Myndlistasýning nemenda FSn

Myndlistasýning nemenda Fjölbrautaskóla Snæfellinga stendur nú yfir í skólanum. Bæjarbúar eru hvattir til þess að líta á sýninguna og mæta  á uppboð á verkunum á nk. laugardag en ágóðinn rennur í sjóð nemendafélags skólans.

Hafnasambandsþing 2004 og ný stjórn Hafnasambands sveitarfélaga

Hafnasamband sveitarfélaga hélt hafnasambandsþing sitt í Reykjavík 28. og 29. október sl. Hvert sveitarfélag, sem á höfn, eða hafnasamlag getur gerst aðili að hafnasambandinu og innan vébanda þess eru flestar hafnir landsins.  

Fullt á lokasýningu Sodade

Húsfyllir var í Sögumiðstöðinni í gær þegar Sodade, heimildarmynd Daggar Mósesdóttur, var sýnd í þriðja og síðasta sinn á Rökkurdögum 2004. Það leikur enginn vafi á því að myndin fái góða dóma meðal bæjarbúa enda mjög svo áhugavert viðfangsefni sem framleiðandi tók sér fyrir hendur.

Er lögheimili þitt rétt?

Þeir sem hafa flutt til Grundarfjarðar en ekki tilkynnt aðsetursskipti, eru hvattir til þess að gera það í síðasta lagi 30. nóvember nk. Eyðublöð fást á bæjarskrifstofunni og einnig á vef Hagstofunnar.   Atvinnurekendur eru jafnframt hvattir til að brýna fyrir utanbæjarfólki, sem þeir ráða til starfa, að tilkynna aðsetursskipti ef búseta þeirra er í Grundarfirði.    

Hver er ég?

Sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir unglinga í Grundarfjarðarkirkju.   Fimmtudaginn 11. nóv. verður sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir 15 og 16 ára gömul ungmenni í Grundarfjarðarkirkju kl. 15-18. Unglingsárin eru mikill umbreytingartími í lífi allra. Á unglingsárunum vitum við stundum ekki í hvorn fótinn við eigum að stíga, hvað við viljum eða fyrir hvað við stöndum.    

Green Globe 21 - verkefnisstjórn skilar af sér

Fyrirtækin Leiðarljós ehf. og Umís ehf., sem hafa séð um ráðgjöf og verkefnisstjórn við undirbúning Snæfellsness fyrir vottun Green Globe 21, skiluðu verkinu formlega af sér þann 5. nóvember. Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur hjá Umís ehf. fór af því tilefni yfir feril verksins og sagði að menn gætu verið mjög ánægðir með þann árangur sem hefur náðst. Björg Ágústsdóttir tekur við verkinu úr hendi Stefáns Gíslasonar

Myndlistarsýning FSn

Í dag opnar í Fjölbrautaskóla Snæfellinga sýning á verkum nemenda í myndlist við skólann. Á sýningunni kennir ýmissa grasa, en þar má finna olíumálverk, vatnslitamyndir, myndir unnar með kolum, olíupastellitum og þurrpastel. Einnig má sjá nokkrar blýantsteikningar og nokkur verk sem unnin eru með blandaðri tækni.

Einu sinni var í Norðri ...

Einu sinni var í Norðri er heiti Norrænu bókasafnavikunnar í ár sem hefst í dag 8. nóvember og stendur út vikuna. Tilefnið er að árið 2005 eru liðin 200 ár frá fæðingu H.C. Andersen og verður kveikt á kertum og lesið úr verkum hans á sama tíma á flestum almenningsbókasöfnum á Norðurlöndunum. Á Bókasafni Grundarfjarðar les Þórunn Kristinsdóttir söguna um Ljóta andarungann og söguna um Hið ótrúlega kl. 17:30. Komum og njótum upplesturs í kyrrð kertaljósanna. Starfsfólk Bókasafns Grundarfjarðar  

„Svona gerum við konur“

Þær stöllur Dagbjört Lína, Kristín, Herdís og Hrafnhildur Jóna opnuðu myndlistasýningu sína „Svona gerum við konur“ í sögumiðstöðinni í gær. Mikil aðsókn var á sýninguna og stilltu listakonurnar sér upp fyrir ljósmyndara. Herdís, Dagbjört Lína, Hrafnhildur Jóna og Kristín

Sex í sveit og stúlknaband

Sex í sveit og „stúlknabandið“ héldu sameiginlega tónleika í Krákunni í gærkvöldi. Krákan var þétt skipuð og þurftu síðustu gestirnir að sitja í anddyrinu. Ánægjulegt er að sjá hversu virkan þátt bæjarbúar taka í dagskrá Rökkurdaga því húsfylli var þrjú kvöld í röð þessa helgina. Frá vinstri: Karl Jóhann, Geirmundur, Gunnar, Kristján, Kristján Magni, Sigríður Laufey, Hanna Sif, Ólöf Hildur og Friðrik Vignir