Dósasöfnun UMFG

Ungmennafélagið stendur fyrir allsherjar dósasöfnun á morgun þriðjudaginn 29 júlí. Mæting kl 18 hjá Ragnar og Ásgeir. Gengið verður í öll hús í bæjarfélaginu og safnað dósum. Vinsamlegast takið vel á móti okkur.    Allir foreldrar og börn eru hvött til þess að mæta og leggja okkur lið.   Stjórn UMFG

Frjálsar íþróttir

Ólöf Erla og Álfheiður á Topp Í frjálsum íþróttum, þriðjud 22 júlí var tekin smá u-beygja og brugðu krakkarnir sér inn í Gröf og fengu að fara á hestbak.  Eldri hópurinn lenti í smá ævintýrum þar sem þau þurftu að byrja á því að ná í hrossin og koma þeim heim í hesthús.  Á leiðinni var kíkt á aliendurnar á bænum sem liggja sem fastast á og sáu krakkarnir að tvær voru búnar að unga út, önnur með 1 unga en hin með 9 stykki og voru þeir nýskriðnir úr eggjunum.  Þetta var ágætis tilbreyting þar sem flestir voru komnir með hugann við helgina og gaman að bregða sér í sveitaferð.    

Fjörumyndir á Hótel Framnesi

Frétt á vef Skessuhorns: Ein myndanna á sýningu Sverris.Grundfirðingurinn Sverrir Karlsson opnar ljósmyndasýningu á Hótel Framnesi að Nesvegi 6 í Grundarfirði í dag. Á sýningunni má finna á milli 10 og 20 myndir úr fjörunni á Kirkjufellssandi sem Sverrir tók síðastliðinn föstudag. Sverrir segist hafa verið með ljósmyndadellu frá því hann var í barnaskóla. "Ég á nokkuð gott safn orðið," segir hann. Kirkjufellssandur varð fyrir valinu vegna þess hversu falleg fjaran þar er. "Þarna er margt að finna eins og sjá má á myndunum á sýningunni." Um sölusýningu er að ræða og rennur hluti ágóðans til Grundarfjarðarkirkju. 

Barnahorn bókasafnsins

Barnadeild bókasafnsins hefur tekið nokkrum stakkaskiptum síðustu daga. Helga Soffía Gunnarsdóttir, brottfluttur Grundfirðingur, hefur gjörbreytt aðstöðunni fyrir börnin með myndefni, húsgögnum og uppstillingum. Börn og foreldrar sem og aðrir eru velkomnir að koma í hornið og kíkja í bækur í ævintýralegu umhverfi fimmtudaginn 24. júlí milli kl. 13 og 18. Áfram verður opið á fimmtudögum fram í miðjan ágúst þegar vetrartíminn byrjar. Sunna.    Sjá myndir.

Gulur, rauður, grænn og blár

Nú hefur tæknideildin útbúið kort af Grundarfirði með tilliti til hverfaskiptingar á bæjarhátíðinni. Kortið má nálgast hér.  

Garpur SH strandar.

Þrír sjómenn um borð í skelfiskbátnum Garpi SH, komust í hann krappann þegar báturinn strandaði á skeri í Breiðafirði, suðvestur af Reykhólum, á tíunda tímanum í gærkvöldi. Þeir sendu út neyðarkall, klæddu sig í flotgalla, blésu út björgunarbát og fóru um borð í hann. Útfall var og tók bátinn, sem er 15 tonna stálbátur, að halla mikið eftir því sem sjór féll undan honum. Skip þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum kom á vettvang, tók sjómennina um borð og náði skömmu síðar að draga bátinn af strandstað. Hann var svo dreginn til hafnar á Reykhólum í nótt og virðist ekki leka. Tildrög óhappsins eru óljós, en mikið er af skerjum í Breiðafirði.   Frétt af visir.is 

Aðalfundur Hollvinafélags Grundarfjarðar

Aðalfundur Hollvinafélags Grundarfjarðar verður haldinn laugardaginn 26. júlí næstkomandi á sumarhátíð Grundarfjarðarbæjar "Á góðri stund". Fundurinn verður haldinn í Sögumiðstöðinni klukkan 11:00 og eru núverandi og brottfluttir Grundfirðingar hvattir til að mæta og leggja fram hugmyndir um áframhaldandi starfsemi félagsins.   Stjórn Eyrbyggja 

Opnun listsýningar í Norska húsinu

Ragnhildur Þóra Ágústsdóttir opnar myndlistasýninguna  „Leit sankti Húberts“  í Norska húsinu í Stykkishólmi, laugardaginn 12. júlí n.k. kl. 13.30.      

Fólkið, fjöllin og fjörðurinn

Fólkið, fjöllin og fjörðurinn 8 bókin í þessum vinsæla bókaflokki er komin út , í henni kennir ýmisa grasa, mikið af gömlum myndum og fl. Núna næstkomandi daga verður gengið í hús að selja bókina, þeir sem ekki eru heima þegar sölufólk bankar uppá geta nálgast bókina hjá Þórunni og á skrifstofu verkalýðsfélagsins. Og að sjálfsögðu verður hún til sölu á hátíðarsvæðinu Á Góðri Stund.  

Le Diamant heimsækir Grundarfjörð

Skemmtiferðaskipið Le Diamant leggur að bryggju í Grundarfirði þriðjudaginn 15. júlí klukkan 14:30. Þetta skip er í nettari kantinum, aðeins 8.282 tonn og 124 metrar á lengd. Það eru 157 í áhöfn og 198 farþegar, en skipið tekur 226 farþega alls.                                               Skipið er smíðað í Noregi 1976 og er í eigu Compagnie des Isles du Ponant/Tapis Rouge í Frakklandi. Fyrstu árin hét skipið Begonia og var ferja en 1986 var því breytt í skemmtiferðaskip og sama ár var farin fyrsta ferðin farin.   Skipið er fjögurra stjörnu skemmtiferðaskip og er hugsað fyrir frönskumælandi pör og einstaklinga sem eru ungir í anda. Um borð er topp aðstaða að flestu leyti en sérstaðan er hversu smátt skipið er. Einkunnarorð Le Diamant eru glæsileiki og fágun.   Skipið heimsótti Grundarfjörð fyrst árið 2005 og hefur komið reglulega síðan.