Safnað fyrir vatnsrennibraut

  Þessar duglegu Grundarfjarðarhnátur komu við á bæjarskrifstofunni í gær. Þær heita  Elva Björk og Svanhildur Ylfa. Tilefnið var að afhenda fé sem þær höfðu safnað með tombólu til kaupa á vatnsrennibraut í sundlaug bæjarins. Þær söfnuðu 4.796kr og bætist það í sjóðinn. Þessi sjóður var stofnaður árið 1997 og margir kraftmiklir krakkar gefið í hann í gegnum tíðina. Í dag eru rúmlega 102.000 kr. í sjóðnum. Við þökkum þeim fyrir gott framtak.

Vitinn afhentur í þriðja sinn

  Vitinn, menningarverðlaun Eyrbyggja, hollvinasamtaka Grundarfjarðar, verður afhentur í þriðja sinn í Grundarfirði laugardaginn 23. júlí. Afhendingin er liður í fjölskyldudagskrá hátíðarinnar á Góðri stund í Grundarfirði og fer fram á Hátíðarsvæði kl 14.  Það eru Hollvinasamtök Grundfirðinga, Eyrbyggjar, sem standa að Vitanum. Verðlaunin eru veitt einstaklingi sem hefur látið verulega til sín taka í þágu lista, menningar eða annarra framfara í byggðarlaginu og er það stjórn samtakanna sem tilnefnir og velur verðlaunahafa. 

Dúfnaveislan 2011

  Dúfnaveislan hófst á 16 skotvöllum víða um land föstudaginn 1. júlí og stendur til 31. ágúst. Dúfnaveislan er samstarfsverkefni Umhverfisstofnunar (UST), Skotveiðifélags Íslands (SKOTVÍS), ýmissa félaga sem reka skotvelli auk styrktaraðila. Tilgangur dúfnaveislunnar er að hvetja veiðimenn um land allt til að kynna sér þá aðstöðu sem skotvellirnir hafa uppá að bjóða og stunda reglulegar skotæfingar áður en veiðitímabilið hefst og undirbúa sig eins og best verður á kosið. 

Nýr skrifstofustjóri

Sigurlaug R. Sævarsdóttir hefur verið ráðin skrifstofustjóri á bæjarskrifstofu Grundarfjarðar. Sigurlaug er með M.A. gráðu í mannauðsstjórnun og M.Sc. gráðu í heilsuhagfræði frá Háskóla Íslands auk B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst.   Undanfarin ár hefur Sigurlaug verið framkvæmdastjóri Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Sigurlaug mun hefja störf í ágúst.

Skemmtiferðaskip

Myndirnar tók Sverrir Karlsson   Skemmtiferðaskipin eru farin að koma hvert á eftir öðru til Grundarfjarðar og lifnar þá heldur betur yfir bænum. Fyrir ferðamenn sem ekki fara í rútuferðir um Snæfellsnesið þá er sett upp leiksýning fyrir framan Sögumiðstöðina sem bæjarbúar sjá um.

Íslandsmeistarar í golfi 35 ára og eldri

Frá vinstri: Jón Björgvin, Anna María, Ágúst og Jón Kristbjörn   Um síðustu helgi var haldið íslandsmeistaramót í golfi 35 ára og eldri. Karlar kepptu á Kiðjabergi en konur í Öndverðarnesi. Frá Grundarfirði fóru níu golfarar og komu þau sigursæl heim þar sem Jón Kristbjörn Jónsson varð í öðru sæti í öðrum flokki, Ágúst Jónsson, ráðsmaður með meiru, vann fjórða flokkinn, Jón Björgvin Sigurðsson lenti í þriðja sæti í fjórða flokki og Anna María Reynisdóttir lenti í öðru sæti í þriðja flokki. Við óskum þeim öllum innilega til hamingju með frábæran árangur.

Dagsskrá hátíðarinnar "Á góðri stund"

Dagsskrá hátíðarinnar "Á góðri stund" er tilbúin og má sjá hana á heimasíðu hátíðarinnar. Slóðin er: agodristund.grundarfjordur.is  Hér má fara beint á heimasíðuna.

Köttur í óskilum.

Það er ein köttur í óskilum hjá Áhaldahúsinu. Nánari lýsingu má finna í "Gæludýr í óskilum" hér hægra megin á síðunni.