Frétt á vef Skessuhorns 20. nóvember 2009:
Síðasta miðvikudag var skrifað undir í Vatnasafninu í Stykkishólmi nýjan samstarfssamning um kennsluverkefni milli þriggja sveitarfélaga og grunnskóla á Snæfellsnesi og tveggja í Vestur-Barðastandarsýslu. Þetta eru sveitarfélögin Stykkishólmur, Grundarfjörður, Snæfellsbær, Vesturbyggð og Tálknafjörður. Þau sameinast um verkefni sem kallast dreifmennt og njóta þar stuðnings menntamálaráðuneytis og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Að sögn Eyrúnar Sigþórsdóttur, oddvita Tálknafjarðarhrepps, hefur þetta verkefni verið við lýði milli nágrannasveitarfélaganna á Barðaströndinni síðustu árin og reynst vel. Nú er það fært yfir á Snæfellsnesið. Kennt er í gegnum fjarfundabúnað og tölvur til skólanna á svæðunum.