Fundur með þingmönnum Norðvesturkjördæmis

Knúið hefur verið á um það, að þingmenn Norðvesturkjördæmis komi til fundar við bæjarfulltrúa og bæjarstjóra Grundarfjarðarbæjar vegna þess hvernig byggðarlagið var haft útundan í ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um mótvægisaðgerðir vegna skerðingar á þorskveiðiheimildum.  Stefnt er að því að slíkur fundur verði á morgun, fimmtudaginn 20. september kl. 09.00, í Hótel Hamri í Borgarbyggð.  Fundurinn verður haldinn þar vegna þess að þar verður aðalfundur Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi haldinn og hefst hann kl. 10.00.  Á fundi SSV verður einnig fjallað um kvótaskerðinguna.

Merkilegur fundur og tímamótaákvarðanir í bæjarráði Grundarfjarðarbæjar

Á fundi bæjarráðs Grundarfjarðarbæjar í gær, þ. 18. september, voru teknar ákvarðanir um mál sem munu marka nokkur tímamót í bæjarlífinu.  Í fyrsta lagi var ákveðið að ráða markaðsfulltrúa í þeim tilgangi að koma byggðarlaginu enn frekar "á kortið" eins og sagt er.  Markaðsfulltrúi mun sinna mörgum hliðum á almennri markaðssetningu byggðarinnar sem og mannlífi og starfsemi.  Í öðru lagi var samþykkt að ganga til samninga við ALTA ráðgjafarþjónustu um að fyrirtækið standi fyrir stefnumótun í ferðaþjónustu í Grundarfirði.  Vonir eru bundnar við það að slík stefnumótun muni leggja grunn að markvissri markaðssókn ferðaþjónustuaðila í byggðarlaginu til framtíðar.  Samþykkt var að hefja undirbúning að stofnun Vísindaseturs Breiðafjarðar sem hafi það að markmiði að vinna að rannsóknum og fræðslu um nýsköpun og auðlindastýringu á sviði náttúrufræða, m.a. jarðfræði með sjálfbæra þróun að markmiði.  Segja má að þessar tímamótaákvarðanir séu að hluta svar bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar við því að byggðarlagið var ekki haft með í ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um mótvægisaðgerðir vegna skerðingar á þorskveiðiheimildum.  Bæjarstjórnin mun sjálf leggja sig fram um að vinna sem best að mótvægisaðgerðum heima fyrir hvernig sem fer endanlega um aðgerðir ríkisvaldsins.

Rafmagnsleysi vegna vinnu við spennistöð

Vegna vinnu í spennistöð við Grundargötu 57, verður straumlaust  vestan Eyrarvegar og í vestari hluta Sæbóls frá miðnætti í kvöld til kl. 06:00 í fyrramálið.      

Pólskunámskeið -Dzien dobry!

Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi stendur fyrir námskeiði í pólsku frá 26. - 30. september.  Námskeiðið verður á Hellisandi en nánari staðsetningu og frekari upplýsingar fást hjá Símenntunarmiðstöðinni í Borgarnesi.

Handverksmenn frá Þýskalandi í heimsókn og vekja athygli fyrir sérstæðan klæðnað

  Þrír þjóðverjar komu í heimsókn í Grundarfjörð í vikunni.  Þessir þrír menn vinna sem farandverkamenn og eru að ferðast um heiminn.  Þeir komu við á bæjarskrifstofunni til þess að fá stimpil og kvittun fyrir því að þeir hafi komið til Grundarfjarðar.  Klæðnaðurinn hjá þeim er samkvæmt gamalli hefð í Þýskalandi.     

Nýr starfsmaður hjá Grundarfjarðarbæ

Í dag tók Ágúst Jónsson til starfa sem ráðsmaður hjá Grundarfjarðarbæ.  Staða ráðsmanns er að miklu leyti sama starf og kallað hefur verið umsjón eigna en með nokkurri skipulagsbreytingu þó.  Ráðsmaður verður með fasta viðveru í grunnskólanum meiri hluta dagsins og sinnir öðrum eignum bæjarins utan þess tíma.  Ágúst er boðinn velkominn til starfa og óskað velfarnaðar í störfum sínum.  Ágúst verður með sama símanúmer og verið hefur hjá umsjón eigna 863-6619.

Menningarráð Vesturlands auglýsir fund

Menningarráð Vesturlands auglýsir fund til þess að kynna menningarstyrki, ræða væntanleg hugðarefni ykkar og huga að verðugum verkefnum fyrir næsta ár á Vesturlandi. Elísabet Haraldsdóttir menningarfulltrúi Vesturlands verður með viðtalstíma mánudaginn 17. september kl. 14.00 - 15.00 á bæjarskrifstofu Grundarfjarðarbæjar og vonast hún til að sjá sem flesta.

Í kvöld verður Kveldúlfur endurvakinn!!

    Fyrsta sýning hjá Kveldúlfi verður í Eyrbyggju-Sögumiðstöð í kvöld kl. 20:30.  Myndin sem til umfjöllunar verður í kvöld heitir "The Adventures of Priscilla, Queen of the Desert".   Myndin er áströlsk og er frá árinu 1994.  Aðalleikarar eru Terence Stamp, Hugo Weaving og Guy Pearce.  GEGGJUÐ GRÍNMYND.  Allir velkomnir!!  

Málstofa um atvinnuþróun á vegum Vaxtarsamnings Vesturlands 18. september n.k.

Smart Regions developing a Knowledge Economy at the Periphery   Málstofa um atvinnuþróun Landnámssetrinu í Borgarnesi 18. september kl. 10.00-12.00   Fyrirlesari: Calum Davidson Sérfræðingur í þekkingarhagfræði Atvinnuráðgjöf Hálanda og skosku eyjanna  

Tilkynntar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar vekja undrun og vonbrigði í Grundarfirði

Bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar hefur sett á blað viðbrögð sín við fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar frá í gær um mótvægisaðgerðir vegna skerðingar á þorskveiðiheimildum.  Hér er hægt að nálgast greinina.