HM í fótbolta í samkomuhúsinu.

Allir leikir HM mótsins verða sýndir í samkomuhúsinu á stórum skjá og eru allir velkomnir. Húsið opnar hálftíma fyrir leik.  Hægt er að kaupa sér hressingu á staðnum. 

Sjálfboðaliðar óskast fyrir gott málefni

Dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól óskar eftir duglegu fólki til þess að aðstoða við ýmis tilfallandi verkefni fyrir heimilið.  Verkefnin eru bæði innandyra og utandyra, s.s. málningarvinna, garðvinna o.s.frv.Vinnan er ólaunuð, en við getum lofað ykkur góðum kaffisopa.  Þeir sem vilja leggja góðu málefni lið eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við starfsfólk Fellaskjóls í síma 4386677   

Kvenfélagið Gleym mér ei

  Kvenfélagið Gleym mér ei hefur haft það að markmiði sínu að styðja og styrkja samfélagið í Grundarfirði með ýmsum hætti. Kvenfélagið, eins og aðrir bæjarbúar, nota samkomuhús bæjarins við hin ýmsu tækifæri og hefur þótt leitt að ekki skuli hafa verið fánastöng við húsið.  Úr því var bætt og afhenti fulltrúi kvenfélagsins, Sólrún Guðjónsdóttir Sigríði Finsen forseta bæjarstjórnar 7 metra fánastöng og íslenskan fána í sjómannadagskaffinu sunnudaginn 6. júní sl.     

Tilkynning til raforkunotenda í Grundarfirði

Raforkunotendur Grundarfirði, búast má við truflunum á raforkuafhendingu í nótt aðfaranótt föstudagsins 11 júní, vegna vinnu við flutningslínuna Vatnshamrar – Vegamót og vinnu í aðveitustöðinni Vegamótum. Díselvélar verða keyrðar í Ólafsvík, Grundarfirði og Stykkishólmi og reynt verður að halda rafmagni á norðanverðu Snæfellsnesi. Sjá nánar á www.rarik.is Bilanasími Rarik Vesturlandi er 528-9390

Leikhópurinn Lotta sýnir Hans klaufa í Þríhyrningi

Laugardaginn 12. júní sýnir Leikhópurinn Lotta nýjasta verk sitt, Hans klaufa í Þríhyrningnum í Grundarfirði. Verkið skirfaði Ljóti hálfvitinn Snæbjörn Ragnarsson en auk Hans klaufa koma við sögu aðrar þekktar persónur úr ævintýraheiminum. Þar má til dæmis nefna Öskubusku og froskaprinsinn.

Auglýsing vegna kattahalds í Grundarfjarðarbæ.

Kattahald er bannað í þéttbýli Grundarfjarðarbæjar nema með sérstöku leyfi bæjarstjórnar. Allir kettir skulu skráðir samkvæmt samþykkt um kattahald í Grundarfirði frá 25. apríl 2006. Hámarksfjöldi katta eru tveir á heimili. Þar sem mikil fjölgun katta er í Grundarfirði, ónæði mikið með tilheyrandi óþrifum sem af slíku verður og fáir kettir skráðir mun verða farið í aðgerðir gegn lausagöngu katta í bænum. Á næstu vikum munu allir lausir kettir sem ekki eru merktir og skráðir handsamaðir og þeim eytt. Ef íbúar hafa áhuga á því að vera með kött, þá þurfa þeir hið fyrsta að sækja um leyfi fyrir þeim og greiða af þeim tilskilin gjöld sem bæjarstjórn ákveður, samkvæmt 25. gr. laga nr. 7 / 1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Umsóknum skal komið til skrifstofu Grundarfjarðarbæjar sem sér um skráningu og eftirlit. Þeir íbúar sem halda ketti eru hvattir til að lesa og kynna sér vel samþykkt bæjarins um kattahald.   Hjörtur Hans Kolsöe Skipulags - og byggingarfulltrúi.    

Hetjur hafsins heiðraðar

  Í tilefni af Sjómannadeginum 2010 í Grundarfirði voru Rögnvaldur Guðlaugsson og hjónin Jón Eiður Snorrason og Selma Friðfinnsdóttir heiðruð.   Þeim eru færðar innilegar hamingjuóskir.

Matjurtagarðar.

Grundfirðingum stendur nú til boða að nýta sér matjurtagarða við veginn að Kvíabryggju. Garðarnir eru tilbúnir. Þeir sem hafa áhuga fyrir því að fá garð til matjurtaræktar er bent á að skrá sig á bæjarskrifstofunni eða í síma 430 - 8500. Grundarfjarðarbær. 

Illgresi á lóðarmörkum.

Nú er gróður farin vel af stað og þar með talið illgresið sem vex á ólíklegustu stöðum. Þar sem vinnuskólinn kemst ekki yfir að hreinsa illgresi í öllum götum bæjarins þá eru það  vinsamleg tilmæli til bæjarbúa að þeir hreinsi illgresi milli gangstéttar og lóðar hjá sér  því þannig vinna margar hendur létt verk. Hjálpumst að við að halda bænum okkar hreinum og fínum.   Með kveðju Vinnuskólinn  

Fitness æfinganámskeið

Í júní fer af stað 4 vikna fitness æfinganámskeið fyrir krakka og unglinga á aldrinum 12 - 18. Tímarnir eru mjög krefjandi og skemmtilegir með fjölbreyttum æfingum úti fyrir og inni. Sem dæmi má nefna fitness tíma, stöðvaþjálfun, fitnes box, sundæfingar, krefjandi leiki, útihlaup og fleira. Fyrsti tíminn er þriðjudaginn 15. júní.