Kalt vatn

Föstudaginn 3. og laugardaginn 4. júní sl. var borað eftir köldu vatni á vatnsverndarsvæðinu við Grundarbotn. Borunin tókst vel, en það var Ræktunarsamband Flóa & Skeiða sem annaðist verkið. Nýja holan var boruð austan við núverandi dæluhús, nær bökkum Grundarár. Sunnudaginn 5. júní sl. var holan dæluprófuð til að kanna afköst hennar og reyndist hún gefa 10 – 15 ltr. á sekúndu.

Hverfisvæn leið um Grundarfjörð

Vegagerðin hefur auglýst útboð á framkvæmdum við „hverfisvæna leið“ um Grundarfjörð. Um er að ræða sérstakt verkefni sem felst í breytingu (öryggisaðgerðum) á Grundargötu sem er þjóðvegur. Gatan verður m.a. mjókkuð og á hana verða settar umferðareyjur, „upphækkanir/bugður“ og kantar.  Framkvæmdin, sem hönnuð er af verkfræðistofunni VST, er gerð með það að leiðarljósi að minnka hraðakstur í gegnum bæinn. Tilboðin verða opnuð þann 21. júni nk. og eru verklok áætluð 1. september 2005.

Jöklakórinn undirbýr þátttöku í Kirkjudögum

Jöklakórnum, sem er samkór nokkurra kirkjukóra á Snæfellsnesi, hefur verið boðið í „messuheimsókn“ í Hallgrímskirkju, í tengslum við Kirkjudaga sem haldnir verða í Reykjavík 24. - 25. júní að lokinni Prestastefnu. Kórinn mun syngja við guðsþjónustu í Hallgrímskirkju sunnudaginn 26. júní n.k. og verður messunni útvarpað.  

Frá UMFG

Sumarstarfið er komið af stað og alltaf eitthvað um að vera. Nokkrir leikir á íslandsmótinu eru búnir og koma úrslit þeirra hér. Miðvikudaginn 2. júní spilaði 5. fl við lið Ægis og unnu okkar strákar leikinn  3-1. Fimmtudaginn 4. júní spilaði 4. fl ka við Þrótt R og vann UMFG glæsilegan sigur 4-0. Strákarnir í 4. fl eru nú í æfingaferð í Danmörk og eru búnir að spila tvo leiki þar og vinna báða. Hægt er að fylgjast með ferðasögu þeirra á www.blog.central.is/4_flokkur . Í gær þriðjudag var svo leikur hjá 2.fl kv HSH þær spiluðu við lið Hvatar frá Blönduósi og vann HSH þann leik 5 -1. Það voru þær Birna Karlsd, Birna Kristmundsd, Anna Þóra og Þórkatla sem skorðu fyrir HSH. Veðrið var eitthvað að stríða okkur í leiknum í gær og voru leikmenn blautir og kaldir eftir leikinn og höfðu stelpurnar frá Blönduósi orð á því hvort að það væri alltaf svona veður hér. Næsti leikur UMFG er á föstudag en þá tekur 4.fl kv á móti HK.

Um heitavatnsborun

Á fundi bæjarstjóra og skipulags- og byggingarfulltrúa í Reykjavík í dag með dr. Kristjáni Sæmundssyni jarðfræðingi hjá Íslenskum orkurannsóknum og fleiri sérfræðingum hjá ÍSOR, framkvæmdastjóra Ræktunarsambands Flóa og Skeiða og fleirum, var rætt um stöðuna í heitavatnsboruninni á Berserkseyri. Borun hefur verið hætt í bili, en næst á dagskrá er að vinna að dæluprófun holunnar og frekari rannsóknum.

Borun kaldavatnsholu á Grundarbotni lokið

Nýja borholanBormenn frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða luku í dag borun nýrrar vinnsluholu á Grundarbotni fyrir Vatnsveitu Grundarfjarðar. Þessa stundina er verið að dæluprófa vatnið til þess að kanna magn í holunni. Eldri hola, sem ekki hefur verið virkjuð, var einnig hreinsuð og vatnsmagn mælt í henni. Í framhaldinu verður skoðaður sá möguleiki að virkja báðar þessar holur.

Landaður afli í Grundarfjarðarhöfn í maí 2005

Landaður afli í Grundarfjarðarhöfn í maí var 2.530 tonn samanborið við 1.171 tonn í maí í fyrra. Taflan hér að neðan sýnir sundurliðun á afla eftir tegundum bæði árin.   Tegundir 2005     2004                   Þorskur 499.597   Kg 390.344   Kg Ýsa 475.178   Kg 89.201   Kg Karfi 658.480   Kg 233.769   Kg Steinbítur 31.476   Kg 9.869   Kg Ufsi 102.261   Kg 54.318   Kg Beitukóngur 49.809   Kg 0   Kg Rækja 163.342   Kg 64.996   Kg Langa  3.946   Kg 2.547   Kg Keila 3.007   Kg 2.970   Kg Gámafiskur 475.833   Kg 298.482   Kg Aðrar tegundir  67.743   Kg 25.013   Kg Samtals 2.530.672 Kg 1.171.509 Kg 

Sumartafla UMFG.

Mánudaginn 6. júni tekur gildi sumartafla UMFG. Þið farið inná linkinn Íþróttir og þar finnið þið tímatöfluna. Vinsamlegast látið þetta berast til sem flestra. Taflan verður einnig birt í næsta vikublaði.  

Sjómannadagurinn

Sjómannadagurinn verður að venju haldinn hátíðlegur í Grundarfirði um helgina. Björgunarsveitin Klakkur sér um dagskrá helgarinnar og verður ýmislegt um að vera; koddaslagur, fótbolti o.fl. Skipaflotinn er kominn í höfn og hafa merkisfánar verið settir upp. Skipin við Stóru-bryggju í veðurblíðunni í dag   Grundarfjarðarbær sendir sjómönnum, útgerðarmönnum og fjölskyldum þeirra bestu heillaóskir á sjómannadaginn!

Nýtt skip í flota Grundfirðinga

Hannes Andrésson SH 747 Nýtt skip í flota Grundfirðinga var að leggja í höfn. Skipið heitir Hannes Andrésson SH 747 og er í eigu Reykofnsins í Grundarfirði ehf. Skipið verður gert út til veiða á sæbjúgum og verða þrír í áhöfn. Áætlað er að byrja strax eftir sjómannadag. Grundarfjarðarbær óskar áhöfn og eigendum skipsins innilega til hamingju.