Starf þjónustufulltrúa

Grundarfjarðarbær auglýsir starf þjónustufulltrúa á skrifstofu bæjarins laust til umsóknar.   Þjónustufulltrúi annast öll almenn skrifstofustörf, svo sem móttöku og afgreiðslu erinda, símsvörun, ljósritun, innskráningu reikninga, aðstoð við viðhald á heimasíðu sveitarfélagsins, aðstoð og upplýsingagjöf til íbúa og annarra,   meðferð fundagagna og aðstoð við undirbúning funda.  Vinnutími er á opnunartíma skrifstofunnar, þ.e. mánudaga til fimmtudaga kl. 09.30 - 15.30 og föstudaga kl. 09.30 - 14.00.  

Akstur á vélsleðum yfir íþróttavöllinn er óheimill

Nokkuð hefur borið á því eftir að við fengum snjóinn að vélsleðamenn aki yfir íþróttavöllinn á vélfákum sínum.  Því er eindregið beint til þeirra sem aka um á vélsleðum að láta íþróttavöllinn í friði.  Akstur á vellinum getur valdið skaða á honum og það er óþarfi að lenda í slíku.  Stöndum saman um að verja íþróttavöllinn fyrir öllum skemmdum. 

Fimmta útskrift Fjölbrautaskóla Snæfellinga

 Af heimasíðu Skessuhorns: Ísak Hilmarsson Föstudaginn 21. desember útskrifaði Fjölbrautaskóli Snæfellinga ellefu nemendur  með stúdentspróf, þar af luku 6 nemendur stúdentsprófi á þremur og hálfu ári. Við upphaf útskriftarathafnar fluttu Hólmfríður Friðjónsdóttir, kennari við skólann og Diljá Dagbjartsdóttir, nemandi nokkur jólalög á flygil og þverflautu. Síðar við athöfnina flutti Viktoria Kay, nýstúdent Preludiu í C-major eftir Johan Sebastian Bach á flygilinn. Valgerður Ósk Einarsdóttir dönskukennari kvaddi nýstúdenta fyrir hönd starfsfólks skólans og því næst flutti Ísak Hilmarsson, nýstúdent kveðjuávarp til starfsfólks. Að lokum veitti Guðbjörg Aðalbergsdóttir, skólameistari Birni Ásgeiri Sumarliðasyni viðurkenningu fyrir störf sín á þágu Nemendafélags Fjölbrautaskóla Snæfellinga en hann var fyrsti forseti þess.

Viðurkenning til Kvenfélagsins Gleym mér ei

Kvenfélagið  Gleym-mér ei í Grundarfirði fagnar í ár 75 ára afmæli félagsins.  Á jólafundi félagsins fimmtudaginn 6. desember sl. afhenti Þorey Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Grundarfjarðarbæjar, Mjöll Guðjónsdóttur, formanni kvenfélagsins, viðurkenningarskjal frá bæjarstjórn.  Í skjalinu stendur  „Kvenfélagið Gleym mér ei 1932-2007.  Viðurkenning og þakkir fyrir ómetanleg störf að samfélagslegum málefnum  og fórnfýsi  félagskvenna í þágu samborgaranna í 75 ár.“   Nokkrar myndir frá jólafundinum og afhendingu viðurkenningarskjalsins eru hér

Vel heppnaðir jólatónleikar Tónlistarskóla Grundarfjarðar

Jólatónleikar Tónlistarskóla Grundarfjarðar voru haldnir sunnudaginn 16. desember sl. í húsnæði Félagsmiðstöðvarinnar Eden.  Tónleikarnir voru afar vel sóttir og var húsið yfirfullt.  Nemendur og kennarar tónlistarskólans léku margvísleg lög fyrir gesti  við góðar undirtektir í huggulegri stemmingu yfir súkkulaðibolla og smákökum.   Nokkrar myndir frá tónleikunum má nálgast hér. 

Jólaandi hjá starfsfólki leikskólans

Starfsfólk leikskólans Sólvalla afþakkaði jólagjöf frá Grundarfjarðarbæ en mun í staðinn gefa andvirði gjafanna til góðs málefnis.  

Sorphirðudagar í desember 2007 og janúar 2008

Sorphirðudagar eru eftirfarandi um jól og áramót og í janúar 2008:   Hreinsað verður fimmtudagana 20. og 27. desember 2007. Hreinsað verður fimmtudaginn 3. janúar, mánudaginn 14. janúar og fimmtudaginn 24. janúar 2008.   Sorphirðudagatal fyrir árið 2008 í heild verður sett inn á heimasíðuna þegar verktakinn hefur lokið við að skipuleggja þá.

Bæjarstjórn Grundarfjarðar skorar á ríkisstjórnina

 Á bæjarstjórnarfundi í gær, 18. desember var samþykkt eftirfarandi ályktun sem kallar eftir tafarlausum aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna skerðingar þorskveiðikvótans:   “Bæjarstjórn Grundarfjarðar kallar eftir tafarlausum aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að bæta fjárhagsstöðu Grundarfjarðarbæjar sem sér fram á tekjumissi vegna ákvörðunar um að skerða þorskveiðar um þriðjung. Í mörg ár hafa fulltrúar sveitarfélaga rætt um að þau þyrftu meira fé til að framfylgja skyldum og verkefnum sínum í nútíma samfélagi.  Allra síðustu ár hefur komið enn skýrar í ljós mikill aðstöðumunur sveitarfélaga á landsbyggðinni samanborið við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Sérstök framlög úr Jöfnunarsjóði duga skammt til að leiðrétta þetta ójafnvægi. Ríkið stendur ekki við sínar skuldbindingar t.d. um að greiða 60% í uppbyggingu framhaldsskóla og umframkostnaður lendir á sveitarfélögum.  

Bæjarstjórnarfundur

87. fundur bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar verður haldinn í samkomuhúsinu þriðjudaginn 18. desember 2007, kl. 16.15 og er öllum opinn.  Sjá dagskrá og fundarboð með því að smella hér.   

Sækja þarf á ný um húsaleigubætur

 Þeir sem fengið hafa húsaleigubætur á árinu 2007 þurfa að sækja um á ný í janúar 2008 ef þeir hyggjast fá húsaleigubætur áfram á næsta ári.  Umsóknareyðublöð er hægt að nálgast á heimasíðu Grundarfjarðarbæjar og á skrifstofu bæjarins á opnunartíma sem er kl. 09.30 - 15.30 mánudaga til fimmtudaga og kl. 09.30 - 14.00 á föstudögum.