OR leggur hitaveitu og kaupir vatnsveitu Grundarfjarðar

Orkuveita Reykjavíkur hefur keypt vatnsveitu Grundarfjarðar og mun leggja hitaveitu í bænum á næsta ári. Orkuveitan mun taka við rekstri vatnsveitunnar um næstu áramót, en taka þegar við verkefnum sem varða byggingu hitaveitunnar, sem verið hefur í undirbúningi.  Áætlað er að húsahitunarkostnaður hér í Grundarfirði lækki um 40 – 50% að meðaltali,  en hér er nú hitað með rafmagni.  

Hverfisvæn leið

Í dag var hafist handa við að steypa kantsteina við Grundargötu. Kantsteinarnir eru hluti af hverfisvænni leið sem Vegagerðin bauð út sl. vor og kynnt hefur verið fyrir bæjarbúum. Dodds ehf. sér um verkið en Bæjarverk frá Akureyri sér um að steypa kantsteinana. Byrjað var við austanverða Grundargötu og er áætlað að lokið verði við að steypa kantsteina seinni part vikunnar.

Rökkurdagar 2005

Rósa Guðmundsdóttir, nýráðinn framkvæmdastjóri menningarhátíðarinnar Rökkurdaga, hefur hafið störf og er skipulagning Rökkurdaga komin á fullt skrið. Grundfirðingar hafa tekið vel í og þegar hafa nokkrir menningaratburðir verið skráðir í dagskrá Rökkurdaga.  

Opnun tilboða í sérleyfi og skólaakstur

Í gær, 15. september, voru opnuð hjá Ríkiskaupum tilboð í áætlunarakstur á sérleyfisleiðum á tilteknum þjónustusvæðum á landinu, boðið út fyrir hönd Vegagerðarinnar, og í skólaakstur m.a. fyrir Fjölbrautaskóla Snæfellinga á árunum 2006-8. Hægt er að finna fundargerð opnunarfundar á vef Ríkiskaupa með því að smella hér.    

Framkvæmdarstjóri ráðinn fyrir Rökkurdaga 2005

Rósa Guðmundsdóttir hefur verið ráðin til að skipuleggja menningarhátíðina Rökkurdaga sem haldin verður í lok október byrjun nóvember næst komandi.  

59. bæjarstjórnarfundur

Fyrsti fundur bæjarstjórnar eftir sumarleyfi verður haldinn, 15. september kl. 17.00 í samkomuhúsinu. Á dagskrá eru m.a. fundargerðir nefnda og ráða, rekstraryfirlit, kynningarbæklingur og skipan kjörnefndar vegna sameiningarkosninga 8. október n.k., tillaga um val á arkitektastofu til að taka að sér skipulagsverkefni, umræða um veitumálefni og kl. 18 á fundinum verður kynning á drögum að aðalskipulagi dreifbýlis. Fundurinn er öllum opinn.   Bæjarstjóri  

Sinfóníuhljómsveit Íslands í Snæfellsbæ

Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur tónleika í Félagsheimilinu á Klifi í Snæfellsbæ í kvöld klukkan 20.00. Miðasala verður við innganginn. Á  þessum tónleikum mun hornleikarinn Stefán Jón Bernharðsson leika einleik, en hljómsveitarstjórinn Bernharður Wilkinson er faðir hans.    

Framkvæmdir við hitaveitu

Nú í vikunni á að fara að setja djúpdælu niður í borholuna á Berserkseyri, sem mun dæla upp vatni næstu mánuði, til að sannreyna hver afköst holunnar verða í sekúndulítrum en vonast er til að holan gefi um 25 – 30 ltr/sek.  Til að hægt sé að athafna sig við að koma dælunni niður verður að "kæfa" vatnsrennsli uppúr holunni, enda rennur nú uppúr henni um 5 sekúndulítrar af 75 gráðu heitu vatni. Þetta er gert með svokölluðum saltpækli, sem dælt er niður í holuna og við það mun rennsli uppúr henni stöðvast tímabundið. 

Tónlistarskólinn fullmannaður

Ráðið hefur verið í allar stöður í Tónlistarskóla Grundarfjarðar. Þórður Guðmundsson, sem ráðinn var skólastjóri í námsleyfi Friðriks Vignis, mun sjá um kennslu á píanó, hljómborð og bassa. Aðrir kennarar eru Ari Einarsson sem sér um gítarkennslu og Baldur Orri Rafnson sem kennir á slagverk og tónfræði auk þess að deila forskólakennslu með Arnhildi Þórhallsdóttur.

Kjörskrá - sameiningarkosningar

Þann 8. október n.k. verður kosið um sameiningu fimm sveitarfélaga á Snæfellsnesi, skv. tillögu sameiningarnefndar sem skipuð var af félagsmálaráðherra. Um kosningarnar, kjörskrár o.fl. fer skv. lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998.