Viltu skipuleggja hátíð?

Fræðslu- og menningarmálanefnd leitar eftir skipuleggjanda fyrir menningarhátíðina Rökkurdaga, sem haldin verður í annað sinn í október-nóvember n.k. Leitað er að einstaklingi til að sjóða saman dagskrá hátíðarinnar, skipuleggja og kynna menningarviðburði, eiga samskipti við listamenn, staðarhaldara/veitingahús, o.fl. Lögð er áhersla á að virkja íbúa til þátttöku og undirbúnings. Áhugasamir hafi samband við Björgu Ágústsdóttur bæjarstjóra (sími 430 8500 eða bjorg@grundarfjordur.is) í síðasta lagi 4. september n.k.   Bæjarstjóri

Íbúð eldri borgara

Grundarfjarðarbær auglýsir lausa til umsóknar kaupleiguíbúð (íbúð eldri borgara) að Hrannarstíg 18. Íbúðin er 57,5 m2 að stærð og verður laus til innflutnings í október. Um er að ræða kaupleigufyrirkomulag, þar sem búseti/leigutaki greiðir eignarhlut í íbúðinni og fasta leigu á mánuði. Umsóknarfrestur er til mánudagsins 12. september n.k. og liggja eyðublöð frammi á bæjarskrifstofu. Hægt er að fá eyðublöð send í pósti eða tölvupósti.   

Allir flokkar UMFG lokið keppni.

Addi þjálfari, Sigurrós,Laufey,Dagfríður,Helga Rut,Lilja, Lilja Björk,Hanna,Silja Rán, Silja,Bryndís og Sunna.                                            Um síðustu helgi tók 4. fl kv þátt í úrslitakeppni íslandsmótsins sem haldin var á Ólafsfirði. Stelpurnar stóðu sig með ágætum og höfnuðu í 4. sæti. Nú hafa öll lið UMFG lokið keppni á íslandsmótinu í fótbolta. 4.fl ka hafnaði í 2 sæti í sínum riðli og munaði 3 stigum á þeim og efsta liði riðilsins. 3. fl kv varð í 6. sæti í riðlinum með 3 stig. 5.fl tók einnig þátt á íslandsmótinu í sumar strákarnir lentu í neðsta sæti riðilsins. Riðlakeppnin í 6. flokki fór fram í Grundarfirði fyrr í sumar og áttum við þar bæði A og B lið. A liðið varð í öðru sæti í sínum riðli og B liðið í þriðja sæti. Það er ekki hægt að segja annað en til hamingju krakkar þetta er mjög góður árangur hjá ykkur öllum.

63. Stjórnarfundur

63. Stjórnarfundur Eyrbyggja 23. ágúst 2005 kl. 20:00 í Lágmúla 6 í Reykjavík.   Viðstaddir:  Bjarni Júlíusson,Orri Árnason, Hermann Jóhannesson, GuðlaugurÞór Pálsson, Hrafnhildur Pálsdóttir, Benedikt Gunnar Ívarsson, Ásthildur Kristjánsdóttir.    

Framkvæmdir hafnar við hverfisvæna leið

Eins og glöggir vegfarendur hafa tekið eftir eru hafnar framkvæmdir við öryggisaðgerðir á Grundargötu. Verkið er á vegum vegagerðarinnar og mun hún m.a. sjá um framkvæmdaeftirlit, en verktaki er Dodds ehf. úr Grundarfirði.  Verklok eru 25. september en malbikslögn verður þó frestað þar til á næsta ári. Á bæjarskrifstofu Grundarfjarðar hanga uppi teikningar af verkinu í heild sinni og geta áhugasamir kynnt sér framkvæmdirnar þar nánar. 

Sameiningarkosningar 8. október

Þann 8. október nk. verður kosið um sameiningu fimm sveitarfélaga á Snæfellsnesi. Utankjörfundarkosning er hafin hjá Sýslumanni Snæfellinga á opnunartíma sýsluskrifstofunnar í Stykkishólmi, kl. 10-15 alla virka daga. Ennfremur gefst Grundfirðingum kostur á að kjósa utankjörfundar í Grundarfirði með því að hafa samband við Gísla Guðmundsson í s: 894-0648. Sjá nánar um kosninguna hér.  

Vetraropnunartími í sundlaug

Frá og með 22. ágúst verður sundlaugin opin sem hér segir:   Virka daga frá 16-21 Lau - sun frá 12-18   Hætt er að selja ofan í laugina hálftíma fyrir lokun! Börn undir 8 ára aldri fá ekki aðgang að sundlauginn nema í fylgd með ábyrgðarmanni, ekki undir 14 ára. Ábyrgðarmaður tekur fulla ábyrgð á barni og fylgir því alltaf, hvort sem er í lauginni eða pottunum.    Sundlaug Grundarfjarðar

Sigur hjá strákunum.

Strákarnir í 4. fl spiluðu í gær við Víði/Reynir og gerðu sér lítið fyrir og unnu leikinn 5 - 0. Leikurinn var vel spilaður og áttu þeir þennan sigur sannarlega skilið. Mörk UMFG gerðu þeir, Marinó, Hjörtur, Rúnar með eitt mark hvor og Brynjar var með tvö mörk. Nú er riðlakeppninni lokið og eru þeir í öðru sæti í riðlinum með 16 stig. Frábær árangur hjá 4.fl ka á íslandsmótinu í sumar. Til hamingju strákar.

Kaupstaðarafmæli

Í dag er óopinber afmælisdagur Grundarfjarðarkaupstaðar. Grundarfjörður var einn af sex kaupstöðum sem stofnaðir voru með konungsúrskurði 18. ágúst 1786. Hinir kaupstaðirnir voru Reykjavík, Ísafjörður, Akureyri, Eskifjörður og Vestmannaeyjar. Áttu þessir staðir að vera miðstöðvar verslunar, útgerðar og iðnaðar hver í sínum landshluta og aðsetur opinberra stofnana og embættismanna. Allir áðurgreindir staðir misstu kaupstaðarréttindi sín, nema Reykjavík sem fagnar í dag 219 ára kaupstaðarafmæli. Til hamingju með daginn, Reykvíkingar.  

Leikskólastarf hafið aftur eftir sumarfrí

Leikskólinn Sólvellir opnaði aftur í dag eftir sumarfrí. Leikskólabörnin voru í göngutúr í veðurblíðunni þegar ljósmyndari átti leið hjá.   Glöð leikskólabörn í göngutúr