Endurnýjun tryggingasamnings við VÍS

Mánudaginn 22. maí sl. var udirritaður tryggingasamningur til fimm ára við Vátryggingafélag Íslands. Grundarfjarðarbær hefur átt í áratuga löngum viðskiptum við VÍS og forvera félagsins. Mjög gott samstarf hefur verið við félagið alla tíð. Meðfylgjandi mynd var tekin við undirritun samningsins á Hótel Framnesi.  

Borgarafundur með frambjóðendum

Í gær, 23. maí, var haldinn borgarafundur í samkomuhúsinu með frambjóðendum við sveitarstjórnarkosningarnar.   Yfir 100 manns komu á fundinn. Frambjóðendur voru með framsögu og svöruðu spurningum fundarmanna.  Fundurinn tókst í alla staði vel og var ánægjulegt að sjá hve margir komu.

Frá Orkuveitu Reykjavíkur

Tilraunadælingu á borholu BS-01 á Berserkseyri er lokið og dælan var tekin upp 15. og 16.maí.  Hún er nú til skoðunar ásamt fylgihlutum.  Á síðari stigum tilraunadælingarinnar dró stöðugt úr afköstum dælunnar, þannig að dælt magn minnkaði og vatnsborð í jarðhitakerfinu hækkaði.  Ýmsar getgátur voru uppi um ástæður, meðal annars að dæluhjólin væru slitin eða tærð.  Sökudólgurinn er kominn í ljós, göt mynduðust á dælurörið, flest á samsetningum, sjá mynd, og vatnið hefur sprautast þar út.  Á þeim sex mánuðum sem liðið hafa frá því dæling hófst hefur vatnið náð að tæra sig í gegnum dælurörin.    

Leiðbeiningar til kjósenda

Félagsmálaráðuneytið hefur gefið út leiðbeiningar um hvernig kosningar til sveitarstjórnar skulu fara fram. Meðfylgjandi er útdráttur úr þessum leiðbeiningum sem sjá má í heild sinni hér.   Þegar kjósandi hefur gert grein fyrir sér fær hann afhentan einn kjörseðil. Ath. kjósandi getur þurft að gera grein fyrir sér með því að sýna persónuskilríki með mynd.   Kjósandi fer með seðilinn inn í kjörklefa og að borði því er þar stendur. Á borðinu skulu ekki vera færri en tvö venjuleg dökk ritblý. Þar skal einnig vera blindraspjald sem auðveldar sjóndöprum og blindum að kjósa.   Kjósandi greiðir atkvæði á þann hátt að hann markar með ritblýi kross á kjörseðilinn fyrir framan bókstaf þess lista sem hann vill kjósa af þeim sem í kjöri eru.  

Vortónleikar Tónlistarskóla Grundarfjarðar

Vortónleikar Tónlistarskólans voru haldnir í Fjölbrautaskóla Snæfellinga sunnudaginn 21. maí sl. Góð mæting var á tónleikana og stóðu nemendur sig prýðilega. Myndir frá tónleikunum hafa verið settar í myndabankann undir fræðslumál en einnig er hægt að skoða þær með því að smella hér.

Ferð í Vatnaskóg

Helgina 5.-7. maí sl. fóru 34 krakkar frá Grundarfirði í ferð í Vatnaskóg, ásamt krökkum úr Snæfellsbæ, frá Hvammstanga, Hofsósi og Sauðárkróki. Alls voru því næstum því 150 krakkar í Vatnaskógi þessa helgi og voru öll pláss nýtt. Er skemmst frá því að segja að ferðin var hin ánægjulegasta í alla staði og voru krakkarnir allir til mikillar fyrirmyndar. Ekki skemmdi fyrir að veðrið var með ólíkindum gott eins og sést á meðfylgjandi myndum, sól og blíða á laugar- og sunnudeginum og fór hitinn í 19 stig. Bregður því eflaust mörgum í brún, nú í kuldakastinu að sjá krakkana synda í Eyrarvatni eins og væru þeir á sólarströnd.   

Kjörfundur og talning atkvæða vegna sveitarstjórnarkosninga

Kjörfundur vegna sveitarstjórnarkosninga verður haldinn laugardaginn 27. maí nk. Kjörstaður er í Samkomuhúsinu Grundarfirði. Kjörfundur stendur frá kl. 10.00 til kl. 22.00. Athygli er vakin á því að kjósendur geta þurft að gera kjörstjórn grein fyrir sér með því að framvísa persónuskilríkjum með mynd.   Talning atkvæða fer fram fyrir opnum dyrum í Samkomuhúsinu og hefst um það bil klukkustund eftir að kjörfundi lýkur. Hægt er að fylgjast með talningunni hér á vefnum, en bein útsending með vefmyndavél verður frá talningunni og hefst u.þ.b. klukkustund eftir að kjörfundi lýkur.   Grundarfirði, 23. maí 2006   F.h. kjörstjórnar Grundarfjarðarbæjar Bæjarstjórinn í Grundarfirði

Sumartími í sundlauginni nálgast

Frá og með mánudeginum 29. maí verður sundlaugin opin virka daga frá kl. 8-21 og kl. 12-17 um helgar.   Athugið að sundlaugin er lokuð í dag 22. maí vegna bilunar.

Innritun í Tónlistarskólann

Minnt er á að innritun í Tónlistarskólann stendur yfir til föstudagsins 26. maí.   Allir nemendur Tónlistarskólans og Grunnskólans hafa nú þegar fengið afhent umsóknareyðublöð en einnig má nálgast eyðublöðin í Hrannarbúðinni, Tónlistarskólanum og hjá ritara Grunnskólans.   Við hvetjum framhaldsskólanema sérstaklega til að skrá sig í Tónlistarskólann þar sem námið er metið til eininga í framhaldsskólum og eru nemendur í 8., 9. og 10. bekk einnig hvattir til að kynna sér þetta vel .   Vinsamlegast skilið umsóknum til bekkjakennara í Grunnskóla eða í Tónlistarskólann fyrir 26.maí n.k.   Nánari upplýsingar eru veittar í Tónlistarskólanum í síma 430 8560.   Þórður Guðmundsson skólastjóri  

Töfrar Íslands

Síðustu tvö ár hefur Snæfellsnesið verið kynnt undir slagorðinu Töfrar Íslands og er þar vísað til hins dulmagnaða og fjölbreytta landslags og náttúru sem þar er að finna. Í nýútkomnum kynningarbæklingi fyrir ferðamenn er Snæfellsnesi skipt upp í þrjú mismunandi svæði, nesið sunnan- og norðanvert og Útnesið þar sem Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er. Númerað kort af hverju svæði fyrir sig, svo og myndir sem sýna staðina sem verið er að vísa til hjálpa ferðamanninum, innlendum sem erlendum að velja þá staði og þau svæði sem þeir vilja helst skoða og kynna sér. Þórunn Sigþórsdóttir umhverfisfulltrúi Snæfellsness, Guðbjörg Gunnarsdóttir þjóðgarðsvörður, Dagný Þórisdóttir bæjarfulltrúi Stykkishólmi, Sigríður Finsen forseti bæjarstjórnar í Grundarfirði, Guðrún G. Bergmann hótelstjóri og ráðgjafi, Hrafnhildur Jóna Jónasdóttir hönnuður og Róbert A. Stefánsson líffræðingur.