Vestlendingar á vegum RKÍ í Gambíu

Um árabil hafa Vesturlandsdeildir Rauða Kross Íslands haft samstarf við deildina í „Vestursýslu í Gambíu“ og eru þrír félagar úr Rauða Krossdeildum á Vesturlandi nú staddir í Gambíu, til að efla samstarfið og auka tengslin milli þessara deilda.   Hildur Sæmundsdóttir með börnum í Gambíu   Við Grundfirðingar eigum okkar fulltrúa í þessu ferðalagi, en það er hún Hildur Sæmundsdóttir, frá Grundarfjarðardeild RKÍ, hin eru Björn frá Stykkishólmsdeild og Kristín frá Borgarfjarðardeild. Hægt er að fylgjast með ferðalaginu á vefslóðinni: http://vesturland-afrika.blogspot.com/

Fyrsti heimaleikur sumarsins.

Í dag kl 17 er fyrsti heimaleikur sumarsins. Stelpurnar í 4.fl spila við Víking R.  UMFG er með 6 lið á íslandsmótinu í fótbolta þetta sumarið það eru 6.fl ka og kv , 5.fl ka, 4.fl ka og kv og 3. fl kv. Einnig erum við í samstarfi við Víðking Ó og Snæfell um 2. og 3.fl karla.  Hvetjum alla til að mæta á völlinn í dag og hvetja stelpurnar áfram til sigurs.

Útskrift frá Leikskólanum Sólvöllum

Miðvikudaginn 31. maí sl. var útskrift í Leikskólanum Sólvöllum. Í ár eru útskrifaðir 16 nemendur. Athöfnin fór fram í samkomuhúsinu þar sem útskriftarnemendur mættu ásamt foreldrum sínum og öðrum ættingjum. Krakkarnir settu upp hatta sem þau höfðu búið til, foreldrafélagið gaf þeim rós og þeim var afhent ferlimappan sín. Eftir athöfnina í samkomuhúsinu var farið í skrúðgöngu út á Kaffi 59 þar sem flatbökuveisla beið þeirra.   Útskriftarnemendur 2006  

Sóknarhugur í Skógræktarmálum í Grundarfirði

Uppi eru áform um verulegt átak í skógrækt í Grundarfirði. Skógræktarfélag Eyrarsveitar hefur staðið fyrir gróðursetningu í hlíðina fyrir ofan bæinn í nokkur ár, en nú stendur til að gera meira.   

Svar við spurningu vikunnar

Í Krossnesi og Kirkjufelli voru hálfkirkjur. 141 tóku þátt og voru 63 eða 45% með rétt svar. 

Æfingabúðir í frjálsum íþróttum

17 krakkar á aldrinum 11 – 15 ára frá UMFG fóru í æfingabúðir í frjálsum dagana 24. – 25. maí.  Byrjað var í Borgarnesi á æfingu en síðan var haldið upp að Varmalandi þar sem farið var í sund og grillaðar pylsur ofaní mannskapinn. Gist var í Þinghamri. Létt morgunæfing var tekin dagin eftir og farið í sund, eftir sundið beið súpa og brauð í hádegismatinn. Síðan var farið niður í Borgarnes aftur og tekin góð æfing þar í lokin. Krakkarnir voru til fyrirmyndar og voru sér og sínum til sóma. Alls mættu tæplega 70 krakkar frá UMSB, HSH, UDN og Skipaskaga, en þetta var liður í Vesturlandssamstarfi félagana í frjálsum íþróttum.   KH  

Firmakeppni 2006

Firmakeppni Hesteigendafélags Grundarfjarðar var haldin laugardaginn 27. maí sl. Alls tóku um 45 fyrirtæki og einstaklingar þátt. Mótið fékk á sig alþjóðlegan blæ þar sem farþegar af skemmtiferðaskipi sem lá á firðinum komu og horfðu á.   Keppendur í unglingaflokki f.v.: Ástrós Eiðsdóttir, Saga Björk Jónsdóttir, Dagfríður Ósk Gunnarsdóttir, Þorsteinn Ragnarsson og Ingólfur Örn Kristjánsson 

Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins

Á laugardag kom fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins til Grundarfjarðar. Það var Mona Lisa sem kom með um 400 farþega, mest Þjóðverja. Skipið var hér allan daginn og sáust margir farþegar rölta um bæinn, einkum eftir hádegið. Héðan fór skipið til Ísafjarðar.    

Úrslit sveitarstjórnarkosninganna

Á kjörskrá voru 631. Alls greiddu atkvæði 557 eða 88,27%. D listi Sjálfstæðisflokks hlaut 268 atkvæði og fær 4 fulltrúa í bæjarstjórn. L listi Samstöðu - lista fólksins hlaut 265 atkvæði og fær 3 fulltrúa í bæjarstjórn. Auðir seðlar voru 18 og ógildir seðlar voru 6. Nánari upplýsingar um úrslitin fást á kosningasíðu Ríkisútvarpsins.

Lokatölur

Búið er að telja öll atkvæði við sveitarstjórnarkosningarnar í Grundarfirði. Alls greiddu atkvæði 557 eða 88,27%.   Atkvæði féllu þannig: D listi Sjálfstæðisflokks 268 atkvæði L listi Samstöðu - lista fólksins 265 atkvæði Auðir seðlar 18 Ógildir seðlar 6