Bæjarstjórn krefst þess að Landsnet hf. og RARIK ohf. bæti þjónustu sína

Á fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar þ. 11. september sl. var rætt um vandræði sem höfðu verði þann dag vegna rafmagnsleysis í bænum og nærsveitum.  Straumrof með tilheyrandi tjóni fyrir framleiðslufyrirtæki og alla aðra starfsemi þykja vera of tíð og eigi sér ekki eðlilegar skýringar í ófyrirséðum bilunum.  Bæjarstjórnin setti fram eftirfarandi kröfur:   "Áskorun til iðnaðarráðherra, stjórnar Landsnets hf. og stjórnar RARIK ohf.: Bæjarstjórn Grundarfjarðar lýsir yfir þungum áhyggjum af afhendingaröryggi rafmagns í Grundarfirði í ljósi síendurtekins rafmagnsleysis. Bæjarstjórn krefst þess að RARIK ohf. og Landsnet hf. láti nú þegar gera úttekt á flutnings- og dreifikerfi rafmagns í Grundarfirði og geri viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja afhendingaröryggi rafmagns í bæjarfélaginu."  

Bæjarstjórn tekur undir kröfugerð Sambands íslenskra sveitarfélaga um lausn á fjárhagsvanda sveitarfélaga

Á fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar þ. 11. september sl. var kynnt áskorun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga á ríkisstjórnina um að lausn verði fundin á fjárhagsvanda sveitarfélaga.  Þess er m.a. krafist að 1.400 mkr. framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði viðhaldið áfram á næstu árum en það ætti að renna út um næstu áramót.  Einnig er þess krafist að lög um fjárhagslegan stuðning við fráveituframkvæmdir verði framlengd.  Þá er þess einnig krafist að varasjóði húsnæðismála verði tryggðir fjármunir til að sinna hlutverki sínu og að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði tryggðir fjármunir til þess að styðja við sameiningu sveitarfélaga.  Stjórnin hefur áhyggjur af því að mörg sveitarfélög séu að komast í afar erfiða stöðu og verði vart fær um að sinna

Rökkurdagar 2008

Rökkurdagar verða haldnir í Grundarfirði dagana 24. til 26. október. Yfirskriftin að þessu sinni er Skelfing í skammdeginu - uppákomur fyrir alla fjölskylduna. Dagskráin verður nánar auglýst síðar. Af tilefni rökkurdaga fer í gang smásögusamkeppni. Samdar skulu drauga- eða spennusögur að hámarki fimmhundruð orð og er skilafrestur 10. október. Grundfirðingar á öllum aldri geta tekið þátt og eru vegleg verðlaun í boði. Sögum skal skilað á bæjarskrifstofuna.   Fræðslu- og menningarmálanefnd

Vegna bílstuldar

Eins og áður hefur komið fram þá var bíl stolið á bílastæði Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Lögreglan á Snæfellsnesi vill að það komi fram að þetta mál er upplýst af fullu . Ennfremur vill lögreglan minna fólk á að loka bílum sínum og húsum.

Skilaboð frá byggingarfulltrúa

Öll losun úrgangs- eða byggingarefna í uppfyllingu austan við Soffanías Cecilsson hf. er stranglega bönnuð nema með samráði við verkstjóra áhaldahúss.                                       Talsvert hefur borið á losun úrgangs og byggingarefna á svæðinu.

Örnefnaskrá komin á vef Grundarfjarðarbæjar

Hollvinasamtök Grundarfjarðar réðust í það verkefni fyrir nokkrum árum að taka saman örnefnaskrár fyrir Eyrarsveit. Þessar skrár má nú nálgast á vef Grundarfjarðarbæjar hér.

Lausir tímar í íþróttahúsi

  Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á stundaskrá íþróttahúss til jóla. Nokkrir tímar eru lausir fyrir einstaklinga til leigu og má sjá þá hér.   Vinsamlegast talið við Svan, yfirmann íþróttahúss vegna tímanna ef áhugi er fyrir hendi. Sími íþróttahúss er 430-8564.

Bílstuldur í Grundarfirði

Það leiða atvik átti sér stað á mánudag að bíl var stolið á bílastæði Fjölbrautarskóla Snæfellinga. Af því tilefni er fólk er minnt á að loka bílum sínum og húsum.

Kveðjumessa Sr. Elínborgar Sturludóttur

Sunnudaginn 31. ágúst var síðasta messa Sr. Elínborgar Sturludóttur í Setbergsprestakalli. Margir mættu til að kveðja Elínborgu og fjölskyldu hennar í athöfn sem var hátíðleg og skemmtileg. Runólfur Guðmundsson formaður sóknarnefndar færði Elínborgu, og eiginmanni hennar Sr. Jóni Ásgeiri Sigurvinssyni,  að gjöf mynd af Grundarfirði sem tekin er ofan af Kirkjufelli. Einnig afhenti Guðmundur Ingi bæjarstjóri þeim hjónum aðra mynd af Kirkjufelli sem tekin er frá Kirkjufellsfossi að gjöf frá Grundarfjarðarbæ.  

Nýr organisti í Setbergsprestakalli

Tryggvi Hermannson, nýr organisti Setbergsprestakalls, tók formlega til starfa í gær. Hann starfar einnig  í Tónlistarskóla Grundarfjarðar. Tryggvi kemur frá Egilsstöðum þar sem hann kenndi við tónlistarskólann. Fyrir tveimur árum hóf hann nám við Tónskóla Þjóðkirkjunnar og útskrifaðist nú í vor með organistapróf. Grundfirðingar bjóða hann velkominn.