Tilkynning frá vinnuskólanum

Vinnuskólinn mun hefja starfsemi mánudaginn 2. júní 2008.  Unglingum er gefinn kostur á því að taka þátt í starfi vinnuskólans á öðru af tveimur tímabilunum í sumar. Fyrra tímabilið hefst 2. júní og stendur til 3. júlí að báðum dögum meðtöldum. Seinna tímabilið hefst 30. júní og stendur til 31. júlí að báðum dögum meðtöldum.  Starfsemin verður mánudaga til fimmtudags í hverri viku frá kl. 08:30-12:00.  Vinnuskólinn starfar ekki á föstudögum.   Skráning er hafin fyrir vinnuskólann og eru þau sem hug hafa á að taka þátt hvött til þess að skrá sig sem fyrst.  

"Dagur barnsins" í fyrsta sinn

Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur ákveðið að haldinn verði "Dagur barnsins" einu sinni á hverju ári.  Dagurinn sem valinn var er 25. maí og ber upp á sunnudag í þetta sinn.  Dagurinn er haldinn undir heitinu "gleði og samvera".  Í Grundarfjarðarbæ verða nokkrir viðburðir í tilefni dagsins næsta sunnudag sem einmitt eru tengdir þessu heiti.  Nefna má, að á dagskrá verður dorgveiði á bryggjunni, andlitsmálun á bryggjunni, sandkastalakeppni á Kirkjufellssandi, gönguferð í fjörunni, lautarferð í Torfabót þar sem einnig verða íþróttir og leikir.  Hvatt er sérstaklega til þess að foreldrar og börn taki þátt í þessum atburðum saman.  UMFG og foreldrafélög grunnskólans og leikskólans hafa umsjón með öllum atriðunum sem eru skipulagðir sem samverustundir foreldra og barna.  Fylgist með auglýsingum í Vikublaðinu og á heimasíðu bæjarins um nánari upplýsingar og tímasetningar.   Frítt verður í sund allan sunnudaginn 25. maí n.k. fyrir foreldra og börn.  Sundlaugin verður opin frá kl. 10.00 - 19.00.

Fyrsta skemmtiferðaskipið kemur í fyrramálið!

Klukkan átta að morgni föstudagsins 23. maí fáum við Grundfirðingar fyrsta skemmtiferðaskipið í heimsókn.  Þetta er skipið MS Fram frá Noregi. Skipið er 114 metrar að lengd og rúmir tuttugu metrar á breidd. Það vegur 12700 tonn og ber 500 farþega.  Það er glænýtt, var smíðað árið 2007 og er sérhannað til siglinga við norðurheimskautið. Þetta er önnur ferð skipsins til Íslands, og er aðeins höfð viðkoma í tveimur höfnum hér við land, í Grundarfirði og í Reykjavík, áður en haldið er til Grænlands. Skipið kemur, eins og áður sagði, klukkan 8:00 og heldur úr höfn aftur klukkan 15:00. Flestir farþegar eru Svíar, Danir og Norðmenn.  

Laus störf í heimaþjónustu

Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga leitar eftir starfsfólki til að annast heimilishjálp í   Grundarfjarðarbæ  og Stykkishólmsbæ  

Skólaslit í tónlistarskólanum

Tónlistarskólinn í Grundarfirði hélt lokatónleika vetursins í Fjölbrautarskólanum sl. sunnudag. Metmæting var á tónleikana eða um 170 gestir. Lúðrasveit Tónleikaskólans spilaði í fyrsta sinn eftir endurvakningu síðastliðið haust. Myndir frá tónleikunum má nálgast hér.

Sigríður aðstoðar Sturlu

Sturla Böðvarsson, fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis og forseti Alþingis hefur ráðið Sigríði Finsen hagfræðing sem aðstoðarmann sinn. Starfsstöð hennar verður í Grundarfirði. Ráðning aðstoðarmanna þingmanna er samkvæmt reglum um aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka og alþingismanna úr dreifbýliskjördæmum landsins.   Frétt á heimasíðu Skessuhorns 21/5 2008.  

Sagnakvöld í Sögumiðstöðinni

                                Föstudagskvöldið 16. maí sl. var haldið "Sagnakvöld" í Sögumiðstöðinni.  Nokkrir valinkunnir sagnamenn komu þar fram og sögðu margvíslegar sögur.  Vonandi verður framhald á þessari starfsemi sem e.t.v. getur orðið liður í því að hefja starf í "Sagnamiðstöð Íslands".  Meðfylgjandi mynd af sagnafólkinu tók Sverrir Karlsson, ljósmyndari, og er hún birt með góðfúslegu leyfi hans. 

Landaður afli í apríl 2008

 Hér má sjá landaðan afla í apríl 2008 og árin á undan til samanburðar.

Ertu e.t.v. að velta fyrir þér að gerast dagforeldri ??

Eins og kunnugt er hefur ekki verið starfandi dagforeldri í Grundarfirði frá því í fyrra.  Bæjarstjórnin hefur leitast við að gera starf dagforeldra meira eftirsóknarvert með niðurgreiðslum á dagvistargjöldum og með því að tryggja dagforeldrum greiðslur fyrir pláss sem ekki tekst tímabundið að fylla í.  Ef til vill hafa reglur bæjarstjórnarinnar um þessi mál ekki komist vel til skila og því er vakin athygli á þeim nú.  Ef einhver skyldi vera að velta fyrir sér þessum atvinnumöguleika, má t.d. benta á að  fyrr í þessum mánuði samþykkti bæjarstjórnin að hækka niðurgreiðslufjárhæðir vegna dagvistunar barna hjá dagforeldrum um 12,5%.  Upplýsingar um niðurgreiðslurnar og tryggingargreiðslur til dagforeldra er unnt að lesa á heimasíðunni undir kaflanum "Stjórnsýsla" og "Reglur og samþykktir".  Rétt er að benda á, að uppfylla þarf ákvæði reglugerðar um dagvistun barna í heimahúsum.

Háforgjafamót golfklúbbsins

Háforgjafarmót,18 og hærra í forgjöf innanfélagsmót. Spilaðar eru 9 holur. 22. maí n.k. Golfklúbburinn Vestarr (GVG) Fyrirkomulag Punktakeppni Völlur Golfklúbbur Vestarr Skráning 11.05.-22.05.2008 Allir flokkar:500 kr.   Mótstjóri Garðar Svansson s:6621709