Haldið verður áfram að leita að heitu vatni

Haldinn var samráðsfundur bæjarstjórnar og fulltrúa frá Orkuveitu Reykjavíkur um heitavatnsleit fimmtudaginn 17. janúar sl.  Á fundinum komu fram upplýsingar um stöðu málsins og upplýst var um hver næstu skref verða í leit að heitu vatni.  Boraðar verða hitastigulsholur í Hraunsfirði eftir nokkrar vikur til þess að kortleggja betur sprungusvæði þar.  Vonast er til þess að staður fyrir borun vinnsluholu verði fundinn þegar kemur lengra fram á árið.  Orkuveitan gaf út fréttatilkynningu um stöðuna og má nálgast hana hér. 

Fyrsta skóflustunga að byggingu Snæfellingshallarinnar

                                Föstudaginn 18. janúar sl. var tekin fyrsta skóflustunga að byggingu reiðhallar Snæfellingshallarinnar ehf.  Reiðhöllin verður byggð fyrir styrk frá ríkinu, hlutafjárframlag Grundarfjarðarbæjar og hlutafjárframlög frá Hesteigendafélags Grundarfjarðar o.fl.  Styrkurinn frá ríkinu er sams konar og aðrar reiðhallir eru byggðar fyrir víða um landið.  Fyrsta skóflustunguna tók bæjarstjórinn Guðmundur Ingi Gunnlaugsson og síðan var boðið til kaffisamsætis í félagsheimili Hesteigendafélags Grundarfjarðar, Fákaseli.   Hér má sjá fleiri myndir frá athöfninni.

Hópleikur 1x2

Hér fyrir neðan er staðan í hópleiknum eftir leiki helgarinnar. 

Félag eldri borgara

Vegna undirbúnings þorrablóts Hjónaklúbbsins verður fyrsta spilakvöld ársins fimmtudagskvöldið 24. janúar klukkan 20:00 í Fákaseli. Fimmtudagskvöldið 7. febrúar verður spilað í samkomuhúsinu klukkan 20:00   Þorrablót eldri borgara verður svo haldið þann 9. febrúar.   Við minnum á leikfimina á þriðjudögum og fimmtudögum klukkan 10:30 og handavinnuna á þriðjudögum klukkan 14:00.

Útblástur bíla og gangandi vegfarendur

Viljum minna fólk á að drepa á bílum sínum meðan skroppið er inn í búð eða annað. Að skilja bíla eftir í gangi veldur mikilli mengun og þá sérstaklega fyrir gangandi fólk. Einnig er þörf ábending til bílstjóra að leggja bílum sínum ekki upp á gangstéttir eða þannig að gangandi vegfarendur lendi í erfiðleikum með að komast ferða sinna. Sérstaklega þessa dagana meðan snjórinn er og færðin slæm fyrir gangandi vegfarendur 

Virðum bílastæði fatlaðra

Af gefnu tilefni er fólk hvatt til þess að virða rétt fatlaðra að aðgengi íþróttahússins. Borið hefur á því að lagt sé í bílastæði fatlaðra sem er sérmerkt þeim. Sýnum lágmarks kurteisi og virðum þennan sjálfsagða rétt.   

Hópleikurinn 1 x 2

Hér fyrir neðan má sjá leikina í deildarkeppni 1 x 2. Úrslitin í umferð eitt og tvo og hverjir spila við hverja i umferð þrjú og fjögur. 1. deild 2. deild

Könnun á þörf fyrir þriggja fasa rafmagn

Um þessar mundir er verið að kanna áhuga og þörf fyrir þriggja fasa rafmagn á býlum í ábúð.  Sent hefur verið bréf til ábúenda og þeir eru beðnir um að hafa samband við skipulags- og byggingafulltrúa Grundarfjarðarbæjar og gera grein fyrir því hvort þörf er fyrir þrífösun.  Könnun þessi er gerð fyrir iðnaðarráðuneytið sem hyggst móta aðgerðaáætlun í framhaldinu.   Athugið að skila þarf upplýsingum til iðnaðarráðuneytisins fyrir 1. febrúar n.k. svo koma þarf ábendingum til skipulags- og byggingafulltrúa í síðustu viku janúar. 

Innkaupareglur Grundarfjarðarbæjar.

Innkaupareglur Grundarfjarðarbæjar voru samþykktar á bæjarstjórnarfundi þann 10. janúar 2007. Þeim er ætlað að stuðla að vönduðum og hagkvæmum innkaupum Grundarfjarðarbæjar og tryggja gæði, þjónustu og verka sem bærinn kaupir.  Ennfremur að stuðla að því að Grundarfjarðarbær hagi innkaupum sínum í samræmi við góða viðskiptahætti og tryggja að stjórnsýsla á sviði innkaupa sé vönduð. Innkaupareglur Grundarfjarðarbæjar er hægt að skoða með því að fara inn á stjórnsýsla og síðan reglur og samþykktir.  

Nýr starfsmaður á skrifstofu Grundarfjarðarbæjar

Ráðið hefur verið í stöðu þjónustufulltrúa á skrifstofu Grundarfjarðarbæjar.  Kristín Pétursdóttir sem gegnt hefur þeirri stöðu undanfarið hefur tekið við starfi aðalbókara og ritara.  Í starf þjónustufulltrúa hefur verið ráðin Arna Hildur Pétursdóttir og er hún boðin velkomin til starfa.  Arna Hildur starfaði áður í útibúi Kaupþings í Grundarfirði sem gjaldkeri.