Hótel Framnes opnað á ný.

  Miðvikudaginn 4. apríl sl. var efnt til móttöku og athafnar þegar Hótel Framnes var enduropnað af nýjum eigendum.  Gísli Ólafsson og Shelagh Jessie Smith keyptu hótelið af fyrri eigendum á síðastliðnu hausti.  Unnið hefur verið hörðum höndum að endurbótum og endurskipulagningu innréttinga í hótelinu.  Móttakan og veitingastofan hafa verið flutt á jarðhæðina en í staðinn fjölgar herbergjum á 2. hæðinni.  Öll herbergi hótelsins,  27 að tölu, eru með sér baði og sum bjóða upp á litla eldhúsaðstöðu fyrir fjölskyldufólk.   Eigendurnir lýstu fyrir boðsgestum breytingunum og endurbótunum sem þegar er að fullu lokið við og einnig þeim sem enn eru í smíðum.  Öllum sem komu að vinnu við endurbæturnar var þakkað fyrir fórnfús störf.  Aðstaðan í móttökunni og veitinga-aðstöðunni er vönduð og hlýleg.  Gestum var svo boðið upp á kræsingar sem gestakokkurinn Bjartmar Pálmason framreiddi með glæsibrag.

Aðalfundur Menningarráðs Vesturlands 2007

Fyrsti aðalfundur Menningarráðs Vesturlands verður haldinn í Félagsheimilinu Klifi, Ólafsvík, Snæfellsbæ 11. apríl 2007. Nálgast má dagskrá fundarins hér. Meðal annars verður samstarfssamningur Menningarráðs við tónlistarskólana á Vesturlandi, Upplýsinga og kynningarmiðstöð Vesturlands og Skessuhorn undirritaður. Ágúst Einarsson, rektor háskólans á Bifröst flytur ræðu og kynnir framhald samstarfs Bifrastar og Menningarráðs. Elísabet Haraldsdóttir  

Ágætu íbúar!

Við hirðingu sorps er að mörgu að hyggja jafnt hjá sorphirðuaðilum sem og húseigendum. Aðkoma og staðsetning sorpíláta skiptir miklu máli. Allar smá tafir á hverri tunnu eru drjúgar og til þess að þjónustan gangi hnökralaust má oft lítið út af bera. Víðast hvar er ástandið gott þó að það séu nokkrir staðir þar sem úrbóta er þörf. Það er von okkar sem sjá um sorphirðu hér í bæ að íbúar skoði eftirfarandi athugasemdir vandlega og ráði bót á. Geymsluhurð sé gömul og úr sér gengin. Geymsluhurð lokast illa.              i.            Læsingum sé ábótavant.              ii.           Geymsla of lítil eða of þröng fyrir ílát.              iii.           Hurð fellur illa að stöfnum. Vantar stoppara á hurð til að hindra foktjón. Vantar lýsingu. Ökutæki eða annað í innkeyrslu hindrar aðgengi. Festingar fyrir tunnur ónothæfar. Vantar brautir í tröppur fyrir ílát. Hreinsa þarf snjó frá ílátum og gera leið út á gangstétt. Staðsetja ílát götumegin. Eins metra lengri gangur við hverja tunnu verða 5 km á viku. Sorp ekki sett í poka og bundið fyrir. Ílát yfirfyllt. Járn, timbur og eða spilliefni í tunnu er þess valdandi að ekki er losað. Húsnúmer vantar eða það er ekki sýnilegt frá götu. Tunna gömul og úr sér gengin, hafið samband við áhaldahús við að fá nýja tunnu ef þörf er á.   Það er ósk okkar að skjótt verði brugðist við. Okkar metnaður er að veita góða þjónustu. En til þess að svo geti orðið þurfa íbúar að athuga það sem að þeim snýr.   Allar frekari upplýsingar er hægt að fá hjá áhaldahúsi í s: 4308575 eða hjá Íslenska gámafélaginu í s: 5775757  

Námskeið í skartgripagerð

EMM HANDVERK verður með námskeið í skartgripagerð laugardaginn 21. apríl í sal Verkalýðshússins. Námskeiðið tekur þrjá tíma og hefst kl. 11 f.h til kl. 14 ( möguleiki að hafa annað námskeið sama dag 15 - 18 fer eftir aðsókn) Kennt verður að gera: Talnaband, eyrnalokka og nælu með kristalsteinum.  

Hjólað í vinnuna

Fræðslu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Ísland á Iði, stendur fyrir "Hjólað í vinnuna", heilbrigðri fyrirtækjakeppni um allt land dagana 2. - 22. maí.   Meginmarkmið "Hjólað í vinnuna" er að vekja athygli á hjólreiðum sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta.   Nýr og hraðvirkari vefur verður opnaður fimmtudaginn 12. apríl. Um leið verður opnað fyrir skráningu.   Af vef ÍSÍ  

Svar við spurningu vikunnar

Spurning vikunnar að þessu sinni var kannski aðeins óljós. Átt var við lit kirkjunnar um páskadagana, en hann er hvítur. Dagarnir á undan páskadögunum, þ.e.a.s. fastan eru fjólubláir. Það voru 127 manns sem spreyttu sig á spurningunni en aðeins 2 voru með rétt svar. Flestir töldu að liturinn væri gulur.

Íbúafjöldi í Grundarfirði

Komnar eru nýjar tölur yfir mannfjölda í einstökum sveitarfélögum þann 1. apríl 2007.  Á þessum degi voru íbúar í Grundarfirði 937, þar af voru 455 karlar og 482 konur.   Hér má sjá nánari sundurgreiningu á íbúafjöldanum síðustu 10 ár, skipt eftir kyni og aldri.    

Sjávarútvegssýning í Brussel

Enn eru örfá sæti laus í flugi sem LÍÚ skipuleggur á sjávarútvegssýninguna í Brussel, en sýningin fer fram 24 -26 apríl n.k.  Flogið verður með flugvél frá Flugfélagi Íslands að morgni þriðjudags 24. apríl og er flogið beint frá Reykjavíkurflugvelli.  Áætlað er að lenda í Brussel fimm tímum síðar.   Gert er ráð fyrir að flogið verði til baka á fimmtudeginum 26 apríl.  Farþegar um borð verða 40 talsins.  Kostnaður á hvern farþega er um 85.000 kr.

Námskeið um mengun í jarðvegi og mótvægisaðgerðir

Mengun í íslenskum jarðvegi er mun meiri og algengari en ætla mætti og ljóst að mörg verkefni er varðar jarðvegsmengun bíða fagmanna í framtíðinni. Umfang er þó ekki að öllu leiti þekkt. Hreinsun er kostnaðarsöm, og felur í sér mörg stig, svo sem áhættugreiningu, hreinsunaraðgerðir, lokamat, vöktun auk mats og bóta fyrir skaða eða tjón sem mengunin veldur, beint eða óbeint. Vakin er athygli á því að væntanleg er sérstök Evróputilskipun um varnir gegn mengun í jarðvegi.  

Aðalfundur Krabbameinsfélags Snæfellsness

Aðalfundur Krabbameinsfélags Snæfellsness verður haldin í samkomuhúsi Grundarfjarðar fimmtudaginn 12. apríl kl:20:30