Nýjung í stuðningi við dagforeldra

Bæjarstjórn Grundarfjarðar hefur samþykkt reglur um greiðslur til dagforeldra vegna dagvistarrýma sem ekki tekst að fylla í tímabundið.  Reglur þessar eru settar til reynslu í eitt ár og verða teknar til skoðunar að þeim tíma liðnum í ljósi fenginnar reynslu.  Bæjarstjórnin vonar að með þessari nýjung skapist aukið atvinnuöryggi fyrir starfandi dagforeldra og að þær stuðli að því að framboð dagvistarrýma aukist til hagsbóta fyrir foreldra barna undir leikskólaaldri.   

Leiksýning í samkomuhúsi á laugardaginn kl. 17:00

Franskur leikhópurinn Turak verður með leiksýningu á laugardaginn kl. 17:00 í samkomuhúsi Grundarfjarðar. Leiksýningin er samblanda af brúðuleikhúsi og venjulegu leikhúsi. Aðgangur er ókeypis

Nú teljum við niður!

Leitum að týndum bókum.12. apríl 2007 hafa fundist 13 bækur af 116 síðan í lok febrúar. Í tiltekt í lánþegaskrá voru 54 týndar bækur til viðbótar. Nú þurfum við því að finna 159 bækur. Verum vakandi fyrir sameign okkar.Fordyri Smiðjunnar er oft opið og þar er kassi sem má skila bókum í. Og munið að þegar tilkynnt er um bók sem ekki finnst hætta sektir að hlaðast upp. 

Stofnun landgræðslufélags

  Boðað til stofnfundar landgræðslufélags í Eyrarsveit 18. apríl 2007 Fyrir ári síðan var fólki með tengingu við sveitina í kringum byggðarkjarnann Grundarfjörð hóað saman í húsnæði verkalýðsfélagsins Stjörnunnar. Frumkvæðið að þessum fundi átti Gunnar Njálsson, formaður Skógræktarfélags Eyrarsveitar. Á fundinn mættu margir landeigendur og aðrir áhugamenn en að auki fulltrúar frá Landgræðslu ríkisins þau Þórunn Pétursdóttir og Garðar Þorfinnsson. Kynntu þau hvað væri að gerast í landgræðslumálum og fjölluðu einnig um mögulega stofnun landgræðslufélags í Eyrarsveit. Kom þar fram að ef landeigendur og aðrir þeir sem hafa umráð yfir landssvæði í Eyrarsveit hyggðust fara út í uppgræðslu væri mun meiri möguleikar á að ná árangri og að sækja fjármagn til verkefnisins, ef um væri að ræða formlegt félag.   Síðan þá hafa nokkrir þeirra sem fundinn sátu unnið frekar að framgangi málsins með það í huga að stofnað verði slíkt landgræðslufélag og beina sjónum að Framsveit og nágrenni. Til stofnfundar er boðað á degi umhverfisins þann 25. apríl n.k. kl. 20.30 í Samkomuhúsinu Grundarfirði. Samkvæmt drögum að samþykktum fyrir félagið geta allir þeir sem eiga land í Framsveit og nágrenni gerst félagar með fullgilda aðild en jafnframt geta þeir aðrir sem áhuga hafa fyrir uppræðslu og skógræktarstörfum á svæðinu gerst félagar með málfrelsi og tillögurétti.   Samkvæmt drögum að samþykktum fyrir félagið er “tilgangur þess að bæta landkosti og endurheimta fyrri landgæði í úthaga í Framsveit og nágrenni þar sem félagsmenn telja þess þörf, m.a. með eftirfarandi hætti eins og kemur fram í 3. grein:a) Að koma á samfelldri gróðurþekju þar sem æskilegt er talið og gróðurskilyrði og aðstæður gera það mögulegt.b) Að vernda og hirða um skógarleifar.c) Að auka skjól með trjágróðri og bæta þannig aðstæður til búskapar, útivistar og annarrar mannvista. Á stofnfundinn mætir Þórunn Pétursdóttir ásamt fleirum frá Landgræðslu Ríkisins og verða með kynningu á landgræðslustarfi.   (fréttatilkynning)  Tekið af vefnum www.skessuhorn.is

2. – 22. maí 2007

Fræðslu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Ísland á iði, stendur fyrir ,,Hjólað í vinnuna”, heilbrigðri fyrirtækjakeppni um allt land dagana 2. - 22. maí.   Meginmarkmið ,,Hjólað í vinnuna” er að vekja athygli á hjólreiðum sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta.   Allir þeir sem nýta eigin orku til að ferðast til og frá vinnu eru gjaldgengir þátttakendurþ.e. hjóla, skokka, ganga, nota línuskauta o.s.frv. Þeir sem taka strætó geta einnig tekið þátt en þá er skráð sú vegalengd sem gengin er til og frá stoppistöð.   Keppnisgreinarnar eru 2: 1) Flestir þátttökudagar (hlutfallslega m.v. fjölda starfsmanna í fyrirtækinu).2)   Flestir km (hlutfallslega m.v. fjölda starfsmanna í fyrirtækinu). Glæsilegir verðlaunaskildir er veittir fyrir efstu þrjú sætin í hverjum fyrirtækjaflokki.

Tónleikar Karlakórsins Gamlir Fóstbræður

Halda sína árlegu vortónleika á Snæfellsnesi að þessu sinni. Undir stjórn Jónasar Ingimundarsonar píanóleikara og aðalstjóranda kórsins til margra ára. Tónleikarnir verða  laugardaginn 21. apríl 2007  í Stykkishólmskirkju kl. 14.00 og í Grundarfjarðarkirkja kl. 17.00 Gestasöngvari er að þessu sinni hinn stórgóði óperusöngvari Ólafur Kjartan Sigurðarson baríton. Efniskrá kórsins verður fjölbreytt að venju. Íslenskar og erlendar söngperlur  Kórsöngur, samsöngur með einsöngvara og einsöngur Ólafs Kjartans með undirleik Jónasar Ingimundarsonar.   Tónleikar þessi eru í boði velunnara kórsins því er aðgangseyrir ókeypis. Kórfélagar vonast til þess að sem flestir sjái sér fært að mæta og nýta sér þetta einstaka tækifæri og til að njóta góðrar tónlistar.   Með kveðju frá Gömlum Fóstbræðrum  Rúnar Geirmundsson formaður.

Vorið á bókasafninu

Nú í lok skólaársins er gaman að geta þess að þjónusta við nemendur framhaldsskóla og háskóla hefur aldrei verið meiri. Yfir 40 heimsóknir nemenda fjölbrautaskóla eru skráðar á haustönn og 65 á vorönn. Háskólanemendur komu 10 sinnum á haustönn en 16 sinnum á vorönn. 88% notenda eru nemendur í FSN eða búsettir í Grundarfirði.   Í skápum Byggðasafnsins eru nú munir sem tengjast aflögðum siðum og kaffitímum og leikarablöð frá Byggðasafni Snæfellinga og Hnappdæla. Gestaþraut í afgreiðslu.   Bækur, myndbönd og tímarit um vorstörfin í garðinum og útivist og útiíþróttir. Höfum bætt við nýjum tímaritum í áskrift. Nýjar ljóðabækur.

Skógræktarkynning

                Skógræktarfélag Eyrarsveitar og Grundagfjarðarbær standa fyrir kynningu á skógræktaráformum í hlíðunum fyrir ofan byggðina hér í Grundarfirði. Markmið skógræktar ofan Grundarfjarðar er að byggðinni verði skýlt með fjölbreyttum, sjálfbærum skógi sem skapar aðlaðandi vettvang til útivistar og heilsubótar fyrir íbúa og gesti. Jón Geir Pétursson Skógfræðingur frá Skógræktarfélagi Íslands mun halda áhugaverðan fyrirlestur og vera með skjásýningu. Allir eru velkomnir á kynninguna sem verður Sumardaginn fyrsta í samkomuhúsinu þann 19. apríl kl 20:00.  

Málþing um málefni innflytjenda

Þann 17.apríl næstkomandi verður haldið málþing um málefni innflytjenda á Vesturlandi.   Málþingið verður haldið í félagsheimilinu Klifi, Ólafsvík og mun hefjast kl.12:30 með léttum veitingum og er áætlað að því ljúki kl.15:30.   Leitast verður við að svara spurningunni: Hvernig hafa sveitarfélög, atvinnurekendur og íbúar á Vesturlandi tekið á móti innflytjendum ?   Markmiðið með málþinginu er m.a. að varpa ljósi á eftirfarandi spurningar:           Höfum við tekið vel á móti innflytjendum hér á Vesturlandi?         Hvaða upplýsingar eru í boði fyrir innflytjendur?         Hvaða upplýsingar vantar?         Hver er stefna stjórnvalda varðandi innflytjendur?         Hver er upplifun innflytjenda þegar þeir flytja á Vesturland?         Hver eru kjara- og atvinnuréttindi innflytjenda?

Fyrsta skóflustungan vegna byggingar nýs frystihótels Snæfrosts ehf. var tekin í dag

  Fyrsta skóflustungan vegna byggingar nýs frystihótels Snæfrosts ehf. var tekin í hádeginu í dag 12. apríl.  Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, bæjarstjóri, tók fyrstu skóflustunguna með tilstyrk beltagröfu frá Nesbyggð ehf. sem er verktaki að grunni byggingarinnar.   Hér má sjá myndir af athöfninni.