UT 2006 í Fjölbrautaskóla Snæfellinga

UT-2006, ráðstefna um upplýsingatækni í skólastarfi, hófst í morgun kl. 11:00 í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Um 300 þátttakendur voru skráðir á ráðstefnuna, en með starfsmönnum ráðstefnunnar og FSN og sýnendum er áætlað að um 400 manns séu í húsinu. Nokkur fyrirtæki eru með kynningarbása í anddyri skólans og á bókasafni þar sem þau kynna vörur sínar. Brynhildur Ólafsdóttir fréttamaður og Sölvi Sveinsson skólastjóri Verzlunarskóla Íslands stýra umræðum á ráðstefnunni.   Brynhildur Ólafsdóttir stýrði umræðum.

Styrkir úr menningarsjóði

Menningarráð Vesturlands hefur auglýst styrki til úthlutunar úr menningarsjóði. Fulltrúi menningarráðs verður með viðtalstíma á bæjarskrifstofu Grundarfjarðar þriðjudaginn 14. mars kl. 17:00-19:00. Umsóknareyðublöð og úthlutunarreglur má nálgast á vef SSV en einnig er hægt að nálgast gögnin útprentuð á bæjarskrifstofunni. 

UT ráðstefna í Grundarfirði

Menntamálaráðuneytið stendur fyrir UT2006 - ráðstefnu um þróun í skólastarfi, föstudaginn 3. mars 2006. Ráðstefnan er haldin í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Á UT2006 er áhersla lögð á sveigjanlega kennsluhætti. Ráðstefnugestir verða virkir þátttakendur í dagskránni og formlegir fyrirlestrar verða í lágmarki.  

Komdu á félagsmálanámskeið!

Búnaðarsamtök Vesturlands og Héraðssamband Snæfellsness- og Hnappadalssýslu standa sameiginlega að félagsmálanámskeiði sem verður að Lýsuhóli 7. og 8. mars klukkan 20. Skráning er á skrifstofu HSH hsh@hsh.is eða síma 436 1635 fyrir 6. mars. Sjá nánar hér. 

Green Globe 21 verður Green Globe

Green Globe samtökin halda áfram að vera í þróun eins og öll önnur fyrirtæki/samtök. Þau hafa nú gert endurbætur og breytingar bæði á viðmiðum og stöðlum til úttektar. Eins hafa þau breytt nafni samtakanna sem heita nú bara GREEN GLOBE. Talan 21 er fallin aftan af. Ný vefslóð samtakanna er www.greenglobe.org. Nýtt lógó hefur verið hannað til að fylgja þessum breytingum og verður það væntanlega það sem sveitarfélögin á Snæfellsnesi fá bæði eftir að viðmiðum (Benchmarking) verður mætt næst og eins eftir vottunina.  

Latibær færði Grundfirðingum hamingjuóskir

Yngri kynslóðin í Grundarfirði tók þátt í Orkuátaki Latabæjar sem stóð yfir í febrúar 2006 og náðu Grundfirðingar flestum stigum þeirra sveitarfélaga sem tóku þátt. Alls fengu Grundfirðingar 123.142 stig. Latibær færði Grundfirðingum sérstakar hamingjuóskir í auglýsingu í Mbl. í dag, 1. mars. Íþróttaálfurinn og Solla stirða hafa svo sannarlega mikil áhrif á börnin og eru góðar fyrirmyndir. Solla stirða var vinsæl á Öskudegi í Leikskólanum Sólvöllum.   Elísabet Páley, Björg, Sunna, Karen Lind, Alma Jenný og Viktoría Ása voru allar Solla stirða í tilefni Öskudagsins