Steinþórsmót dagana 4. og 5. júní

Steinþórsmót fyrir 14 ára og yngri verður haldið miðvikudaginn 4. júní kl. 17.00 og Steinþórsmót  fyrir 15 ára og eldri verður haldið fimmtudaginn 5. júní kl. 18.00.  Við viljum vekja athygli á því að okkur vantar foreldra til starfa í frjálsíþróttaráð UMFG.

Útkrift grunnskólans

Útskriftarhópurinn frá Grunnskóla Grundarfjarðar vorið 2008   Síðatliðinn föstudag var útskrift nemenda grunnskólans haldin við hátíðlega athöfn. Var tekið vel á móti tilvonandi 1. bekkingum auk þess sem útskriftarárgangur 10. bekkjar var leystur út með rósum og gjöfum fyrir nemendur sem stóðu sig vel. Með hæstu einkunn var Guðbjörg Soffía Magnúsdóttir. Fleiri gjafir voru afhentar en árgangur 1990 færði Félagsmiðstöðinni Eden tæpar 100.000 kr. til nota fyrir starfsemina þar.  Eigendur fyrirtækisins Guðmundar Runólfssonar hf.

Norska húsið í Stykkishólmi í bláu.

Laugardaginn 31. maí 2008, kl. 14.00 hefur Norska húsið í Stykkishólmi sumarstarf sitt með því að Ólafur K. Ólafsson, sýslumaður Snæfellinga, dregur að húni endurgerð af fálkafána Sigurðar Guðmundssonar, málara. Í framhaldi þess mun Símon Sturluson opna tvær bláar þemasýningar: "Eitt sumar í Hólminum bláa" og listsýninguna "Í bláum skugga". Einnig mun karlakórinn Kári syngja nokkur lög.  Norska húsið er opið daglega í sumar kl. 11.00 - 17.00. 

KVENNAHLAUP ÍSÍ.

Af óviðráðanlegum orsökum er ekki búið að tímasetja kvennahlaupið í Grundarfirði, en að öllum líkindum verður það haldið sunnudagin 8 júní.  Þær sem vilja skrá sig í hlaupið geta haft samband við Kristínu H í S:899 3043.  Einnig geta þær sem vilja fá boli en sjá sér ekki fært að vera með haft samband.  Bolirnir í ár eru fallega lillafjólubláir með V-hálsmáli og úr polyester. KH.  

Vegna tímatöflu sumarsins og fl.

Það er smá villa í timatöflu sumarsins sem dreifð hefur verið í hús.  Inn á hana vantar frjálsar 9 ára og yngri á þriðjudögum kl.  10.00.  Föstudaginn 30. maí verða engar æfingar hjá UMFG.  Í næstu viku verður haldið Steinþórsmót, nánar auglýst síðar.   Kveðja UMFG

Sjómannadagurinn 2008

Vegna fráfalls félaga okkar, Péturs Kr. Elíssonar, verður öllum atburðum á vegum sjómannadagsráðs aflýst sem vera áttu á laugardeginum 31. maí.  Á sunnudeginum, 1. júní, kl. 14, verður Sjómannadagsmessa í Grundarfjarðarkirkju og kl. 15 verður kaffisala á vegum kvenfélagsins Gleym mér ei, í félagsheimilinu.  Hvetjum alla sjómenn til að fjölmenna í kirkjuna.   Sjómannadagsráð. Jón Frímann Eiríksson  

Úthlutun framlaga til eflingar atvinnuþróunar og nýsköpunar úr sjóði vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar - Reykofninn ehf. fékk framlag

Listi yfir framlög til eflingar atvinnuþróunar og nýsköpunar hefur verið birtur hjá Byggðastofnun.  Framlög þessi eru úr sjóði sem ríkisstjórnin myndaði vegna mótvægisaðgerða sinna vegna skerðingar á þorskaflaheimildum.  Eitt fyrirtæki í Grundarfirði fékk úthlutað framlagi sem er Reykofninn ehf.  Framlagði er kr. 2.100.000 og er aðstandendum Reykofnsins ehf. óskað til hamingju og þess óskað að framlagið dugi vel í þeirra merkilega þróunarstarfi.   Svo er önnur hlið á þessum úthlutunum.  Nokkrar aðrar umsóknir fóru frá Grundarfirði sem ekki fengu náð fyrir augum úthlutunaraðila.  Sama var upp á teningnum þegar úthlutað var úr sambærilegum sjóði vegna styrkja til ferðaþjónustuverkefna.  Nokkrar góðar og metnaðarfullar umsóknir voru sendar.  Sumar fengu góða úrlausn, aðrar enga.  Þegar skoðað er hvernig staðið hefur verið að málum í þessum mótvægisaðgerðum öllum má spyrja í fullri vinsemd:  Staðir sem hafa á milli 40 og 50% atvinnuþátttöku í fiskveiðum og vinnslu virðast ekkert sérstaklega vera taldir koma til greina við þessar úthlutanir umfram aðra og hvers vegna er þá verið kenna þessar úthlutanir við mótvægisaðgerðir vegna skerðingar á þorskaflaheimildum?

Dagur barnsins

Spáð í hönnun.   Dagur barnsins var haldinn hátíðlegur í Grundarfirði í gær, sunnudaginn 25. maí með skemmtilegri dagskrá fyrir börn og aðstandendur þeirra. Góð mæting var í sandkastalakeppnina undir Kirkjufelli og eins og sjá má á myndunum var mikill metnaður hjá fólki í smíð kastalanna. Myndirnar eru hér ásamt nokkrum myndum frá höfninni þar sem boðið var upp á andlitsmálun.  

Fjölbrautaskóli Snæfellinga útskrifar í sjötta sinn

Í dag útskrifaði Fjölbrautaskóli Snæfellinga 12 nemendur með stúdentspróf. Hrönn Björgvinsdóttir, nemandi á félagsfræðabraut hlaut þrenn verðlaun við útskriftina. Fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi fékk hún verðlaun frá Grundarfjarðarbæ. Fyrir góðan árangur í spænsku og sálarfræði fékk hún verðlaun sem gefin voru af Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Jóhannes Fannar Einarsson fékk verðlaun fyrir góðan árangur í stærðfræði frá Kaupþingi banka og fyrir góðan árangur í þýsku fékk hann verðlaun frá Þýska sendiráðinu. Gísli Sveinn Gretarsson fékk verðlaun frá Danska sendiráðinu fyrir góðan árangur í dönsku.   Frétt á heimasíðu Skessuhorns 23. maí 2008