Ljósmyndasamkeppnin Mannlíf og umhverfi Grundarfjarðarbæjar á Rökkurdögum

Á vegum Rökkurdaga er að ljúka ljósmyndasamkeppninni Mannlíf og umhverfi Grundarfjarðarbæjar.  Öllum er heimil þátttaka hægt er að senda inn bæði nýjar og gamlar ljósmyndir af mannlífi og/eða umhverfi Grundarfjarðarbæjar. Myndirnar verða svo til sýnis í Hrannarbúðinni á Rökkurdögum.  

Ný stjórn Hafnasambands sveitarfélaga/Hafnasambands Íslands

35. hafnasambandsþing var haldið dagana 12.-13. október á Hótel Höfn, Hornafirði. Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, var endurkjörinn formaður Hafnasambandsins til tveggja ára. Ásamt honum voru kjörin í stjórn: Björg Ágústsdóttir, Grundarfirði Björn Magnússon, Hafnasamlagi Norðurlands Helga Jónsdóttir, Fjarðabyggð Ólafur M. Kristinsson, Vestmannaeyjum Ólafur Örn Ólafsson, Grindavík Skúli Þórðarson, Húnaþingi vestra  

Framkvæmdir við húsbyggingar í Grundarfirði

Töluverðar framkvæmdir eru nú við byggingar íbúðarhúsa í Grundarfirði. Við Ölkelduveg 1-7 er verið að byggja fjögurra íbúða raðhús, við Ölkelduveg 21 eru framkvæmdir hafnar við grunn fyrir einbýlishús, við Fellasneið 24 er einbýlishús orðið fokhelt, við Fellabrekku 7-21 er verið að efnisskipta lóðir fyrir byggingu fjögurra parhúsa og nýlega voru afhentar fjórar fullbúnar íbúðir við Grundargötu 69. Í myndabankanum má sjá myndir af íbúðarhúsum í byggingu sem teknar voru í blíðunni í gær, 18. okt.  

Svar við spurningu vikunnar

Kennsla hófst, að hluta, í nýju skólahúsnæði að Borgarbraut haustið 1960. Húsnæðið var fullgert í byrjun janúar 1962 og vígt formlega á þrettándanum. Flestir, eða 82%, svöruðu á þann hátt að fyrsti hluti skólans hafi verið tekin í notkun árið 1962.

Styrkbeiðnir

Vinna við fjárhagsáætlun fyrir árið 2007 er hafin. Félagasamtök sem hafa í hyggju að sækja um styrki eru hvött til að leggja fram styrkbeiðni á bæjarskrifstofu Grundarfjarðar sem fyrst og ekki síðar en 1. nóvember nk.   Bæjarstjóri

Stuðningur við nýja kantsteina

Vélaleiga Kjartans Elíassonar er þessa dagana að keyra möl í bil milli vegkants og kantsteins á götunum þar sem malbik var lagt á í sumar og nýr kantsteinn steyptur. Mölin er sett sem stuðningur við kantsteininn og jafnframt ætluð sem fyllingarefni undir gangstéttir sem síðar koma meðfram götunum. Sjá fleiri myndir í myndabankanum með því að smella hér.  

Bæjarstjórnarfundur í dag

72. fundur bæjarstjórnar Grundarfjarðar verður haldinn í samkomuhúsinu í dag, miðvikudaginn 18. október, og hefst kl. 17. Á dagskrá er m.a. fundargerðir nefnda og ráða, yfirlit um skil á staðgreiðslu, endurskoðuð fjárhagsáætlun árið 2006, tillaga að nýjum reglum um daggæslu í heimahúsum, tilnefning í endurmatsteymi vegna starfsmats, tillaga að samning um veghald vegar nr. 57, fyrirspurn til forseta bæjarstjórnar frá fulltrúum L-lista,  tillaga L-lista um stofnun sérstakrar nefndar um gerð jafnréttisáætlanar, ýmis fundarboð og efni til kynningar. Hægt er að sjá fundarboð og dagskrá í heild sinni hér á hægri væng síðunnar.   Fundurinn er öllum opinn.   Bæjarstjóri

Framkvæmdir við nýja litlu-bryggju

Fyrsta plata stálþilsins í nýja litlu-bryggju var rekin niður í gær, fimmtudaginn 12. október. Um framkvæmd verksins sér Berglín ehf. í Stykkishólmi en Hagtak hf. sér um að koma þilinu niður. Áætlað er að stálþilið allt verði komið niður í um mánaðamótin október – nóvember.   Starfsmenn Hagtaks hf. koma plötunni fyrir.   Verklok á fyrsta verkhluta við byggingu nýrrar litlu-bryggju er áætlaður 1 .desember nk. Að því loknu verður boðinn út annar verkhluti sem er þekja og lagnir. Ný litla-bryggja verður 20 m á breidd og 100 m á lengd. Sjá fleiri myndir hér.  

Íslenski þjóðbúningurinn í Grunnskóla Grundarfjarðar

Sunna Njálsdóttir, Guðlaug Guðmundsdóttir, Jóna Ragnarsdóttir, Friðbjörg Matthíasdóttir og Dóra Aðalsteinsdóttir ásamt nemendum.   Í síðustu viku heimsótti fríður hópur kvenna í íslenskum þjóðbúningum Grunnskóla Grundarfjarðar. Konurnar heimsóttu nemendur í yngstu bekkjum skólans og sýndu þeim bæði upphlut og peysuföt. Af þessari heimsókn lærðu nemendur m.a. að í gamla daga voru peysufötin spariföt en konur voru í upphlut þegar þær voru við vinnu. Einnig sáu krakkarnir að enginn er eins, hver og einn búningur er sérstakur. Tilefni þessarar heimsóknar var að nemendur í 3. bekk eru að læra um helstu einkenni lands og þjóðar. Konurnar vöktu að vonum mikla athygli og aðdáun nemenda og starfsfólks skólans.

Nýr skipulags- og byggingafulltrúi tekur til starfa

Mánudaginn 16. október n.k. tekur Hjörtur Hans Kolsöe við starfi skipulags- og byggingafulltrúa í Grundarfirði. Hjörtur, sem er byggingafræðingur, hefur starfað undanfarna mánuði sem aðstoðarmaður á tæknisviði bæjarins. Jafnframt því að gegna starfi skipulags- og byggingafulltrúa, mun Hjörtur veita forstöðu öllum verkefnum á tæknisviðinu.