Doris Lessing - Nóbelsverðlaun 2007

Bókasafn Grundarfjarðar á þær 7 skáldsögur eftir Doris Lessing sem þýddar hafa verið á íslensku og að auki bókina Vinter in July á ensku. Lessing skrifar um reynsluheim kvenna og þykir hafa mjög sérstakan húmor. Bækur Doris Lessing og myndverkið Sýn eftir elstu börn Leikskólans Sólvöllum vorið 2001 en þá flutti bókasafnið í nýtt húsnæði ofan á vélaverkstæði Bærings. 

Fleiri mættu í Grundarfirði en í Reykjavík

 Af vef Skessuhorns: 12. október 2007 Í gærkvöldi hélt sautján manna stórsveit Samúels Samúelssonar fjölmenna “funk” tónleika í Fjölbrautaskólanum í Grundarfirði. Mikil stemning myndaðist meðal áhorfenda sem voru vel með á nótunum allt kvöldin og ekki spillti spilagleði stórsveitarinnar fyrir og var því sannkölluð ,,Fnyk” stemning í skólanum. Stórsveitin lék tónlist af nýútkomnum diski sínum sem heitir einmitt Fnykur. Samúel Jón Samúelson sagði í samtali við Skessuhorn að hann væri virkilega ánægður með viðtökurnar í Grundarfirði. “Hér komu miklu fleiri til að hlusta á okkur en á tónleikunum sem við héldum í Reykjavík kvöldið áður og þá er óþarfi að vera að vitna í neinar höfðatölur,” sagði Sammi.  

Tónleikar á fimmtudag.

Stórsveit Samma mætir til Grundarfjarðar og heldur tónleika í sal framhaldsskólans á fimmtudagskvöld. Samúel Samúelsson, kenndur við Jagúar, er stjórnandi þessarar sveitar sem hefur á að skipa 20 mjög svo færum hljóðfæraleikurum og leika þeir lög úr ýmsum áttum.   Tónleikarnir hefjast 20:00 og kostar aðeins 2000 kr. inn en framhaldsskólanemar og grunnskólanemar fá miðann á 1500 kr.

Laus staða slökkviliðsstjóra

Grundarfjarðarbær auglýsir eftir umsóknum um starf slökkviliðsstjóra.  Starfið er hlutastarf sem getur hentað vel með öðru starfi.  Ekki er um fastákveðinn vinnutíma að ræða en starfinu er sinnt eftir því sem þörf er fyrir hverju sinni.  Slökkviliðsstjóri þarf að hafa reynslu af starfi í slökkviliði.  Iðnmenntun eða vélstjórnarréttindi eru æskileg.  Slökkviliðsstjóri sér um að tæki og búnaður slökkviliðsins sé ætíð tiltækur og tilbúinn til notkunar.  Slökkviliðsstjóri sér um að slökkviliðið fái nauðsynlegar æfingar og að nægilegt lið sé tiltækt hverju sinni til þess að sinna útköllum.  Slökkviliðsstjóri er æðsti yfirmaður slökkviliðsins og stjórnar því á æfingum og í útköllum.  Helstu samráðsaðilar eru skipulags- og byggingafulltrúi og varaslökkviliðsstjóri.   Launakjör fara eftir kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

Svar við spurningu vikunnar

 Rétt svar við því hvenær íþróttahúsið var vígt er 14. október 1989. 132 svöruðu að þessu sinni og voru 54  eða 40,9% með rétt svar.

Er lögheimili þitt rétt skráð?

Þeir sem hafa flutt til Grundarfjarðar en ekki tilkynnt aðsetursskipti, eru hvattir til þess að gera það. Eyðublöð fást á bæjarskrifstofunni og einnig á vef Hagstofunnar, hagstofa.is   Atvinnurekendur eru jafnframt hvattir til að brýna fyrir utanbæjarfólki, sem þeir ráða til starfa, að tilkynna aðsetursskipti ef búseta þeirra er í Grundarfirði.   Nánari upplýsingar fást á bæjarskrifstofunni

Bæjarstjórnarfundur

84. fundur bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar verður haldinn í samkomuhúsinu fimmtudaginn 11. október 2007, kl. 16.15 og er öllum opinn.  Sjá dagskrá og fundarboð með því að smella hér.   

Vinna við fjárhagsáætlun 2008 hafin

Haldinn var samráðsfundur í dag með forstöðumönnum stofnana Grundarfjarðarbæjar, bæjarstjóra, skrifstofustjóra og aðalbókara um undirbúning og gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár.  Seinna í þessum mánuði munu liggja fyrir tillögur frá forstöðumönnum um rekstur og fjárfestingar í stofnununum á næsta ári.  Auglýst verður eftir styrkumsóknum og er rétt hjá þeim sem hafa hug á að sækja um að fylgjast með.  Það verður erill við þetta verkefni á næstu vikum hjá stjórnendum Grundarfjarðarbæjar.  Síðan kemur til kasta bæjarráðs og bæjarstjórnar við afgreiðslu á þeim tillögum sem fram verða lagðar. 

Starfsdagur hjá Leikskólanum

 Félag og skólaþjónusta Snæfellingar stóð fyrir sameiginlegu námskeiði fyrir allt starfsfólk leikskólanna á Snæfellsnesi þriðjudaginn 2. október í Samkomuhúsinu í Grundarfirði.   Fyrir hádegir var fjallað um mikilvægi þátttöku fullorðinna í leik barna. Fyrirlesari var Guðrún Alda Harðardóttir, dósent við Háskólann á Akureyri Eftir hádegi var umfjöllun um umhverfisvernd. Hagnýtur og fræðandi fyrirlestur um að lifa, hugsa og starfa vistvænt. Grunnfræðsla til að dýpka skilning starfsmannanna á mikilvægi umhverfisverndar Fyrirlesarar voru Sigrún Helgadóttir verkefnisstjóri Landverndar ,,Skólar á grænni grein". Grænfáninn og Rósa Erlendsdóttir deildarstjóri Lýsuhólsskóla

Starfsdagur hjá Grunnskólanum

Í gær þriðjudaginn 2. október var starfsdagur hjá öllum grunn- og leikskólum á Snæfellsnesi. Grunnskólakennarar komu saman hér í Grundarfirði og sátu námskeið sem nefnist Samvinnunám. Námskeiðið var á vegum Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga en veg og vanda af námskeiðinu hafði Rósa Eggertsdóttir kennsluráðgjafi frá Háskólanum á Akureyri. Samvinnunám byggir á þeim sjónarmiðum að nemendum farnist vel í námi þegar þeir; • vinna verkefni sem gerir samvinnu nauðsynlega • deila með sér hugmyndum og fá umræður um þær • skilja að hagsmunir þeirra fara saman við árangur annarra nemenda • hafa hver og einn sitt sérstæða gildi fyrir hópinn • þurfa að beita félagslegri fræni í samvinnu • meta sjálfir eigin framfarir, félagslegar og námslegar