Fundur um samgöngu - og fjarskiptamál

Samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, boðar til fundar um samgöngu - og fjarskiptamál, þriðjudaginn 20. febrúar kl. 20.00 á Krákunni í Grundarfirði. Að lokinni ræðu samgönguráðherra verða fyrirspurnir og umræður. 

Þemadagar í Tónlistarskólanum

  Þemadagar voru í tónlistarskólanum sl. miðvikudag og fimmtudag. Þemað að þessu sinni var afrísk tónlist og unnið var sérstaklega með tvö þjóðlög. Fyrri daginn var unnið í hópum þar sem hvert hljóðfæri var tekið sérstaklega fyrir, en seinni daginn var svo „Risa-samspil“ þar sem allir nemendur æfðu og fluttu lögin saman á hin ýmsu hljóðfæri.   Hér má sjá myndir frá þemadögunum  

Unglingadeildinni Pjakkur - fjáröflun

Unglingadeild björgunarsveitarinnar mun ganga í hús í kvöld og selja klósettpappír og eldhúsrúllur til fjáröflunar fyrir starfsemi deildarinnar.  Tökum vel á móti unglingunum og styrkjum gott málefni og öflugt starf unglingadeildarinnar.     

Rýnihópur að störfum við hugmyndavinnu fyrir nýja íþróttamiðstöð

  Síðastliðinn mánudag kom saman „rýnihópur“ vegna væntanlegrar byggingar íþróttarmiðstöðvar í Grundarfirði.  Í rýnihópnum eru rúmlega 20 íbúar í Grundarfirði.  Tilgangur með vinnu rýnihópsins er að taka saman og samræma hugmyndir um, húsnæði, aðstöðu og búnað í nýrri íþróttarmiðstöð.  Hópurinn samanstendur af fulltrúum frá bæjarstjórn, almennum íbúum, skólunum og félögum í Grundarfirði.  Gætt var að því að fjölbreytni væri mikil í hópnum til þess að skoðanir sem flestra hópa í sveitarfélaginu ættu sér málsvara í honum.  Til aðstoðar hópnum voru fengnir arkitektar með mikla reynslu af hönnun íþróttamiðstöðva og ráðgjafaverkfræðingur sem sérhæfður er á þessu sviði.  Hópvinnunni stjórnaði Hrönn Pétursdóttir sem er mörgum að góðu kunn í Grundarfirði eftir að hún var verkefnisstjóri við undirbúning að stofnun Fjölbrautaskóla Snæfellinga.  Farið verður yfir hugmyndir rýnihópsins sem fram komu á fundinum síðastliðinn mánudag og upp úr þeim verður síðan til „forsögn“ eða „lýsing“ á fyrirhuguðu mannvirki.   Hér má sjá myndir frá fundinum      

Búferlaflutningar 2006

Hagstofa Íslands hefur nú sent frá sér nýtt Hagtíðindahefti í ritröðinni Mannfjöldi um Búferlaflutninga 1986-2006. Þar kemur fram að undanfarin tvö ár hafa einkennst af umfangsmeiri flutningum til landsins en önnur ár. Tíðni aðfluttra umfram brottflutta í millalandaflutningum var 17,3 samanborið við 13,0 ári áður. Í öllum landshlutum voru aðfluttir fleiri en brottfluttir í millilandaflutningum. Þar munar mestu um Austurland en í kjölfar virkjana og stóriðjuframkvæmda þar hafa flutningar til Austurlands frá útlöndum aukist hröðum skrefum undanfarin ár. Athygli verkur að erlendum körlum hefur fjölgað mjög ört í flutningum til landsins. Til ársins 2003 voru konur alla jafna fleiri en karlar í flutningum en nú er þessu öfugt farið. Mest áberandi er þetta á Austurlandi en þangað fluttu nær tíu sinnum fleiri karlar en konur frá útlöndum.

Landaður afli í Grundarfjarðarhöfn í janúar

    Janúar 2007 í samanburði við janúar árin 2005 og 2006 Hér fyrir neðan er aflinn sundurliðaður eftir tegundum. Tegundir 2007   2006   2005   Þorskur 358.746    kg 413.697 Kg 436.460 Kg Ýsa 201.282    kg 147.907 Kg 288.504 Kg Karfi 39.034    kg 41.347 Kg 34.598 Kg Steinbítur 79.274    kg 245.167 Kg 167.126 Kg Ufsi 12.873    kg 21.318 Kg 31.523 Kg Beitukóngur 765    kg 5.525 Kg 29.875 Kg Rækja 0    kg 0 Kg 0 Kg Langa  12.835    kg 1.427 Kg 2.061 Kg Keila 5.892    kg 3.756 Kg 727 Kg Gámafiskur 696.436    kg 632.750 Kg 650.668 Kg Aðrar tegundir  56.684    kg 60.770 Kg 29.696 Kg Samtals 1.463.821    Kg 1.573.664    Kg 1.671.238    KgÞað sem stendur á bak við gámafisk er  að stærstum hluta ýsa,  steinbítur og þorskur.  HG.

Þorrablót leikskólans

  Þorrablót í Leikskólanum Sólvöllum var haldið miðvikudaginn 7. febrúar sl.  Í byrjun var skemmtun í samkomuhúsinu þar sem nemendur skemmtu gestum með leik og söng.  Nemendur hafa verið að kynna sér muni frá fyrri hluta síðustu aldar og voru búin að raða þeim upp til þess að sýna þorrablótsgestum. Nefndu þau þáttinn innlit í liðinn tíma.  Eftir skemmtunina í samkomuhúsinu var öllum boðið upp á þorramat í leikskólanum.  Fjöldi foreldra mætti og tók þátt í Þorrablótinu með börnunum.   Hér má sjá myndir af Þorrablótinu    

Spurning vikunnar

Það voru flestir sem vissu hvaða fjall væri kallað "Sukkertoppen", en rétt svar er Kirkjufell. 182 svöruðu spurningunni og voru 156 eða 85,7% með rétt svar.

Borað á Berserkseyri

                          Nú líður brátt að því að boranir eftir heitu vatni hefjist á Berserkseyri við Grundarfjörð. Verið er að leggja síðustu hönd á undirbúning með því að ljúka við planið sem borinn mun standa á auk þess sem flutningar á bornum og búnaði tengdum honum eru hafnir. Gangi allt að óskum hefst sjálf borunin í næstu viku og mun standa í um fjórar vikur. Það eru Jarðboranir sem sjá um borunina og nota til hennar borinn Sleipni. Óðinn, sem þótti æðstur ása, átti hest með þessu nafni sem hafði átta fætur, var því afar fótfrár og gat flogið að auki. Þessi er nokkuð þungstígari því hann ferðast landleiðina á flutningabílum. 

Álagningu fasteignagjaldanna lokið

Þessa daga eru að berast með póstinum álagningarseðlar fasteignagjaldanna fyrir árið 2007.  Eins og kunnugt er, voru fasteignir í þéttbýli Grundarfjarðar endurmetnar á síðasta ári.  Heildarbreyting á fasteignamatinu varð allnokkur til hækkunar.  Við þessu var brugðist í bæjarstjórninni og álagningarprósentur fasteignaskattsins voru lækkaðar.  Mest var álagningarprósentan lækkuð á íbúðarhúsnæði eða úr 0,45% í 0,34%.  Lóðarleiga var sömuleiðis lækkuð úr 1,5% í 0,8% á íbúðarhúsnæði.  Álagningarprósentur fasteignaskatts og lóðarleigu á atvinnuhúsnæði voru einnig lækkaðar.  Vatnsgjald er lagt á fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og samanstendur af "föstu gjaldi" sem lagt er á alla matshluta íbúðarhúsnæðis (ekki bílskúra) og breytilegu gjaldi sem miðast við fermetrafjölda eigna.