Æfingar á sparkvelli

Í dag, 6. nóvember, verða engar æfingar á sparkvelli vegna tjóns sem varð í ofsaveðrinu um helgina. 

Óveðrið sunnudaginn 5. nóvember

Eins og öllum er vel kunnugt um gekk yfir mikið stórviðri í gær.  Þessu hafði verið spáð í síðustu viku og var m.a. birt viðvörun til íbúa Grundarfjarðar á heimasíðu sveitarfélagsins.  Segja má að fólk almennt hafi brugðist vel við og komið öllum lausum hlutum í skjól.  Þetta varð m.a. til þess að tjón varð minna en ella hefði getað orðið.  Bæjarstarfsmenn og hafnarvörður gerðu einnig það sem í þeirra valdi stóð.  Meðal annars fóru starfsmenn áhaldahússins um og bentu fólki á ef lausir munir voru úti.  Í höfninni var allt gert klárt á föstudag og laugardag. 

Rökkurdagar

Upplestrarkvöld sem vera átti á Kaffi 59 sunnudaginn 5. nóvember nk. fellur niður vegna forfalla rithöfunda.

Slæm veðurspá fyrir helgina

Mjög slæm veðurspá er fyrir aðfaranótt nk. sunnudags, 5. nóvember, allt að 50 m/s í hviðum. Íbúar og forsvarsmenn fyrirtækja eru minntir á að ganga vel frá öllum lausamunum á lóðum sínum þannig að þeir fjúki ekki og valdi tjóni. Jarðvinnuverktakar eru jafnframt minntir á að ganga frá lausu jarðefni á þeirra vegum innan bæjarins.  

Kynning á félagsstarfi unglinga

Í gær, fimmtudaginn 2. nóvember, stóð íþrótta- og tómstundanefnd fyrir opnum kynningarfundi á félagsstarfi unglinga hér í Grundarfirði. Fulltrúar félagsmiðstöðvarinnar Eden sögðu frá vetrarstarfinu og því sem væri framundan. Þóra Margrét Birgisdóttir, forvarnarfulltrúi Snæfellinga, fór yfir þau verkefni sem hún hefur staðið fyrir í forvarnarmálum og kynnti það sem er á döfinni í vetur. Hún sagði einnig frá Listahátíðinni Berserkur 2006 sem haldinn var í sumar. UMFG kynnti þær greinar sem í boði eru fyrir unglinga í 8. – 10. bekk, frjálsar íþróttir, blak og fótbolta. Fulltrúar úr hverri íþróttagrein sögðu frá starfinu. Að lokum fór Elsa Björnsdóttir yfir vetrarstarfið hjá unglingadeildinni Pjakk, en starfið hefst í næstu viku.  

Upplestur skálda og rithöfunda

Frá Bókasafni Grundarfjarðar: Örstutt samantekt um skáldin sem lesa upp á Rökkurdögum er á síðu Bókasafns Grundarfjarðar.

Kynning á félagsstarfi unglinga í Grundarfirði

Opinn kynningarfundur á félagsstarfi unglinga í Grundarfirði verður í kvöld, fimmtudaginn 2. nóvember, kl. 19.30 í Samkomuhúsi Grundarfjarðar.   Unglingar segja frá því félagsstarfi sem þeir taka þátt í og hvað er á döfinni í vetur.   Mætum öll og sýnum málefnum unglinga áhuga!   Foreldrar unglinga í 8.-10. bekk eru sérstaklega hvattir til að mæta.   Íþrótta- og tómstundanefnd  

Svar við spurningu vikunnar

Rétt svar við spurningu vikunnar er Hallbjarnareyri. 146 manns spreyttu sig á spurningunni og voru 123 eða 84,2% með rétt svar. Brynjólfur biskup byggði spítalann árið 1652  og fyrsti forstöðumaður hans var Þórður Guðmundsson.

Framhaldsskóladeild á Patreksfirði í samvinnu við Fjölbrautaskóla Snæfellinga næsta haust

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra,  hefur ákveðið að hefja tilraunaverkefni um rekstur framhaldsdeildar á Patreksfirði fyrir nemendur á fyrsta og öðru ári í framhaldsskóla. Deildin verður rekin í nánu samstarfi eða undir stjórn Fjölbrautaskóla Snæfellinga og stuðst við þá reynslu sem þar hefur fengist með því að blanda saman staðbundnu námi og dreifnámi.  FSN mun sjá um stóran hluta kennslunnar og bera ábyrgð á hinum faglega þætti starfseminnar.  

Rökkurdagar

Vegna dræmrar þátttöku fellur niður fyrirlestur um drauma, sem átti að vera á Kaffi 59 í kvöld.