum vel á móti sölufólkinu og kaupum þessar frábæru myndir!!   Grundarfjarðarbær og Örn Ingi. 

Haförninn Sigurörn fær frelsi á föstudag

Þar sem veðurspá er hagstæð seinni hluta vikunnar í Grundarfirði og nágrenni þá er líklegt að haförninn Sigurörn sem dvalið hefur í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum frá því í lok júní öðlist frelsi á ný næstkomandi föstudag. Í frétt frá Fjölskyldu- og húsdýragarðinum kemur fram að fuglinn kom í garðinn í tengslum við verkefnið „Villt dýr í hremmingum” sem fyrirtækið Fálkinn er bakhjarl að.    

Svar við spurningu vikunnar.

Rétt svar við spurningu vikunnar er, að fyrsta hraðfrystihúsið í Grundarfirði  hóf vinnslu ,árið 1942. 103 manns svöruðu að þessu sinni og voru 66 eða 64,1% með rétt svar.

Silfurmót ÍR

Keppendur HSH á mótinu   Silfurmót ÍR í frjálsum íþróttum fyrir 16 ára og yngri var haldið laugardaginn 26 nóv.  Þetta mót var áður stórmót ÍR en þar sem 50 ár eru liðin frá því að Vilhjálmur Einarsson vann til silfurverðlauna á ólympíuleikunum í Ástralíu var nafninu breytt til heiðurs honum.    

Allir með rétt skráð lögheimili fyrir 1. desember n.k.

Athygli er vakin á því að fáir dagar eru eftir fram að 1. desember n.k. sem er viðmiðunardagur fyrir nýja íbúaskrá.   Nauðsynlegt er að allir sem hafa flutt sig á milli staða eða húsa verði búnir að skrá nýtt lögheimili fyrir 1. desember n.k. svo þeir verði á réttum stað þegar nýja íbúaskráin verður gefin út.  Lögheimilisflutning er hægt að skrá á bæjarskrifstofunni alla virka daga.  Þeir sem vita t.d. um útlendinga sem eiga eftir að skrá lögheimili sitt ennþá, mættu gjarnan leiðbeina þeim um hvernig á að bera sig að.  Markmiðið er að allir verði skráðir á réttum stað þ. 1. desember n.k. 

Bíó í dag kl. 3 í samkomuhúsinu

Í dag, sunnudag, kl. 3 verður seinni sýning á heimildarmyndinni um bæjarhátíðina Á góðri stund 2006.