Jólatónleikar Tónlistarskólans

Jólatónleikar Tónlistarskóla Grundarfjarðar voru haldnir þann 14.desember sl. í sal skólans fyrir fullu húsi. Boðið var upp á heitt kakó og smákökur við kertaljós og notalega stemmningu. Í skólanum eru 115 nemendur og komu u.þ.b. 50 þeirra fram að þessu sinni. Efnisskráin var að mestu byggð á jólatónlist en inn á milli voru flutt lög úr ýmsum áttum.   Skólahljómsveit Tónlistarskóla Grundarfjarðar   Að lokum kom svo fram skólahljómsveit tónlistarskólans sem skipuð er eldri nemendum skólans og þeim sem lengra eru komnir í námi. Skólahljómsveitin var stofnuð sl. haust og hefur reglulegar æfingar einu sinni í viku.  Í haust og fram eftir vetri voru æfð lög úr ýmsum áttum sem síðar verða flutt en undanfarnar vikur hefur hljómsveitin undirbúið þá jóladagskrá sem flutt var á tónleikunum. Gjaldgengir meðlimir í skólahljómsveitina eru aðallega þeir sem þykja skara fram úr í tónlistarnámi, eru stundvísir og áreiðanlegir. Markmið sem allir nemendur skólans ættu að stefna að. Sjá fleiri myndir í myndabankanum með því að smella hér.   Skólastjóri  

Brautskráning í Fjölbrautaskóla Snæfellinga

Í gær, 20. desember, var í þriðja sinn brautskráning frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga. 10 nýstúdentar voru útskrifaðir og er heildarfjöldi útskrifaðra nemenda frá skólanum nú 18 stúdentar, en skólinn hefur aðeins starfað í tvö og hálft ár.   Fríður hópur útskriftarnema um jól 2006 búnir að setja upp húfurnar   Þær Oddný Assa Jóhannsdóttir og Ingibjörg Eyrún Bergvinsdóttir fengu verðlaun fyrir góðan námsárangur. Tveir nemendur úr þessum hóp, þau Ingibjörg Eyrún Bergvinsdóttir og Jón Óskar Ólafsson, hafa hlotið alla sína framhaldsskólamenntun á Snæfellsnesi og voru þeim færð blóm af því tilefni. Sjá fleiri myndir í myndabankanum með því að smella hér.

Jólin á Bókasafni Grundarfjarðar

Nú er hægt að skoða myndir af bókakostinum á vefsíðu bókasafnsins. Þar eru myndir af nýjum bókum, ársgömlum og ýmsum athyglisverðum safnkosti. Einnig hafa myndir af bókum á bókamarkaði verið settar á vefsíðu til að auðvelda fólki eða öðrum bókasöfnum að nálgast aukabækur. Munið eftir óvissujólabókapökkunum sem hægt er að sækja á bókasafnið eða fá sent heim fyrir jól og milli jóla og nýjárs. Sjá betur í Þey, vikublaði.

Spurning vikunnar.

Rétt svar við spurningu vikunnar er að kveikt er á kertunum á aðventukransinum í eftirfarandi röð: Spádómskertið, betlehemskertið, hirðakertið og síðast englakertið. 81 manns svöruðu spurningunni og voru 63 eða 77,8% með rétt svar.

Hafnarframkvæmdir

Framkvæmd við stálþil í nýrri „litlu bryggju“ er að verða lokið. Aðeins er eftir að reka niður 13 plötur við suðurhlið bryggjunnar. Áætlað er að verkinu verði lokið öðru hvoru megin við áramótin. Að því loknu verða steyptir kantar, settir bryggjupollar og fríholt. Þá verður boðinn út þriðji verkhluti framkvæmdarinnar sem er að steypa þekju. Að síðustu verður boðinn út fjórði og síðasti verkhlutinn en í honum felst niðurrif gömlu „litlu bryggju“ og dýpkun.   Myndina tóku starfsmenn Hagtaks úr krana   Framkvæmdum við landfyllingu við Norðurgarð er að mestu lokið. Eftir er að keyra í burtu farg sem sett var á til að tryggja sig fyllingarinnar. Verið er að vinna við grjótvörn utan um landfyllinguna. Sjá fleiri myndir í myndabankanum með því að smella hér. Myndirnar tóku starfsmenn Hagtaks úr krana sem þeir nota við að koma stálþilinu fyrir.

Ræðukeppni – Dagur íslenskrar tungu

Í dag, mánudaginn 18. desember, kl. 17.00 verður dagskrá í íþróttahúsinu sem tengist Degi íslenskrar tungu ásamt ræðukeppni grunnskólans þar sem ræðumaður skólans verður valinn.  Vonumst til að sjá sem flesta foreldra og aðra gesti en allir eru hjartanlega velkomnir. Skólastjóri    

Leikskólastarf í desember

Það hefur verið mikið um að vera hjá nemendum leikskólans í desember. Leikskólanemendur sungu nokkur lög á fjölskyldu- og aðventudegi Kvenfélagisns Gleym mér ei fyrstu helgina í aðventu. Föstudaginn 8. desember var rauður dagur í leikskólanum. Þá mættu nemendur og kennarar í einhverju rauðu og voru ansi margir klæddir sem jólasveinar. Sama dag fóru nemndur Drekadeildar í heimsókn á Dvalarheimilið Fellaskjól til að syngja fyrir og spjalla við íbúa og starfsfólk heimilisins.   Myndarlegir ungir drengir í jólabakstri   Foreldrafélagið var með jólaföndur í leikskólanum mánudaginn 11. desember. Mæting var mjög góð og föndruðu nemendur og foreldrar saman og gæddu sér á kaffi, mjólk og smákökum.   Í gær, miðvikudaginn 13. desember, heimsóttu svo allir nemendur leikskólans Grundarfjarðarkirkju. Þar tóku hjónin sr. Elínborg Sturludóttir og Jón Ásgeir á móti þeim og sögðu þeim frá boðskap jólanna.   Auk þessara skipulögðu viðburða er allt á fullu við að undirbúa jólin, föndra jólagjafir, baka smákökur fyrir jólaballið og fleira og fleira. Sjá myndir í myndabankanum með því að smella hér.  

Bæjarstjórnarfundur

Í dag, fimmtudaginn 14. desember, verður 75. fundur bæjarstjórnar haldinn í samkomuhúsinu og hefst kl. 18:30. Sjá fundarboð og dagskrá með því að smella hér.

Svar við Spurningu vikunnar

Það voru flestir með það á hreinu hvaða jólasveinn kæmi fyrst til byggða, en það er að sjálfsögðu Stekkjastaur. 169 manns tóku þátt og voru 154 eða 91,1% með rétt svar.  Á eftir Stekkjastaur koma hinir í þessari röð: Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottaskefill, Askasleikir, Hurðaskellir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur og síðastur er Kertasníkir.

Jólatónleikar Tónlistarskóla Grundarfjarðar

Fimmtudaginn 14.desember kl:17:00 verða jólatónleikar Tónlistarskóla Grundarfjarðar í sal skólans (gengið inn í félagsmiðstöð).   Við hvetjum alla Grundfirðinga til að mæta, hlusta á tónlist við kertaljós og þiggja veitingar í boði skólans. Skólastjóri