Breytt fyrirkomulag innheimtu hjá Grundarfjarðarbæ

Grundarfjarðarbær hefur síðustu ár verið með samning við innheimtufyrirtækið Motus vegna innheimtu fasteignagjalda. Með samningi þessum hefur náðst góður árangur, greiðsluhraði aukist og öryggi innheimtu orðið meiri. Ákveðið hefur verið að stíga enn frekari skref í innheimtu gjalda hjá Grundarfjarðarbæ. Frá 1. september mun innheimta annarra gjalda bæjarins einnig fara í gegnum Motus, séu þau ekki greidd innan eðlilegs greiðslufrests. Þetta er í samræmi við Innheimtureglur Grundarfjarðar.Gert er ráð fyrir að meirihluti greiðenda muni ekki finna fyrir þessari breytingu. Markmið Grundarfjarðarbæjar er að auka öryggi innheimtu og greiðsluhraða með þessari breytingu, auk þess að gæta jafnræðis meðal íbúa.   Vonast er til að breytt fyrirkomulag verði til hagsbóta fyrir alla og að viðskiptavinir verði ekki fyrir óþægindum vegna breytinganna. Vakni upp spurningar vegna þessa er viðskiptavinum bent á að hafa samband við bæjarskrifstofu.  

Kynningarfundur 3. september

Miðvikudaginn 3. september ætlar fulltrúi Evrópu og unga fólksins að koma til okkar á Snæfellsnesið og vera með kynningu á starfsemi skrifstofunnar.Evrópa unga fólksins er rekin af Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ) í samstarfi við Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Hlutverk skrifstofunnar er að veita styrki til æskulýðsgeirans á Íslandi úr Erasmus+ sem er mennta- æskulýðs- og íþróttaáætlun ESB.Þetta er kjörin kynning fyrir alla þá sem er að vinna með ungu fólki. Hér eru mög skemmtileg tækifæri sem okkur gætu mögulega boðist. Fyrirlesturinn verður í Bæringsstofu kl. 16:00 næstkomandi miðvikudag, 3. september. Látum þetta gjarnan berast til allra þeirra sem gætu haft gagn og gaman af.

Háskólalestin brunar á Snæfellsnes

Háskólalest Háskóla Íslands leggur brátt af stað á Snæfellsnes með fjölbreytta dagskrá fyrir alla aldurshópa. Lestin á tuttugu ferðir að baki og hefur farið víða um land við miklar vinsældir. Í ferðum Háskólalestarinnar er lögð er áhersla á lifandi og litríka dagskrá fyrir alla fjölskylduna og eru allir viðburðir ókeypis. Lestin verður á Snæfellsnesi dagana 29. og 30. ágúst, í Ólafsvík og Grundarfirði.  

Fjölbrautaskóli Snæfellinga óskar eftir að ráða í ræstingar.

Mig vantar vaskan starfsmann/starfsmenn til að þrífa hluta af skólanum. Vinnan gæti hentað tveimur samhentum einstaklingum. Umsóknarfrestur er til 31. ágúst 2014.   Um er að ræða 50% stöðu. Vinnutími eftir samkomulagi. Laun greiðast eftir kjarasamningi SFR og fjármálaráðherra.   Umsóknir  berist Ólafi Tryggvasyni, Grundargötu 44, 350 Grundarfirði eða á netfangið olafur@fsn.is Umsóknir þurfa ekki að vera á sérstökum eyðublöðum. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.   Nánari upplýsingar gefur Ólafur Tryggvason húsvörður, sími: 891-8401, netfang: olafur@fsn.is eða skólameistari Jón Eggert Bragason sími: 8917384,netfang:joneggert@fsn.is   Skólameistari  

Ragnhildur Sigurðardóttir verður framkvæmdastjóri Svæðisgarðsins Snæfellsness

Framkvæmdastjórn   Svæðisgarðsins Snæfellsness hefur ákveðið að ráða Ragnhildi Sigurðardóttur, umhverfisfræðing, framkvæmdastjóra hins nýstofnaða Svæðisgarðs. Alls bárust 23 umsóknir um starfið.  

Frá Tónlistarskóla Grundarfjarðar

Kennsla hefst samkvæmt stundaskrám mánudaginn 1. september næstkomandi.   Skólastjóri.   Heimasíða Tónlistarskólans.  

Sundlaug Grundarfjarðar

Heitu pottarnir verða opnir í dag frá 16:00 til 19:00. Sundlaugin verður opin en hitin á henni er ekki nema 24 gráður. Á morgun verður opið samkvæmt haustdagskrá.   

Augnlæknir og háls,-nef og eyrnalæknir

Guðrún Guðmundsdóttir augnlæknir verður með móttöku á heilsugæslustöðinni, fimmtudaginn  4. september n.k. Tekið er á móti  tímapöntunum á   Heilsugæslustöð Grundarfjarðar í síma: 432-1350   Þórir Bergmundsson háls,- nef og eyrnalæknir verður með móttöku á Heilsugæslunni Grundarfirði föstudaginn 12. september  n.k. Tekið er á móti tímapöntunum á Heilsugæslustöð Grundarfjarðar, í síma 432 1350    

Grunnskólinn settur í sjötugasta sinn

Grunnskóli Grundarfjarðar var settur í dag 22. ágúst. Þetta er í sjötugasta skiptið sem skólinn er settur en starfsemin hófst árið 1944. Skólasetningin í ár var frábrugðin öðrum setningum að því leiti að nú taka við nýir skólastjórnendur; Gerður Ólína Steinþórsdóttir, skólastjóri og Ásdís Snót Guðmundsdóttir aðstoðarskólastjóri. Bæjarstjórinn, Þorsteinn Steinsson,bauð þær Gerði og Ásdísi velkomnar til starfa og færði þeim blóm.  

Haustopnun sundlaugar

Haustopnun sundlaugar verður sem hér segir: Mánudaga - fimmtudaga frá kl. 07:00 - 08:00 og kl. 16:00 - 19:00 Föstudaga frá kl. 07:00 - 08:00  Gildir frá 25. ágúst.