Úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2007/2008

Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um byggðakvóta til fiskiskipa fyrir eftirtalin byggðarlög, samkvæmt reglugerð um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa nr. 605, 24. júní 2008 , auk sérstakra úthlutunarreglna í hlutaðeigandi byggðalögum sbr. auglýsingu nr. 731/2008 í Stjórnartíðindum. Grundarfjarðarbær ( Grundarfjörður)Stykkishólmsbær (Stykkishólmur)Húnaþing vestra (Hvammstangi)Dalvíkurbyggð ( Hauganes og Árskógssandur)Akureyrarbær (Hrísey) Umsóknum skal skilað til Fiskistofu á eyðublaði sem er að finna hér. Umsóknarfrestur er til og með 8. ágúst 2008. Auglýsing af vef Fiskistofu. 

Bilun í skrúfubúnaði breytir áætlun Queen Elizabeth II.

Þær leiðu fregnir bárust í dag að Queen Elizabeth II. treysti sér ekki til þess að sigla inn á Grundarfjörð vegna bilunar í hliðarskrúfu.  Þetta átti að verða í fyrsta og síðasta sinn sem skipið hefði viðkomu í Grundarfirði svo það eru mikil vonbrigði að svona skildi fara.  Að mati skipstjórans er ekki öruggt að sigla skipi af þessari stærð inn á fjörðinn nema að allur búnaður þess sé í lagi.  Von var á skipinu til Grundarfjarðar þ. 4. ágúst n.k. en af því verður sem sagt ekki.

MV Funchal heimsækir Grundarfjörð

Skemmtiferðaskipið MV Funchal leggur að bryggju í Grundarfirði klukkan sjö að morgni miðvikudagsins 30. júlí. Skipið er 153,5 metrar að lengd og 9.563 tonn.  Í áhöfn eru 155 og farþegar 524, en skipið tekur mest 582 farþega. Flestir farþeganna eru frá Frakklandi og Þýskalandi.                                       Skipið er smíðað í Danmörku árið 1961 og sigldi í upphafi með póst og farþega en var síðan breytt í skemmtiferðaskip árið 1972. Á sér langa og spennandi sögu en þar ber hæst að hafa verið nýtt sem forsetasnekkja í Portúgal við heimsóknir. Andrúmsloftið um borð er þægilegt og vingjarnlegt og áhöfnin samstillt.   Sýning móttökuhóps Grundarfjarðarhafnar hefst á planinu við Sögumiðstöðina klukkan 15:00.   MV Funchal hefur heimsótt Grundarfjörð oft í gegnum tíðina og er komin hefð fyrir því að áhöfnin keppi við heimamenn í fótbolta. Hefst leikurinn klukkan 16:00. Allir á völlinn!  

Dósasöfnun UMFG

Ungmennafélagið stendur fyrir allsherjar dósasöfnun á morgun þriðjudaginn 29 júlí. Mæting kl 18 hjá Ragnar og Ásgeir. Gengið verður í öll hús í bæjarfélaginu og safnað dósum. Vinsamlegast takið vel á móti okkur.    Allir foreldrar og börn eru hvött til þess að mæta og leggja okkur lið.   Stjórn UMFG

Frjálsar íþróttir

Ólöf Erla og Álfheiður á Topp Í frjálsum íþróttum, þriðjud 22 júlí var tekin smá u-beygja og brugðu krakkarnir sér inn í Gröf og fengu að fara á hestbak.  Eldri hópurinn lenti í smá ævintýrum þar sem þau þurftu að byrja á því að ná í hrossin og koma þeim heim í hesthús.  Á leiðinni var kíkt á aliendurnar á bænum sem liggja sem fastast á og sáu krakkarnir að tvær voru búnar að unga út, önnur með 1 unga en hin með 9 stykki og voru þeir nýskriðnir úr eggjunum.  Þetta var ágætis tilbreyting þar sem flestir voru komnir með hugann við helgina og gaman að bregða sér í sveitaferð.    

Fjörumyndir á Hótel Framnesi

Frétt á vef Skessuhorns: Ein myndanna á sýningu Sverris.Grundfirðingurinn Sverrir Karlsson opnar ljósmyndasýningu á Hótel Framnesi að Nesvegi 6 í Grundarfirði í dag. Á sýningunni má finna á milli 10 og 20 myndir úr fjörunni á Kirkjufellssandi sem Sverrir tók síðastliðinn föstudag. Sverrir segist hafa verið með ljósmyndadellu frá því hann var í barnaskóla. "Ég á nokkuð gott safn orðið," segir hann. Kirkjufellssandur varð fyrir valinu vegna þess hversu falleg fjaran þar er. "Þarna er margt að finna eins og sjá má á myndunum á sýningunni." Um sölusýningu er að ræða og rennur hluti ágóðans til Grundarfjarðarkirkju. 

Barnahorn bókasafnsins

Barnadeild bókasafnsins hefur tekið nokkrum stakkaskiptum síðustu daga. Helga Soffía Gunnarsdóttir, brottfluttur Grundfirðingur, hefur gjörbreytt aðstöðunni fyrir börnin með myndefni, húsgögnum og uppstillingum. Börn og foreldrar sem og aðrir eru velkomnir að koma í hornið og kíkja í bækur í ævintýralegu umhverfi fimmtudaginn 24. júlí milli kl. 13 og 18. Áfram verður opið á fimmtudögum fram í miðjan ágúst þegar vetrartíminn byrjar. Sunna.    Sjá myndir.

Gulur, rauður, grænn og blár

Nú hefur tæknideildin útbúið kort af Grundarfirði með tilliti til hverfaskiptingar á bæjarhátíðinni. Kortið má nálgast hér.  

Garpur SH strandar.

Þrír sjómenn um borð í skelfiskbátnum Garpi SH, komust í hann krappann þegar báturinn strandaði á skeri í Breiðafirði, suðvestur af Reykhólum, á tíunda tímanum í gærkvöldi. Þeir sendu út neyðarkall, klæddu sig í flotgalla, blésu út björgunarbát og fóru um borð í hann. Útfall var og tók bátinn, sem er 15 tonna stálbátur, að halla mikið eftir því sem sjór féll undan honum. Skip þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum kom á vettvang, tók sjómennina um borð og náði skömmu síðar að draga bátinn af strandstað. Hann var svo dreginn til hafnar á Reykhólum í nótt og virðist ekki leka. Tildrög óhappsins eru óljós, en mikið er af skerjum í Breiðafirði.   Frétt af visir.is 

Aðalfundur Hollvinafélags Grundarfjarðar

Aðalfundur Hollvinafélags Grundarfjarðar verður haldinn laugardaginn 26. júlí næstkomandi á sumarhátíð Grundarfjarðarbæjar "Á góðri stund". Fundurinn verður haldinn í Sögumiðstöðinni klukkan 11:00 og eru núverandi og brottfluttir Grundfirðingar hvattir til að mæta og leggja fram hugmyndir um áframhaldandi starfsemi félagsins.   Stjórn Eyrbyggja