Stæltir slökkviliðsmenn

Herra Nóvember   Nokkrir vaskir drengir í Slökkvilið Grundarfjarðar hafa tekið sig til og gert dagatal fyrir árið 2010. Þetta skemmtilega framtak er hugsað til fjáröflunar fyrir slökkviliðið á þessum erfiðu tímum og verður ágóðanum varið til kaupa á björgunarklippum, námskeiða fyrir slökkviliðsmenn og annarra verkefna til eflingar sveitarinnar. Dagatalið er til sölu í Gallerí Kind og einnig munu fyrirsæturnar ganga í hús á næstu dögum. Dagatalið kostar 2.500 kr.

Vel tekið á móti á móti nýjum Grundfirðingum

Nýburahátíð var haldin í safnaðarheimili Grundarfjarðarkirkju s.l. þriðjudag. Þar mættu galvaskir þeir 13 Grundfirðingar sem fæddust á árinu, ásamt foreldrum sínum, og hlutu sængurgjafir. Nýburahátíðin er samvinnuverkefni Grundarfjarðarbæjar, heilsugæslunnar, leikskólans, Rauða krossins og Grundarfjarðarkirkju. Að vanda varð þetta hin ánægjulegasta samverustund fyrir unga og aldna.  Efri röð frá vinstri: Alexandra Björg Andradóttir, Ásgeir Veigar Sólbergsson, Heikir Darri Hermannsson, Díana Lóa Óskarsdóttir, Fanney María Jónsdóttir, Friðjón Ingi Davíðsson og Kolbrún Emma Óskarsdóttir. Neðri röð frá vinstri: Oliwia Wiszniewska, Reynir Már Jónsson, Agnes Ísabella Jónasdóttir, Sól Jónsdóttir, Katrín Ósk Aðalsteinsdóttir og Blíða Líf Víkingsdóttir.  

Grundfirðingar sigra í blaki

Á mánudagskvöldið tóku Grundfirðingar á móti Hamri frá Hveragerði í 2. deild karla í blaki. Leikurinn, sem fram fór í Grundarfirði, var mjög jafn og skemmtilegur. Með stuðningi áhorfenda og trommusveitarinnar náðu heimamenn að landa naumum sigri  3:2. Hrinurnar voru allar jafnar og spennandi eins og tölurnar bera með sér (25:22, 20:25, 25:22, 19:25  og 18:16). Þetta var annar sigur Grundfirðinga í 2. deildinni í vetur. Um 90 áhorfendur voru í íþróttahúsinu og var stuðningur þeirra mikilvægur í þessum mikla baráttuleik, sem var sá síðasti hjá Grundfirðingum á þessu ári í blakinu.   Af vef Skessuhorns 16.12.2009

Leikklúbbur byrjar með krafti

Nýendurvakinn Leikklúbbur Grundarfjarðar byrjar með krafti. Þó aðeins séu nokkrar vikur frá því að starfið hófst verður fyrsta leiksýningin haldin eftir tvo daga. Þá verður frumsýndur danski einþáttungurinn "Aðfangadagur á háaloftinu". Nánari upplýsingar um þetta frábæra framtak má finna í vikublaðinu. 

Áhersla á að standa vörð um grunnþjónustu

Á 113. fundi bæjarstjórnar s.l. föstudag, var fjárhagsáætlun Grundarfjarðarbæjar fyrir árið 2010 lögð fram. Áætlunin er lögð fram eftir ítarlega umfjöllun í bæjarráði og var mótuð sameiginlega af meirihluta og minnihluta bæjarstjórnar. 

Útskriftarhátíð FSN

  Útskriftarhátíð Fjölbrautaskóla Snæfellinga 18. desember 2009     Útskriftarhátíð Fjölbrautaskóla Snæfellinga verður haldin föstudaginn 18. desember 2009 í hátíðarsal skólans. Hátíðin hefst kl.15:00 og að henni lokinni verða kaffiveitingar í boði skólans.   Allir velunnarar skólans eru velkomnir.   Skólameistari

Keppt í Vestlenskri stuttmyndagerð

Kvikmyndahátíðin Northern Wave fer fram í Grundarfirði helgina 5.-7. mars. Að þessu sinni er sú nýbreytni að keppt verður í sérstökum flokki stuttmyndum Vestlendinga. Nú er um að gera að heimamenn bretti upp ermarnar og sýi hvernig á að gera kvikmyndir. Nánari upplýsingar finnast hér, en vert er að taka fram að skilafrestur er 1. febrúar.  

Góð aðsókn á markaðinn í Grundarfirði

Að Nesvegi 5 í Grundafirði (þar sem Hamrabúðin var) hefur allt frá komu skemmtiferðaskipanna í sumar verið opinn markaður af og til. Nú á jólaföstunni er þar opið daglega kl. 14-18 nema sunnudaga. Þetta er jólamarkaður handverkshópsins í Grundarfirði og fatamarkaður Rauðakrossdeildar Grundarfjarðar. Steinunn Hansdóttir forsvarsmaður markaðarins segir að aðsókn hafi verið mjög góð. Fjölbreytt vara sé í boði, þar á meðal nýr og nýlegur fatnaður, þannig að vart sér á. Þá er handverkið fallegt og vel unnið.   Af vef Skessuhorns 15.12.2009

Jóladagatal Grundarfjarðar

Nóg er um að vera í Grundarfirði nú þegar hátíðirnar nálgast. Vegna fjölda áskoranna var ákveðið að taka saman yfirlit um það sem er á döfinni. Hér má finna glæsilega dagskrá desembermánaðar. 

Slökkvilið Grundarfjarðar

Nokkrir strákar úr slökkviliði Grundarfjarðar eru búnir að búa til dagatal til eflingar sveitarinnar. Þeir ganga í hús fram að jólum og svo má nálgast dagatalið í gallerí Kind Grundargötu 47 Dagatalið kostar 2.500 kr.