Endurbættar síður á Vefbókasafninu

Barnasíða Vefbókasafnsins hefur nýlega verið uppfærð og á þemasíðunni Bækur og móðurmál má sjá hvaða bókasöfn hafa fengið úthlutað tungumáli til að sjá um. Á Vefbókasafninu erum við laus við marga tugi þúsunda af niðurstöðum til að velja úr en bókaverðir velja, safna og efnisflokka vefsíður og raða þeim upp í ákveðið kerfi. 

Árshátíð starfsmanna Grundarfjarðarbæjar

Árshátíð starfsmanna Grundarfjarðarbæjar verður haldin laugardaginn 7. október í samkomuhúsinu. Húsið opnar kl. 19:30 og borðhald hefst kl. 20.00. Panta þarf miða fyrir þriðjudaginn 3. október. Miðaverð er 3.500 kr. Á miðnætti verður opnað fyrir dansleik með hljómsveitinni Swiss. Aldurstakmark 20 ára, miðaverð 1.200 kr.

Sundlaugin lokuð um helgina

Af óviðráðanlegum orsökum verður sundlaugin lokuð laugardaginn 30. september og sunnudaginn 1. október nk.

Dansskóli Jóns Péturs og Köru í Grundarfirði

Þessa dagana er dansskóli Jóns Péturs og Köru með Dansnámskeið í Grundarfirði. Námskeiðið hófst í gær, fimmtudag, og stendur fram á föstudaginn 6. október og lýkur með danssýningu fyrir foreldra og aðra gesti. Dansskóli Jóns Péturs og Köru hefur verið með námskeið í Grundarfirði í mörg ár við mjög góðar undirtektir. Meðfylgjandi myndir voru teknar í morgun þegar tveir elstu árgangar leikskólans voru að æfa sporin.   Kara danskennari og leikskólabörn fædd 2001 og 2002   Sjá fleiri myndir hér.

Ljósmyndasamkeppnin Mannlíf og umhverfi Grundarfjarðarbæjar á Rökkurdögum

Á vegum Rökkurdaga er að hefjast ljósmyndasamkeppnin Mannlíf og umhverfi Grundarfjarðarbæjar.  Öllum er heimil þátttaka og er vonast til þess að sem flestir taki þátt í keppninni og sendi inn bæði nýjar og gamlar ljósmyndir af mannlífii og/eða umhverfi Grundarfjarðarbæjar. Myndirnar verða svo til sýnis á Rökkurdögum.

Vika símenntunar á bókasafninu

24.-30. september er vika símenntunar sem er kynningar- og hvatningarátak með því markmiði að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi menntunar og þess að ávalt er hægt að bæta við sig þekkingu.  Kíkið við á bókasafninu og kynnið ykkur hvað boðið er upp á s.s. rafræn gagnasöfn, upplýsingaþjónustu, aðstoð við heimildaleitir og útlán. Heitt á könnunni.

TAKTU ÞÁTT

Þann 28. september n.k. verður haldinn forvarnardagur í öllum grunnskólum landsins með unglingadeildir undir slagorðinu TAKTU ÞÁTT! Forvarnardagurinn er haldin að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu forvarnardagsins.

Blóðbankabíllinn á ferðinni

Blóðbankabíllinn verður í Grundarfirði við Esso skálann, miðvikudaginn 20. september frá kl. 10.00 - 13.00. Allir velkomnir. 

Göngur og réttir

Á morgun laugardag verða göngur í Eyrarsveit. Réttað verður að Hömrum og Mýrum að göngum loknum.  

Töf á Vikublaðinu Þey

Töf verður á útgáfu Vikublaðsins Þeys.  Reynt verður að dreifa blaðinu síðar í dag eða í síðasta lagi á morgun, föstudag.