- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Nýliðið ár var gott ár hjá Grundarfjarðarhöfn. Þetta var merkisár í framkvæmdum og uppbyggingu og stærsta ár hafnarinnar til þessa í móttöku skemmtiferðaskipa. Auk þess einkenndist árið af vinnu við hagsmunagæslu fyrir höfnina. Í þessum pistli fer Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri, ásamt Hafsteini Garðarssyni hafnarstjóra, yfir starfsemi og framkvæmdir hafnarinnar árið 2025.
Alls var landaður afli fiskiskipa 16.536 tonn hjá Grundarfjarðarhöfn árið 2025. Sé litið allmörg ár aftur í tímann telst það vera meðalár í lönduðum afla í höfninni okkar, en um 4,9% aukning frá árinu 2024. Stærstu löndunarmánuðirnir 2025 voru í maí þegar landað var tæpum 2400 tonnum og í ágúst þegar 2120 tonnum var landað. Sé gluggað í tölfræði hafnarinnar aftur til 1998, sem hafnarstjóri hefur samviskusamlega haldið til haga, má sjá að maímánuður 2025 er fjórði stærsti maímánuður í löndun frá 1998. Sé litið til allra löndunarmánaða síðustu tíu árin hafa alls tólf mánuðir verið stærri en stærsti löndunarmánuðurinn 2025. Þar af voru sex mánuðir árið 2022 hærri, enda var árið 2022 algjört metár í lönduðum afla frá upphafi, með yfir 27.100 tonnum.
Smellið á myndirnar til að stækka þær og lesa viðeigandi texta. Flestar myndir eru teknar af Tómasi Frey Kristjánssyni.
Skemmtiferðaskipasumarið 2025 var það stærsta til þessa, en alls fengum við 75 heimsóknir skemmtiferðaskipa. Fyrsta skipið kom 5. maí og það síðasta 28. október, en það er nýlunda að skip heimsæki okkur svo síðla árs. Um borð í þessum skipum voru yfir 70.000 farþegar og um 30.000 í áhöfnum.
Á höfninni eru á ársgrundvelli þrír starfsmenn í fullu starfi en yfir sumartímann bætast þrír starfsmenn við. Ásamt þeim eru svo öll þau fjölmörgu sem hafa atvinnu af því að taka á móti, sjá um og þjónusta gestina í landi, en gera má ráð fyrir að allt að 50 manns komi að því í heildina, bæði úr Grundarfirði, í nærliggjandi byggðarlögum og víðar.
Markaðsmál, upplýsingagjöf og miðlun eru orðin umsvifamikill þáttur í starfi hafnarinnar í tengslum við móttöku skemmtiferðaskipa. Í júnímánuði fékk höfnin liðsauka, þar sem nýráðinn forstöðumaður menningar- og markaðsmála, Pálmi Jóhannsson, kemur einnig að markaðsmálum fyrir höfnina og er hafnarstjóra til aðstoðar í þeim efnum.
Undanfarin ár hafa síðustu skemmtiferðaskipin verið að koma í september, en í ár varð breyting á því eins og fyrr segir. Á dimmum þriðjudagsmorgni 28. október sigldi skipið Vasco da Gama hingað til hafnar. Það var mikið sjónarspil að sjá upplýst skipið liggja við bryggju í rökkrinu, en bærinn var klæddur í fallega vetrarkápu þar sem snjóað hafði nokkrum dögum áður. Koma Vasco da Gama sýnir að það er mögulegt að teygja skemmtiferðaskipatímabilið í allt að hálft ár og mögulega lengur, a.m.k. ef veður og vindar eru hagstæðir.
Mikill tími fór á árinu í umsagnir og eftirfylgni gagnvart ríkinu um hagsmunamál hafnanna, einkum baráttu gegn stórhækkun og breytingu í innheimtu innviðagjalda, sem ákveðin var í árslok 2024 og tók gildi strax í upphafi árs 2025. Nær sú barátta reyndar einnig til áranna 2024 og 2023, sjá t.d. grein bæjarstjóra í nóvember 2024. Skattaumhverfi skemmtiferðaskipa var einnig til skoðunar, þar sem til stóð að afnema tollfrelsi skemmtiferðaskipa í hringsiglingum og breyta innheimtu virðisaukaskatts hjá slíkum skipum. Ljóst var að svo miklar hækkanir og breytingar á sama tíma myndu hafa mikil áhrif á stöðu Íslands sem viðkomustaðar, en meginmálið var að nær enginn fyrirvari var gefinn til aðlögunar að breytingunum. Slíkt er mjög óheppilegt á markaði sem selur ferðir 2-3 ár fram í tímann, enda mátti sjá augljósa fækkun eða jafnvel hrun í bókunartölum skipa fyrir árin 2026 og 2027, einkum hjá minni höfnum á landsbyggðinni.
Samtökin okkar, Cruise Iceland, ásamt einstaka höfnum, héldu vel til haga þeim hagsmunum sem í húfi eru, með því að draga skýrt fram og kynna tölulegar staðreyndir fyrir hafnir og samfélög. Fyrir utan beinar tekjur hafnarinnar af móttöku skemmtiferðaskipa eru gríðarlega mikilvæg störf og tekjur annarra sem tengjast skipakomunum, þ.e. okkar góðu þjónustufyrirtæki og ferðaþjónar, verslanir og fleiri, í Grundarfirði og á Snæfellsnesi öllu. Hafnarstjóri, bæjarstjóri og forstöðumaður markaðsmála, sem og fulltrúar í hafnarstjórn og bæjarstjórn, tóku virkan þátt í að vekja athygli á þessu. Við tókum þátt í samtölum við fulltrúa úr samtökum skipafélaga, smærri og stærri, fórum á fundi þingmanna og þingnefnda, í viðtöl við fjölmiðla og fleira. Sjá t.d. umsögn Grundarfjarðarbæjar og Grundarfjarðarhafnar til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, okt. 2025, ásamt minnisblaði 1. okt. 2025 um stöðu og hagsmuni, sjá einnig viðtal á Bylgjunni og viðtal á RÚV, svo eitthvað sé nefnt.
Hér verða þessi mál ekki rifjuð frekar upp, en sú ánægjulega niðurstaða náðist á Alþingi rétt fyrir jólin, að innviðagjald var lækkað úr 2500 kr. í 1600 kr. á sólahring fyrir hvern farþega skemmtiferðaskips og hætt var við áform um að afnema tollfrelsi skipa í hringsiglingum. Það kom strax í ljós að þetta hafði góð áhrif á „markaðinn“ og bókunartölur hafa aftur verið að hækka nú síðasta mánuðinn.
Eftir standa breytingar á virðisaukaskatti hjá skipum í hringsiglingum sem ekki er ljóst hvernig verða framkvæmdar.
Önnur hagsmunagæsla sem hefur umtalsverð áhrif á höfnina okkar, snýr að ástandi þjóðvega á okkar áhrifasvæði og samgönguáætlun, sem lengi hefur verið beðið eftir að Alþingi afgreiði. Bæjarstjórn fylgdi fast eftir óskum um aukið fjármagn í samgöngubætur á Snæfellsnes og um að ný samgönguáætlun myndi endurspegla þörf fyrir tímabært viðhald og endurbætur á okkar svæði. Hagsmunir íbúa og atvinnugreina, bæði sjávarútvegs og ferðaþjónustu, byggja á góðum og öruggum þjóðvegum að, frá og á okkar svæði. Sjá nánar fjölmargar bókanir bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar og sameiginlegar aðgerðir sveitarfélaga á Vesturlandi, m.a. ályktanir, áskoranir, fund með forsætisráðherra og innviðaráðherra. Í samgönguáætlun sem komin er fram, en er óafgreidd enn, er þó ánægjulegt að auknir fjármunir virðast ætlaðir í viðhald vega, m.a. á okkar svæði, og munum við fylgja því fast eftir.
Hafnarstjórn hélt 8 bókaða fundi á árinu 2025, auk þess sem fulltrúar hennar tóku þátt í fundum skipulagsnefndar, sem þeim var boðið til, tóku þátt í opnum fundum um skipulagsmál, sóttu hafnafund Hafnasambands Íslands sem haldinn var í Ólafsvík í október, o.fl. Hafnarstjóri situr í stjórn samtakanna Cruise Iceland og tekur virkan þátt í starfi þeirra. Höfnin bauð til samtals að vori, um komandi skemmtiferðaskipasumar.
Það leiddi af framangreindri hagsmunagæslu af hálfu hafnanna að við vorum í óvenju miklum samskiptum beint við áhrifafólk úr skipaheiminum. Eins má segja að samtal hafna og hagsmunaaðila hafi verið með mesta móti á árinu. Það er a.m.k. jákvæð hlið málsins. Við tókum á móti góðum gestum hér heima fyrir, m.a. í júní þegar við fengum við fulltrúa CLIA í heimsókn og kynntum þeim uppbyggingu hjá höfninni og í október fengu Snæfellingar heimsókn frá Cruise Iceland.
Í byrjun apríl var haldin í Miami, Florida, ein stærsta kaupstefna skemmtiferðaskipageirans, Seatrade Cruise Global. Undir merkjum Cruise Iceland tóku tólf íslenskir aðilar þátt, þar af fimm hafnir og fór bæjarstjóri út fyrir hönd Grundarfjarðarhafnar. Höfnin hefur í mörg ár sent fulltrúa á slíkar kaupstefnur í Evrópu, en þetta er í fyrsta sinn sem við tökum þátt á Miami.
Um miðjan september fóru Hafsteinn Garðarsson hafnarstjóri og Pálmi Jóhannsson forstöðumaður menningar- og markaðsmála síðan til Hamborgar í Þýskalandi á kaupstefnuna Seatrade Europe.
Í september gerðist höfnin aðili að Cruise Europe samtökunum, sem eykur sýnileika hafnarinnar sem áfangastaðar skemmtiferðaskipa og stækkar tengslanet hafnarinnar.
Í vel yfir 20 ár hefur höfnin tekið þátt í markaðssetningu fyrir skemmtiferðaskip, m.a. slíkum kaupstefnum, sem eru frábært tækifæri til að styrkja tengslanetið, eiga samskipti við núverandi viðskiptavini og kynnast nýjum. Heilt yfir má segja að skipafélögin séu mjög ánægð með Grundarfjarðarhöfn og Snæfellsnes í heild sem áfangastað. Í ár var þó rauði þráðurinn í samtölum við viðskiptavini, spurningar þeirra um fyrirvaralitla hækkun á innviðagjöldum og afnám tollfrelsis, sem augljóst var að fulltrúar í bransanum fylgdust vel með. Sjá nánar punkta bæjarstjóra hér.
Heildartekjur hafnarinnar námu rúmlega 255 millj. kr. á árinu 2025 og jukust um 39% frá árinu 2024. Beinar tekjur hafnarinnar af móttöku skemmtiferðaskipa voru tæpar 129 millj. kr. og jukust þær tekjur um 55% frá árinu 2024. Tekjur af skemmtiferðaskipum voru því 50,6% af heildartekjum hafnarinnar og er þetta fyrsta árið sem þær eru hærri en tekjur af fiskiskipum og öðrum löndunum. Rekstrargjöld hafnarinnar, án afskrifta, voru 129,7 millj. kr. á árinu 2025. Af þessu má því sjá að afkoman var góð á liðnu ári.
Fjárfest var fyrir um 130 millj. kr. á árinu. Þess má einnig geta að höfnin er skuldlaus.
Í maí 2025 var tekið í notkun nýtt þjónustuhús hafnarinnar, með viðbyggingu við hafnarhúsið við Nesveg 2. Sú uppbygging er einn liður í að bæta aðstöðu og þar með þjónustu hafnarinnar.
Byggingarframkvæmdir stóðu yfir frá febrúar til loka maí og gengu afar vel. Í hluta nýju viðbyggingarinnar, sem snýr að Nesvegi, er salernisaðstaða fyrir gesti, með góðu aðgengi fyrir alla. Í hinum hluta nýja hússins, sem snýr að höfn, er annars vegar aðstaða fyrir starfsfólk sem kemur að skipamóttöku, s.s. bílstjóra, leiðsögufólk, umboðsmenn o.fl. Hins vegar er þar viðbótarrými fyrir starfsmenn hafnarinnar, þar sem afar þröngt var orðið um þá.
Nýja þjónustuhúsið þjónar einnig hlutverki almenningssalerna, með gjaldhliði, sem opin eru allt árið. Þeirri þjónustu hafði frá árinu 2019 verið sinnt í samkomuhúsinu en færðist þaðan, með tilkomu nýja hússins.
Meðal annarra framkvæmda hafnarinnar á árinu voru malbikun á stórum hluta af plani við smábátahöfn, keypt var ný þjónustubifreið, lýsing á hafnarsvæði var endurbætt, keyptur nýr landgangur og stór fríholt (fenderar) fyrir skemmtiferðaskip, endurnýjuð var rafmagnstafla á Norðurgarði og fleira.
Áfram var haldið með deiliskipulagsvinnu fyrir hafnarsvæðið. Í byrjun október var kynnt skipulagslýsing og síðan um miðjan nóvember tillaga á vinnslustigi fyrir nýtt deiliskipulag sem nær yfir suðurhluta hafnarsvæðisins, miðsvæði, Miðgarð og Norðurgarð. Þarna er horft óvenju langt fram í tímann, því áformin fela í sér stækkun athafnasvæðis hafnarinnar með landfyllingu, nýrri vegtengingu hafnarsvæðis upp á þjóðveg 54, til að minnka þungaumferð í gegnum bæinn, nýjan 100 metra viðlegukant og vel afmarkaðar gönguleiðir og stíga, sem tryggja eiga bætt öryggi gangandi og aðstöðu fyrir ferðafólk og skemmtiferðaskip. Við slíkar framkvæmdir þá ræður mestu, að sjóvarnargarður utan um svæðið, sem er ysta brún nýs lands, verður einungis byggður einu sinni. Staðsetning hans þarf að vera klár og síðan má búast við það taki allnokkur ár að forma landið og vegsvæðið þar innan við. Einnig þarf að hafa í huga að skipulag og leyfisveitingar, m.a. til efnistöku úr sjó til slíkra framkvæmda, eru tímafrekar og betra að hafa fyrirhyggju hvað það varðar. Deiliskipulagið er enn í vinnslu og mun án efa taka nokkrum breytingum frá tillögunni sem kynnt var í vinnslu, í nóvember.
Helstu framkvæmdir hafnarinnar 2026 velta á því hvaða afdrif samgönguáætlun fær á komandi vorþingi. Með fyrirvara um það, þá er samkvæmt áætlunum hafnarinnar næst á dagskrá tilfærsla á garði, efst við Norðurgarð (svonefndur kriki), ný flotbryggja og stólpi fyrir hana, sem kæmi norðan við núverandi flotbryggju, og myndi þjóna gestum skemmtiferðaskipa og öðrum ferðalöngum á sjó. Þessu fylgir einnig frágangur á vegi og plani á landi í tengslum við þetta. Gert er ráð fyrir að ljúka viðgerð á yfirborði Norðurgarðs, einnig vinnu við undirbúning og hönnun á „bryggjuvegi“, þ.e. áframhald götu frá Bergþórugötu/Nesvegi, niðurfyrir og framhjá nýja netaverkstæðinu.
Við horfum bjartsýn á árið 2026 hvað varðar starfsemi hafnarinnar, með bættri aðstöðu og góðu samstarfi við viðskiptavini og aðra. Við eigum einstaklega góða og lipra þjónustuaðila sem sjá um að þjónusta fiskiskipin. Búið er að bóka yfir 80 komur skemmtiferðaskipa á árinu og þjónustuaðilar í þeim bransa eru sömuleiðis orðnir fjölmargir og með mikla reynslu. Grundarfjarðarhöfn er góð höfn heim að sækja.